Uppgjör Haga hf. á 2. ársfjórðungi 2020/21
Árshlutareikningur Haga hf. fyrir annan ársfjórðung 2020/21 var samþykktur af stjórn og forstjóra félagsins á stjórnarfundi þann 29. október 2020. Reikningurinn er fyrir tímabilið 1. mars 2020 til 31. ágúst 2020. Árshlutareikningurinn hefur að geyma samstæðureikning félagsins og dótturfélaga þess og er hann gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS). Reikningurinn hefur verið kannaður af endurskoðendum félagsins, PricewaterhouseCoopers ehf.
Helstu lykiltölur
- Vörusala 2F nam 30.924 millj. kr. (2019/20: 30.914 millj. kr.). Vörusala 1H nam 59.165 millj. kr. (2019/20: 59.504 millj. kr.).
- Framlegðarhlutfall 2F var 23,5% (2019/20: 21,6%). Framlegðarhlutfall 1H var 22,1% (2019/20: 22,0%).
- Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) 2F nam 3.019 millj. kr. (2019/20: 2.489 millj. kr.). Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) 1H nam 4.316 millj. kr. (2019/20: 4.523 millj. kr.).
- Hagnaður 2F nam 1.321 millj. kr. eða 4,3% af veltu (2019/20: 1.056 millj. kr.). Hagnaður 1H nam 1.225 millj. kr. eða 2,1% af veltu (2019/20: 1.721 millj. kr.).
- Hagnaður á hlut 2F var 1,12 kr. (2019/20: 0,87 kr.). Hagnaður á hlut 1H var 1,04 kr. (2019/20: 1,42 kr.).
- Eigið fé nam 25.392 millj. kr. í lok tímabilsins og eiginfjárhlutfall 40,8% (Árslok 2019/20: 24.587 millj. kr. og 39,2%).
- Afkomuspá stjórnenda fyrir rekstrarárið 2020/21 gerir ráð fyrir að EBITDA verði 8.100-8.600 millj. kr.
Helstu fréttir af starfseminni
- Jákvæður viðsnúningur hjá öllum rekstrareiningum samstæðunnar á öðrum ársfjórðungi.
- Neikvæð áhrif vegna fyrstu bylgju COVID-19 heimsfaraldursins voru mikil á 1F og voru því að mestu komin fram á 2F.
- Gripið hefur verið til margvíslegra aðgerða til að tryggja öryggi og heilsu starfsfólks, viðskiptavina og annarra samstarfsaðila í heimsfaraldrinum.
- Heimsóknum viðskiptavina í matvöruverslanir hefur fækkað en meðalkarfa hefur stækkað umtalsvert.
- Mikil vinna við endurnýjun verslana Bónus og Hagkaups undanfarin misseri, þar sem þægindi og umhverfissjónarmið ráða ríkjum.
- Framkvæmd við nýtt kæli- og frystivöruhús Aðfanga á áætlun og undirbúningur flutnings hafinn.
- Sjálfsafgreiðslukössum fjölgað mikið. Meirihluti afgreiðslukassa í Bónus nú sjálfsafgreiðslukassar og eru þeir einnig komnir í allar matvöruverslanir Hagkaups.
- Aukin áhersla á umhverfisvænni umbúðir og plastnotkun því minnkað umtalsvert undanfarin misseri.
- Áherslur í rekstri og stefna félagsins hafa verið mótuð til lengri tíma. Útilíf og Reykjavíkur Apótek sett í söluferli.
Finnur Oddsson, forstjóri:
„Afkoma á öðrum ársfjórðungi var góð og umfram væntingar, sem endurspeglar styrk Haga samstæðunnar í ögrandi aðstæðum eins og þeim sem heimsfaraldur COVID-19 veldur. Við erum ánægð með þennan árangur og sérstaklega viðsnúninginn frá fyrstu mánuðum árs þegar faraldurinn setti stórt strik í reikninginn í öllum okkar rekstri.
Áhrifum COVID-19 er nokkuð misskipt eftir rekstrareiningum, en í samanburði við síðasta ár hefur verslana- og vöruhúsastarfsemi Haga gengið vel. Við finnum hins vegar fyrir því að viðskiptavinir okkar hafa breytt kauphegðun sinni með því að fækka heimsóknum í matvöruverslanir. Á sama tíma hefur meðalkarfa í hverri heimsókn stækkað töluvert og niðurstaðan er góð tekjuaukning í rekstri Bónus, Hagkaups og sérvöruverslana sem og aukin hagkvæmni í rekstri vöruhúsa Haga, Aðfanga og Banana.
Eftir erfiðan fyrsta ársfjórðung færðist rekstur Olís til betri vegar og gekk vel á öðrum fjórðungi, yfir sumarmánuðina. Þar nutum við góðs af ferðagleði landsmanna auk þess sem breytingar á olíuverði voru hagfelldari en á fyrsta fjórðungi. Rekstur er enn undir áætlunum og fyrirsjáanlegt er að neikvæðra áhrifa COVID-19 mun áfram gæta í meiri mæli hjá Olís en í verslunareiningum Haga. Til að takast á við þær aðstæður er mikilvægt að gæta sérstaklega að hagkvæmni í rekstri eins og við höfum gert undanfarna mánuði.
Þessi ágæti árangur á öðrum ársfjórðungi er langt frá því að vera sjálfsagður. Mér er efst í huga þakklæti til starfsfólks allra eininga Haga sem hefur sýnt bæði aðlögunarhæfni og fórnfýsi í þeim undarlegu kringumstæðum sem farsóttin hefur skapað. Sérstaklega vil ég þar nefna starfsfólk í framlínu verslana og eldsneytisstöðva, sem á hverjum degi þjónar fjölda viðskiptavina okkar af kostgæfni, nú sem fyrr. Velferð og hagsmunir viðskiptavina, starfsfólks og samfélagsins hafa verið í forgrunni í öllum okkar aðgerðum. Við munum áfram gera allt sem í okkar valdi stendur til að viðhalda öflugum sóttvörnum en um leið lágmarka neikvæð áhrif á þjónustu og upplifun viðskiptavina okkar.
Samhliða því að bregðast við aðstæðum og treysta þjónustu við viðskiptavini, höfum við nýtt undanfarna mánuði til að móta áherslur í rekstri og stefnu félagsins til lengri tíma litið. Á næstu misserum munu Hagar einblína á kjarnastarfsemi og leggja ríkari áherslu á það sem við gerum best, sem er annars vegar á dagvörumarkaði og hins vegar á markaði með eldsneyti. Vörumerki Haga eru sterk og með langa sögu, en það verður markmið okkar að efla sérstöðu þeirra enn frekar og sjá til þess að heildin mæti ólíkum þörfum neytenda sem allra best. Við viljum jafnframt efla gagnkvæmt samtal við viðskiptavini okkar, m.a. eftir stafrænum leiðum, til að geta brugðist hraðar við nýjum þörfum og örum breytingum á neysluhegðun. Í allri þessari vinnu verður mikilvægasti áttavitinn okkar og grundvallarmarkmið að efla hag neytenda í gegnum framúrskarandi verslun. Það eru skemmtilegir tímar fram undan hjá Högum.“