Ágætur gangur í rekstri og söluferli á Olíudreifingu hafið
Árshlutareikningur Haga hf. fyrir annan ársfjórðung 2024/25 var samþykktur af stjórn og forstjóra félagsins á stjórnarfundi þann 17. október 2024. Reikningurinn er fyrir tímabilið 1. mars til 31. ágúst 2024. Árshlutareikningurinn hefur að geyma samstæðureikning félagsins og dótturfélaga þess og er hann gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS). Reikningurinn hefur verið kannaður af endurskoðendum félagsins, PricewaterhouseCoopers ehf.
Helstu lykiltölur
- Vörusala 2F nam 46.579 m.kr. (2,8% vöxtur frá 2F 2023/24). Vörusala 6M nam 90.646 m.kr. (4,4% vöxtur frá 6M 2023/24). [2F 2023/24: 45.309 m.kr., 6M 2023/24: 86.799 m.kr.]
- Framlegð 2F nam 10.174 m.kr. (21,8%) og 19.711 m.kr. (21,7%) fyrir 6M. [2F 2023/24: 9.903 m.kr. (21,9%), 6M 2023/24: 17.975 m.kr. (20,7%)]
- Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) 2F nam 4.014 m.kr. eða 8,6% af veltu. EBITDA 6M nam 7.228 m.kr. eða 8,0% af veltu. [2F 2023/24: 4.472 m.kr. (9,9%), 6M 2023/24: 6.993 m.kr. (8,1%)]
- Hagnaður 2F nam 1.723 m.kr. eða 3,7% af veltu. Hagnaður 6M nam 2.573 m.kr. eða 2,8% af veltu. [2F 2023/24: 2.084 m.kr. (4,6%), 6M 2023/24: 2.737 m.kr. (3,2%)]
- Grunnhagnaður á hlut 2F var 1,59 kr. og 2,37 kr. fyrir 6M. [2F 2023/24: 1,88 kr., 6M 2023/24: 2,47 kr.]. Þynntur hagnaður á hlut 2F var 1,56 kr. og 2,33 kr. fyrir 6M. [2F 2023/24: 1,84 kr., 6M 2023/24: 2,42 kr.]
- Eigið fé nam 28.282 m.kr. í lok tímabils og eiginfjárhlutfall 34,9%. [Árslok 2023/24: 28.188 m.kr. og 36,5%]
- Afkomuspá stjórnenda fyrir rekstrarárið 2024/25 er óbreytt og gerir ráð fyrir að EBITDA verði 13.800-14.300 m.kr.
Helstu fréttir af starfsemi
- Rekstur á öðrum ársfjórðungi gekk ágætlega en söluaukning nam 2,8% milli ára.
- Á 2F fækkar seldum stykkjum í dagvöruverslunum lítillega milli ára, eða um tæplega 1,0% en heimsóknum viðskiptavina fjölgar um 1,6% - aukning í Bónus en samdráttur hjá Hagkaup.
- Seldum eldsneytislítrum fækkaði um 4,2% á fjórðungnum - stór einskiptisverkefni á samanburðartímabili skekkja samanburð.
- Framlegð í krónum talið jókst um 2,7% milli ára og framlegðarhlutfallið stóð nánast í stað í 21,8% á fjórðungnum.
- Undirbúningur að opnun erlendrar vefverslunar með áfengi stóð yfir á tímabilinu og opnaði Hagar Wine, dótturfélag Haga, vefverslun með áfengi í samstarfi við Hagkaup í byrjun september.
- Bónus og KKÍ gerðu með sér samstarfssamning þar sem Bónus er nú einn af aðal samstarfsaðilum KKÍ og munu úrvalsdeildir karla og kvenna bera nafn Bónus.
- Í samræmi við samþykkt hluthafafundar þann 30. ágúst sl. var þann 31. ágúst úthlutað kaupréttum fyrir samtals 12,9 millj. hlutum í félaginu, eða sem samsvarar 1,17% af hlutafé. Þar af var 11,0 millj. úthlutað til framkvæmdastjórnar.
- Eftir lok ársfjórðungs, þann 26. september sl., var tilkynnt um að Hagar og meðeigendur hefðu ákveðið að hefja formlegt söluferli á eignarhlutum félaganna í Olíudreifingu
Finnur Oddsson, forstjóri:
Rekstur Haga í sumar, á öðrum ársfjórðungi rekstrarársins 2024/25, gekk ágætlega og samkvæmt áætlunum. Á fjórðungnum jókst vörusala um 2,8% miðað við árið á undan og nam 46.579 m.kr. Framlegð jókst að sama skapi um 2,7% í krónum talið en framlegðarhlutfall stóð í stað og var 21,8%. Þrátt fyrir að rekstur hafi gengið með ágætum, þá dróst afkoma á fjórðungnum heldur saman miðað við árið á undan, en EBITDA nam 4.014 m.kr. og hagnaður 1.723 m.kr. Þess ber að geta að afkoma á sama fjórðungi í fyrra var óvenju sterk í sögulegu samhengi.
Afkoma stærstu eininga sem falla undir verslanir og vöruhús styrktist á milli fjórðunga en afkoma starfsþáttar Olís dróst hins vegar nokkuð saman. Skýringin á samdrætti í afkomu Haga miðað við fyrra ár liggur því annars vegar í breytingum hjá Olís og hins vegar í hækkun fjármagnsgjalda. Hjá Olís er nauðsynlegt að horfa til samanburðar við sama fjórðung í fyrra, þegar selt magn og afkoma voru óvenju sterk, m.a. vegna hagfelldra hreyfinga í heimsmarkaðsverði olíu og stórra einskiptisverkefna. Tekjur Olís á fjórðungnum voru 14,7 ma. kr. og var eldsneytissala í lítrum á áætlun, bæði á smásölumarkaði og til stórnotenda. Ágætt ferðamannasumar, nýjar rafhleðslustöðvar í samstarfi við Ísorku og vel heppnuð samvinna með Wolt og póstafhendingarþjónustum skilaði sér í aukinni þurrvöru- og veitingasölu á þjónustustöðvum Olís. Heilt yfir hefur undirliggjandi rekstur Olís haldið áfram að styrkjast og enn er unnið að því að efla þjónustuframboð á stöðvum. Því tengt mun fyrsta bílaþvottastöð félagsins opna í desember undir merkinu Glans. Þá er formlegt söluferli á eignarhlutum Olís og meðeigenda í ODR hafið.
Tekjur í rekstri verslana og vöruhúsa jukust um tæp 5% og afkoma styrktist á milli fjórðunga. Heimsóknum viðskiptavina fjölgar sem fyrr hjá Bónus en hjá Hagkaup var samdráttur í bæði seldum stykkjum og heimsóknum. Stórbruni í Kringlunni í byrjun sumars, lokanir verslana og fækkun gesta, höfðu neikvæð áhrif á matvöruverslanir Haga í verslunarmiðstöðinni, en þar rekur félagið bæði Bónus verslun og stóra Hagkaups verslun. Einnig má gera ráð fyrir að háir stýrivextir og hækkandi greiðslubyrði fasteignalána séu farin að hafa áhrif í dagvöruverslun, sem sést m.a. á því að þó viðskiptavinum haldi áfram að fjölga og fjöldinn sé í sögulegu hámarki, þá fækkar stykkjum örlítið sem rata í hverja verslunarkörfu. Þeim fjölgar áfram sem nýta sér Gripið & Greitt þjónustu Bónus, enda fljótlegasta leiðin til að versla og léttir viðskiptavinum lífið. Þjónustan er nú í boði í sjö Bónusverslunum og fjórar bætast fljótlega við. Hagkaup hefur lagt sérstaka áherslu á að bæta þjónustuframboð á undanförnum misserum, m.a. með nýjungum í vöruframboði verslana og auknu úrvali í netverslun. Viðskiptavinir hafa tekið þessu aukna úrvali opnum örmum, sem ásamt átaki í hagræðingu skilar nú sterkari rekstri á milli fjórðunga. Netverslun Hagar Wine með áfengi opnaði í september og hefur verið vel tekið af viðskiptavinum frá fyrsta degi. Aukin eftirspurn ánægðra viðskiptavina og vélvæðing framleiðsluferla hjá Eldum rétt heldur áfram að skila sér í bættri afkomu og skilvirkari rekstri, m.a. vegna minni umbúðanotkunar. Starfsemi annarra eininga, þ.e. Aðfanga, Banana, Stórkaups og Zara var í takti við áætlanir.
Á síðustu mánuðum og misserum hefur kauphegðun viðskiptavina þegar kemur að dagvöru breyst nokkuð, m.a. hliðrast yfir í ódýrari valkosti og færst framar í mánuði. Hjá verslunum Haga, einkum Bónus, hefur sérstök áhersla hefur verið lögð á að hjálpa viðskiptavinum að versla ódýrt, m.a. með því að bjóða hagkvæmari staðkvæmdarvöru við dýrari vörumerki, auðvelda innkaup í réttu magni, fjölga tilboðum, o.fl. Í sama tilgangi hefur aðhald smásala og gott samstarf við helstu birgja stuðlað að lækkandi matarverðbólgu, sem á eftir að koma heimilum vel, samhliða vonandi áfram lækkandi vöxtum.
Heilt yfir erum við sátt með starfsemi Haga á fjórðungnum og það er ánægjulegt að afkoma helstu eininga á dagvöruhliðinni heldur áfram að styrkjast þrátt fyrir breytta kauphegðun viðskiptavina. Staða og horfur í rekstri Haga eru góðar, en rekstrareiningar félagsins standa sterkt, fjárhagsleg staða er góð, og mörg tækifæri til vaxtar á nýjum sviðum. Sem fyrr hefur félagið á að skipa frábærum hópi starfsfólks sem hefur hag neytenda að leiðarljósi, m.a. með því að leita stöðugt leiða til að auka hagkvæmni í verslun og gera hana þægilegri og skemmtilegri. EBITDA spá stjórnenda fyrir árið er óbreytt, 13,8 – 14,3 ma.kr.
Rafrænn kynningarfundur föstudaginn 18. október 2024
Rafrænn kynningarfundur fyrir markaðsaðila og hluthafa verður haldinn föstudaginn 18. október kl. 08:30, þar sem Finnur Oddsson, forstjóri, og Guðrún Eva Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, munu kynna rekstur og afkomu félagsins ásamt því að svara fyrirspurnum.
Tekið verður við spurningum sem tengjast uppgjörinu á meðan á útsendingu stendur á netfangið fjarfestakynning@hagar.is og verður þeim svarað eins og kostur er í lok fundar.
Fundinum verður streymt og er skráning á fundinn hér: https://www.hagar.is/skraning
Kynningargögn verða aðgengileg á heimasíðu Haga, www.hagar.is, við upphaf fundar.
Nánari upplýsingar veita Finnur Oddsson, forstjóri félagsins (fo@hagar.is), og Guðrún Eva Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs (geg@hagar.is), í síma 530-5500 eða tölvupósti.