Fara á efnissvæði
Til baka

Vörusala á 1F jókst um 19% og hagnaður nam 926 m.kr

Uppgjör Haga hf. á 1. ársfjórðungi 2022/23

Árshlutareikningur Haga hf. fyrir fyrsta ársfjórðung 2022/23 var samþykktur af stjórn og forstjóra félagsins á stjórnarfundi þann 30. júní 2022. Reikningurinn er fyrir tímabilið 1. mars til 31. maí 2022. Árshlutareikningurinn hefur að geyma samstæðureikning félagsins og dótturfélaga þess og er hann gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS). Reikningurinn hefur hvorki verið kannaður né endurskoðaður af endurskoðendum félagsins, PricewaterhouseCoopers ehf.

 

Helstu lykiltölur:

  • Vörusala 1F nam 38.213 m.kr. (19,3% vöxtur frá 1F 2021/22). [1F 2021/22: 32.034 m.kr.]
  • Framlegð 1F nam 7.564 m.kr. (19,8%). [1F 2021/22: 6.849 m.kr. (21,4%)]
  • Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) 1F nam 2.668 m.kr. eða 7,0% af veltu. [1F 2021/22: 2.278 m.kr. (7,1%)]
  • Hagnaður 1F nam 926 m.kr. eða 2,4% af veltu. [1F 2021/22: 727 m.kr. (2,3%)]
  • Grunnhagnaður á hlut 1F var 0,82 kr. [1F 2021/22: 0,63 kr.]. Þynntur hagnaður á hlut 1F var 0,81 kr. [1F 2021/22: 0,63 kr.]
  • Eigið fé nam 27.152 m.kr. í lok tímabils og eiginfjárhlutfall 40,2%. [Árslok 2021/22: 26.726 m.kr. og 41,0%]
  • Afkomuspá stjórnenda fyrir rekstrarárið 2022/23 var nýlega uppfærð og gerir ráð fyrir að EBITDA verði 10.200-10.700 m.kr., án áhrifa vegna viðskipta með Klasa.

 

Helstu fréttir af starfsemi:

  • Rekstur á fyrsta ársfjórðungi gekk vel, með 19% veltuaukningu milli ára og heildarhagnaði 27% yfir fyrra ári.
  • Seldum stykkjum í dagvöruverslunum fjölgar milli ára og heimsóknum viðskiptavina fjölgar auk þess um rúm 10% á fjórðungnum. Magnaukning í eldsneytis­lítrum á 1F er rúm 17%. 
  • Framlegð í krónum talið eykst um 10,4% milli ára en framlegðarhlutfallið lækkar um 1,6%-stig, einkum vegna aukinnar sölu eldsneytis til stórnotenda og hækkunar á heimsmarkaðs­verði. 
  • Lengri afgreiðslutími verslana Bónus skilar áfram fjölgun viðskiptavina og aukinni sölu.
  • Áhrif COVID-19 hafa minnkað en ýmissa hnökra gætir í framleiðslu matvöru og í aðfangakeðjunni, vegna eftirstöðva farsóttar og vegna stríðsátaka í Úkraínu – hefur leitt til hækkandi aðfangaverðs og aukið líkur á vöruskorti einstaka vöruflokka.
  • Í mars 2022 var gengið frá samningum um kaup Haga á öllu hlutfé í Eldum rétt ehf.  Kaupin eru háð samþykki SE.  
  • Í júní 2022 undirrituðu Hagar sátt við Samkeppniseftirlitið vegna kaupa félagsins á nýju hlutafé í Klasa ehf.

 

Finnur Oddsson, forstjóri:

Starfsemi Haga á fyrsta fjórðungi rekstrarársins 2022/23 gekk heilt yfir vel og einkenndist m.a. af áframhaldandi tekjuvexti og ágætri afkomu. Vörusala jókst um 19% miðað við sama tímabil á fyrra  ári og nam 38,2 ma. kr. EBITDA nam 2.668 m.kr. og hagnaður var 926 m.kr. 

Eftirstöðvar COVID-19 og stríðsátök í Úkraínu höfðu nokkur áhrif á reksturinn og skýra hækkanir aðfangaverðs, bæði í dagvöru og eldsneyti, og tekjuvöxt að einhverju leyti. Bætta afkomu Haga á milli fjórðunga má að stórum hluta rekja til starfsemi Olís sem skilaði umtalsvert betri afkomu en í fyrra. Þar raungerist ávinningur vegna nokkurra þátta, þ.e. hagræðingar í rekstri Olís á síðustu misserum, breyttum áherslum í rekstri þjónustustöðva, fjölgun erlendra ferðamanna og mikið auknum umsvifum hjá stórnotendum, m.a. í útgerð og ferðaþjónustu. Framlegð vörusölu hjá Olís jókst í krónum talið í takti við aukið magn, en lækkar sem hlutfall af tekjum.  Helstu áhrifaþættir eru mikil hækkun á heimsmarkaðsverði olíu og umtalsverð söluaukning til stórnotenda.

Tekjur vegna sölu á dagvöru í Bónus og Hagkaup jukust um tæp 6% á fjórðungnum, seldum stykkjum fjölgaði lítillega og heimsóknum viðskiptavina töluvert. Tekjuaukningu má að hluta rekja til aukningar hjá Bónus og að hluta til hærra vöruverðs, en verð á aðföngum frá framleiðendum og birgjum hélt áfram að hækka á fjórðungnum, af fyrrgreindum ástæðum. Afkoma í dagvörusölu var svipuð á milli ára. 

Vinna við breyttar áherslur í starfsemi Haga hélt áfram á fjórðungnum og gekk vel.  Þar má m.a. nefna breytingar á vörumerki Olís og umbreytingu á starfsemi smásölusviðs, einföldun á fyrirtækjasviði Olís og stofnun nýrrar rekstrareiningar, Stórkaups, í maí. Nýjar áherslur og lengri opnunartími hjá Bónus hafa einnig gefist vel, náðu til fleiri verslana og endurspeglast ágætlega í nýrri og glæsilegri verslun sem opnuð var á Akureyri í maí.  Kaup Haga á hlut í Klasa voru samþykkt af Samkeppniseftirlitinu, en kaupin eru liður í því að auka fókus stjórnenda Haga í sölu á dagvöru og eldsneyti og treysta um leið verðmætasköpun á grunni þróunareigna félagsins. Gengið var frá samningum um kaup Haga á Eldum rétt ehf., sem einkum eru hugsuð til að bregðast við breyttum neysluvenjum og aukinni áherslu á hollar og einfaldar lausnir fyrir viðskiptavini. Vinnu við stafræn verkefni miðar vel, annars vegar til að tryggja betur grunnrekstur upplýsingakerfa og hins vegar til að efla þjónustu við viðskiptavini, m.a. með áframhaldandi þróun netverslana fyrir Hagkaup og Stórkaup.

Við erum ánægð með árangur Haga á þessum fyrsta fjórðungi rekstrarársins. Heilt yfir þá gekk vel og eins og síðustu fjórðunga þá njótum við nú góðs af aðgerðum til að auka skilvirkni rekstrar. Vegna hækkandi aðfangaverðs sem meðal annars hlýst af átökum í Úkraínu er ljóst að það eru ögrandi tímar framundan í smásölu. Sem fyrr verður okkar mikilvægasta viðfangsefni að tryggja framboð á nauðsynjum og gæta sérstaklega að hagkvæmni í allri okkar starfsemi, einkum til að vega upp á móti verðhækkunum á nauðsynjum sem nú gætir bæði hérlendis og erlendis.  

Nýlega uppfærð afkomuspá gerir ráð fyrir að EBITDA samstæðunnar á yfirstandandi rekstrarári verði á bilinu 10.200 – 10.700 m.kr., án áhrifa vegna viðskipta með Klasa.

 

Rafrænn kynningarfundur föstudaginn 1. júlí 2022

Rafrænn kynningarfundur fyrir markaðsaðila og hluthafa verður haldinn föstudaginn 1. júlí kl. 8:30. Fundinum verður varpað í gegnum netið, þar sem Finnur Oddsson, forstjóri, og Guðrún Eva Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, munu kynna rekstur og afkomu félagsins ásamt því að svara fyrirspurnum.

Tekið verður við spurningum sem tengjast uppgjörinu á meðan á útsendingu stendur á netfangið fjarfestakynning@hagar.is og verður þeim svarað eins og kostur er í lok fundar.

Fundinum verður streymt og er skráning á fundinn hér: https://www.hagar.is/skraning

Kynningargögn verða aðgengileg á heimasíðu Haga, www.hagar.is, við upphaf fundar.

 

Frekari upplýsingar um uppgjörið má finna í meðfylgjandi fréttatilkynningu og árshlutareikningi.

Nánari upplýsingar veita Finnur Oddsson, forstjóri félagsins (fo@hagar.is) og Guðrún Eva Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs (geg@hagar.is), í síma 530-5500 eða tölvupósti.

 

Hagar Árshlutareikningur 31.5.2022 Ísl

Fréttatilkynning Hagar 1F 2022-23