Magnús Magnússon hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri stefnumótunar og rekstrar hjá Högum og mun hefja störf þann 1. febrúar. Guðrún Eva Gunnarsdóttir mun samhliða því taka við sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs Haga. Guðrún þekkir vel til starfsins en hún gegndi þeirri stöðu fram til 2019, en hefur síðan þá starfað sem framkvæmdastjóri rekstrar og samstæðu Haga.
Magnús hefur mikla reynslu af stefnumótun og almennum rekstri, bæði hérlendis og erlendis. Hann hefur undanfarið ár starfað sem sjálfstæður ráðgjafi, eftir að hafa leitt stefnumótunarteymi Marel árin þar á undan. Þar áður starfaði Magnús sem ráðgjafi hjá alþjóðlega ráðgjafafyrirtækinu McKinsey & Company þar sem Magnús aðstoðaði fjölda alþjóðlegra fyrirtækja með stefnumótun, rekstrarumbætur og stærri umbreytingar, og enn áður hjá hugbúnaðarfyrirtækinu AGR Dynamics. Magnús er með M.Eng. gráðu í iðnaðarverkfræði og aðgerðagreiningu frá UC Berkeley í Kaliforníu, og B.Sc. gráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands.
Framkvæmdastjóri stefnumótunar og rekstrar er ný staða innan Haga sem m.a. ber ábyrgð á stefnumótun og eftirfylgni, viðskiptaþróun og rekstrargreiningum, þ.m.t. stuðningi við dótturfélög er varðar greiningar og umbótaverkefni. Mikil vinna hefur átt sér stað síðastliðna mánuði við skilgreiningu á áherslum í rekstri og stefnu Haga til lengri tíma. Lykilverkefni framkvæmdastjóra stefnumótunar og rekstrar verður að styðja við framhald þessarar vinnu.
“Magnús hefur í hlutverki ráðgjafa starfað náið með okkur hjá Högum og dótturfélögum frá því síðastliðið sumar við mótun áherslna Haga og dótturfélaga til framtíðar. Sú vinna hefur gengið vel og það er afar ánægjulegt að fá hann varanlega með okkur í teymið. Magnús þekkir vel til allrar okkar starfsemi og þess sem framundan er og býr að dýrmætri reynslu úr fyrri störfum við að koma á breytingum sem skila viðskiptavinum og eigendum ávinningi. Við bjóðum Magnús sérstaklega velkominn í hópinn og væntum mikils af samstarfinu.” segir Finnur Oddsson, forstjóri Haga.