Fara á efnissvæði
Til baka

Jóhanna Þ. Jónsdóttir ráðin framkvæmdastjóri Banana ehf.

Jóhanna Þ. Jónsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Banana ehf., dótturfélags Haga hf., en líkt og fram kom í tilkynningu þann 2. júlí sl. hefur Kjartan Már Friðsteinsson beðist lausnar úr starfi eftir langan og farsælan feril. Jóhanna hefur víðtæka reynslu af stjórnun og stefnumótun, einkum á sviði aðfangastýringar, rekstri vöruhúsa og innkaupa. Hún hefur undanfarin ár starfað sem framkvæmdastjóri aðfangakeðju Innnes ehf. sem er ein af stærstu matvöruheildverslunum landsins.  Áður vann hún hjá Distica, Bláa Lóninu og Össuri. Jóhanna er með B.Sc. gráðu frá Tækniháskóla Íslands og hefur lokið MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Jóhanna mun hefja störf á næstu vikum.

„Það er sérlega ánægjulegt og fengur fyrir Banana og Haga að fá Jóhönnu til liðs við afar sterkan hóp sem þar starfar fyrir.  Jóhanna býr að víðtækri reynslu á sviðum sem skipta sköpum í okkar rekstri, sérstaklega tengt stjórnun aðfangakeðju, gæðamálum og uppbyggingu framúrskarandi þjónustuframboðs. Þá hefur Jóhanna mikla reynslu í bættri nýtingu í aðfangastýringu með tæknilausnum og mun sú reynsla nýtast félaginu vel í komandi verkefnum. Eftirspurn eftir ferskvöru á borð við grænmeti og ávexti hefur aukist verulega undanfarin ár og svo verður áfram.  Við sjáum mikil tækifæri í að efla enn frekar þjónustuframboð Banana en með því höldum við áfram að uppfylla þarfir viðskiptavina, sem og að stuðla að sjálfbærni og betri lýðheilsu.  Við bjóðum Jóhönnu sérstaklega velkomna í teymið." segir Finnur Oddsson forstjóri Haga.

„Ég er full tilhlökkunar að verða hluti af því öfluga teymi sem starfar hjá Banönum. Bananar eru glæsilegt fyrirtæki sem með sérlega góðu framboði af ávöxtum og grænmeti af bestu gæðum gegnir mikilvægu hlutverki í lýðheilsu landsmanna.  Áhugi neytenda og almenn neysla á grænmeti og ávöxtum hefur verið að aukast undanfarin ár og mun sú þróun að öllum líkindum halda áfram. Ég er því afar spennt fyrir verkefninu og þakklát fyrir traustið sem mér er sýnt til þess að leiða fyrirtækið inn í framtíðina, en byggja um leið á þeim trausta grunni sem til staðar er. Ég hlakka mikið til þess að hefja störf á næstu vikum." segir Jóhanna Þ. Jónsdóttir nýr framkvæmdastjóri Banana.

 

Bananar ehf. eru stærsta innflutnings- og dreifingarfyrirtæki landsins í ávöxtum og grænmeti og þjóna stórum og kröfuhörðum hópi viðskiptavina, meðal annars verslunum, veitingahúsum, sjúkrahúsum, skólum og mötuneytum.  Bananar eru dótturfélaga Haga hf.