Fara á efnissvæði
Til baka

Vörusala á 4F jókst um 15% og hagnaður nam 742 m.kr.

Ársreikningur Haga hf. fyrir rekstrarárið 2021/22 var samþykktur af stjórn og forstjóra félagsins á stjórnarfundi þann 28. apríl 2022. Reikningurinn er fyrir tímabilið 1. mars 2021 til 28. febrúar 2022. Ársreikningurinn hefur að geyma samstæðureikning félagsins og dótturfélaga þess og er hann gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS) og viðeigandi ákvæði laga um ársreikninga. Endurskoðendur félagsins, PricewaterhouseCoopers ehf., hafa endurskoðað reikninginn og áritað hann fyrirvaralausri áritun.

Helstu lykiltölur:

  • Vörusala 4F nam 35.288 m.kr. (15,2% vöxtur frá 4F 2020/21). Vörusala 12M nam 135.758 m.kr. (13,5% vöxtur frá 12M 2020/21). [4F 2020/21: 30.630 m.kr., 12M 2020/2021: 119.582 m.kr.]
  • Framlegð 4F nam 7.292 m.kr. (20,7%) og 28.441 m.kr. (20,9%) fyrir 12M. [4F 2020/21: 7.024 m.kr. (22,9%), 12M 2020/2021: 26.515 m.kr. (22,2%)]
  • Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) 4F nam 2.442 m.kr. eða 6,9% af veltu. EBITDA 12M nam 10.518 m.kr. eða 7,7% af veltu. [4F 2020/21: 2.542 m.kr. (8,3%), 12M 2020/21: 8.805 m.kr. (7,4%)]
  • Hagnaður 4F nam 724 m.kr. eða 2,1% af veltu. Hagnaður 12M nam 4.001 m.kr. eða 2,9% af veltu. [4F 2020/21: 846 m.kr. (2,8%), 12M 2020/21: 2.519 m.kr. (2,1%)]
  • Grunnhagnaður á hlut 4F var 0,63 kr. og 3,47 kr. fyrir 12M. [4F 2020/21: 0,73 kr., 12M 2020/21: 2,15 kr.]. Þynntur hagnaður á hlut 4F var 0,61 kr. og 3,43 kr. fyrir 12M. [4F 2020/21: 0,73 kr., 12M 2020/21: 2,15 kr.]
  • Eigið fé nam 26.726 m.kr. í lok árs og eiginfjárhlutfall 41,0%. [Árslok 2020/21: 25.187 m.kr. og 40,9%]
  • Afkomuspá stjórnenda fyrir rekstrarárið 2021/22, sem uppfærð var í nóvember sl., gerði ráð fyrir að EBITDA yrði 10.000-10.500 m.kr. að meðtöldum hagnaði af sölu rekstrareininga.

Helstu fréttir af starfsemi:

  • Síðasti ársfjórðungur rekstrarársins 2021/22 gekk vel og jókst velta um 15,2% milli ára. Jólaverslun var umfram væntingar. Afkoma fjórðungs var lítillega undir fyrra ári en heldur hærri að teknu tilliti til einskiptisliða.
  • Heimsóknum í verslanir fjölgar áfram á milli ára en seldum stykkjum fjölgaði einnig nokkuð á fjórðungnum. Magnaukning í eldsneytislítrum á 4F er rúm 52%. 
  • Framlegð í krónum talið hækkar milli ára en framlegðarhlutfallið lækkar nokkuð, einkum vegna aukinnar sölu eldsneytis til stórnotenda og hækkunar á heimsmarkaðsverði. 
  • Lenging afgreiðslutíma verslana Bónus hefur skilað sér í fjölgun viðskiptavina og veltuaukningu. Viðskiptavinir eru ánægðir með breytinguna.
  • Verð á aðföngum hefur hækkað töluvert undanfarin misseri vegna hnökra í framleiðslu og aðfangakeðju, bæði vegna eftirstöðva COVID-19 faraldursins og vegna afleiðinga stríðsátaka í Úkraínu.
  • Í mars 2022 undirrituðu Hagar samning um kaup á öllu hlutafé Eldum rétt ehf. Kaupin eru háð samþykki SE.
  • Enn er beðið niðurstöðu SE varðandi kaup Haga á 1/3 hlutafjár í Klasa ehf.
  • Afkomuspá stjórnenda fyrir rekstrarárið 2022/23 gerir ráð fyrir að EBITDA verði 9.900-10.400 m.kr. sem er svipað eða heldur umfram afkomu síðastliðins rekstrarárs, að teknu tilliti til söluhagnaðar rekstrareininga fyrra árs.

 

Finnur Oddsson, forstjóri:

Starfsemi Haga á síðasta fjórðungi rekstrarársins 2021/22 gekk vel og einkenndist af áframhaldandi kröftugri tekjuaukningu og góðri afkomu. Vörusala nam 35,3 ma. kr., sem er aukning um ríflega 15% frá fyrra rekstrarári. EBITDA nam 2.442 m.kr og hagnaður var 724 m.kr., sem er nokkuð umfram áætlanir stjórnenda.

Niðurstaða fjórðungsins er ánægjulegur lokahnykkur á gott rekstrarár Haga, þar sem tekjur ársins námu 135,8 ma. kr., EBITDA 10,5 ma. kr. og hagnaður 4,0 ma. kr., sem er umtalsverð aukning frá fyrra rekstrarári. Við erum ánægð með rekstur félagsins á fjórðungnum og á árinu í heild, en afkoma allra stærstu rekstrareiningar Haga, þ.e. Bónus, Hagkaup og Olís, batnaði á milli ára. 

Þegar horft er til afkomu rekstrareininga samstæðunnar munar mestu um nauðsynlegar breytingar í rekstri og áherslum hjá Olís, en þar jukust tekjur og framlegð mikið á meðan rekstrarkostnaður stóð í stað. Árangur á kostnaðarhliðinni er tilkominn vegna fækkunar stöðugilda og lægri launakostnaðar í kjölfar markvissrar aðlögunar á þjónustuframboði og rekstri þjónustustöðva, hagræðingar í útibúaneti og lokunar á óarðbærum einingum. Framlegð vörusölu hjá Olís hélt áfram að aukast í fjórðungnum í takti við aukið magn, en lækkar þó hlutfallslega vegna hækkunar á heimsmarkaðsverði olíu og mikillar söluaukningar til stórnotenda.

Í hagræðingarvinnu Olís hefur verið lagður grunnur að frekari umbreytingu smásölusviðs, en hún lítur dagsins ljós á næstunni, með uppfærslu á vörumerki, nýrri ásýnd þjónustustöðva og breikkun vöruframboðs. Samhliða þessum breytingum hefur á síðustu mánuðum verið unnið að því að einfalda sölu- og aðfangaskipulag gagnvart stórnotendum sem gert er ráð fyrir að skili sér í frekara rekstrarhagræði og aðlagaðri en um leið betri þjónustu við viðskiptavini á landsbyggðinni. Sala á hreinlætis‐, rekstrar‐  og heilbrigðisvörum verður í næsta mánuði færð úr Olís í nýja sölueiningu, Stórkaup, sem mun sækja fram á grunni sterkra innkaupa‐ og vöruhúsainnviða Haga og breiðara vöruframboði fyrir stórnotendur.

Tekjur af dagvörusölu, í Bónus og Hagkaup, jukust um 6% á fjórðungnum, en fleiri heimsóttu verslanir Haga samanborið við sama tímabil á fyrra ári og seldum stykkjum fjölgaði. Hér munar um mikla jólaverslun og hversu vel viðskiptavinir hafi tekið í lengri opnunartíma hjá Bónus frá því í nóvember, komið oftar og verslað meira.  Þessi aukna aðsókn vegur upp væntan samdrátt vegna þess að mun fleiri landsmenn lögðu land undir fót og dvöldu erlendis síðustu mánuði heldur en þegar COVID-19 faraldurinn stóð sem hæst. Hluta tekjuaukningar má rekja til hækkunar á vöruverði en verð á aðföngum frá framleiðendum og birgjum hélt áfram að hækka á fjórðungnum, einkum vegna hnökra í framleiðslu og aðfangakeðjum sem rekja má til COVID-19. Gera má ráð fyrir að stríðsátök í Úkraínu komi til með að auka enn frekar á þau vandamál sem valdið hafa verðhækkun á matvöru að undanförnu.

Á fjórðungnum voru stigin frekari skref í að laga starfsemi Haga að breyttum stefnumótandi áherslum, auka fókus á skilgreinda kjarnastarfsemi, efla tengingu við viðskiptavini og treysta sérstöðu vörumerkja Haga. Stafræn vegferð Haga og dótturfélaga, sem hófst á haustmánuðum, skilaði nýrri netverslun Hagkaups með snyrtivöru auk þess sem lokið var við smíði netverslunar fyrir nýja rekstrareiningu Stórkaups. Hvoru tveggja myndar grunn fyrir önnur stafræn verkefni sem munu skila auknu hagræði og bættri þjónustu við viðskiptavini á næstu mánuðum. Hagar undirrituðu samning um kaup á öllu hlutafé í Eldum rétt ehf. en kaupin eru liður í því að bregðast við breyttum neysluvenjum í samfélaginu, þar sem aukin áhersla er á hollar en einfaldar lausnir sem spara spor og tíma í amstri dagsins. Vörur og þjónusta Eldum rétt falla vel að þessum áherslum og er ákjósanleg viðbót við starfsemi Haga. Kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.

Heilt yfir þá gekk starfsemi Haga vel á síðastliðnu rekstrarári. Skilvirkni rekstrar hefur aukist jafnt og þétt og allar helstu kennitölur hafa styrkst í síðustu uppgjörum. Þessa styrkingu má að hluta rekja til aukinnar innlendrar eftirspurnar en ekki síður er hún merki um að fjölmörg umbótaverkefni frá haustmánuðum 2020 skila nú beinum rekstrarlegum ávinningi.

Á síðasta ári voru stigin mikilvæg stefnumótandi skref sem munu hafa áhrif á rekstur og afkomu Haga til lengri tíma. Þar má nefna aðgerðir til að auka áherslu stjórnenda á kjarnastarfsemi Haga, þ.e. rekstri á dagvöru- og eldsneytismarkaði, eins og sölu á Útilíf og Reykjavíkur Apóteki. Hagar keyptu svo hlutafé í Klasa ehf. til að hraða uppbyggingu þróunareigna Haga og gera hagkvæmari. Stafrænar áherslur munu til framtíðar bæta skilvirkni í rekstri og efla þjónustu gagnvart viðskiptavinum, m.a. með auknu framboði og bættu aðgengi að vörum og þjónustu. Vinna við að skerpa á og aðlaga vörumerki dótturfélaga Haga á neytendamarkaði skilar sér yfir lengri tíma í aukinni eftirspurn, og stofnun Stórkaups og aukin þjónusta við rekstraraðila, hótel og veitingageira er mikilvægt skref inn á vaxandi markað sem Hagar munu nú sinna enn betur. Við höfum þessu til viðbótar styrkt jákvætt samfélagsspor okkar, t.a.m. með bættri frammistöðu í umhverfis- og sjálfbærnimálum, stuðningi við frumkvöðlastarf í matvælaframleiðslu og aðstoð við góð málefni.

Síðastliðið rekstrarár var um margt sögulegt hjá Högum. Vörusala í Bónus hefur ekki áður verið meiri, nú umfram 64 ma. kr., Hagkaup skilaði bestu rekstrarniðurstöðu í sögu félagsins og Olís átti gott rekstrarár á sama tíma og félagið gekk í gegnum afgerandi breytingar, bæði í mönnun og skipulagi. Þessi árangur verður til fyrir vinnu öflugs hóp starfsfólks þessara félaga, ásamt kollegum í Banönum, Aðföngum og Zara, sem hefur á  undanförnum árum staðið vaktina af einstakri fagmennsku og dugnaði. Síðastliðið ár var þar engin undantekning og má miðað við aðstæður telja það nokkuð þrekvirki að tekist hafi að viðhalda fullu vöruframboði og það gert á eins hagkvæman hátt og raun ber vitni. 

Hagar búa að sterkri fjárhagsstöðu sem gerir félaginu kleift að fylgja eftir nýjum áherslum í rekstri og tengdum verkefnum til skemmri og lengri tíma. Framundan eru hins vegar óvenjulegir tímar þar sem búast má við frekari hækkunum á aðföngum vegna farsóttar og stríðsátaka, en um leið eru aðrir þættir sem gætu stuðlað að styrkingu gengis, m.a. væntur aukinn ferðamannastraumur. Heilt yfir eru horfur í rekstri Haga í þessum óvenjulegu kringumstæðum góðar, en meginverkefni okkar í verslun verður að tryggja framboð á nauðsynlegri dagvöru, um leið og lögð verður sérstök áhersla á hagkvæmni í innkaupum og rekstri, m.a. til að vega upp á móti verðhækkunum á matvöru sem nú gætir í heiminum öllum. Markmið okkar er áfram það sama og verður sífellt mikilvægara, að efla hag viðskiptavina okkar með því að gera verslun sem hagkvæmasta, en um leið þægilega og skemmtilega.

Spá stjórnenda um afkomu gerir ráð fyrir að EBITDA samstæðunnar á næsta rekstrarári verði á bilinu 9.900 – 10.400 m.kr. sem er svipað eða heldur umfram afkomu síðastliðins rekstrarárs ef tekið er tillit til hagnaðar af sölu rekstrareininga á því tímabili.

 

Kynningarfundur föstudaginn 29. apríl 2022

Kynningarfundur fyrir markaðsaðila og hluthafa verður haldinn á Nauthól, Nauthólsvegi 106 í Reykjavík, föstudaginn 29. apríl kl. 08:30. Þar mun Finnur Oddsson, forstjóri, og Guðrún Eva Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, kynna rekstur og afkomu félagsins, ásamt því að svara fyrirspurnum.

Fundinum verður auk þess varpað í gegnum netið hér: https://www.hagar.is/skraning

Kynningargögn verða aðgengileg á heimasíðu Haga, www.hagar.is, við upphaf fundar.

 

Frekari upplýsingar um uppgjörið má finna í meðfylgjandi fréttatilkynningu og ársreikningi.

 

Nánari upplýsingar veita Finnur Oddsson, forstjóri félagsins (fo@hagar.is) og Guðrún Eva Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs (geg@hagar.is), í síma 530-5500 eða tölvupósti.

 

Hagar Ársreikningur 28 2 2022 ísl.

Fréttatilkynning Hagar 4F 2021-22