Fara á efnissvæði
Til baka

Hagar hf. ársuppgjör // mars 2019 – febrúar 2020

Ársreikningur Haga hf. fyrir rekstrarárið 2019/20 var samþykktur af stjórn og forstjóra félagsins á stjórnarfundi þann 18. maí 2020. Reikningurinn er fyrir rekstrarárið 1. mars 2019 til 29. febrúar 2020. Ársreikningurinn hefur að geyma samstæðureikning félagsins og dótturfélaga þess og er hann gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS). Endurskoðendur félagsins, PricewaterhouseCoopers ehf., hafa endurskoðað reikninginn og áritað hann fyrirvaralausri áritun.

Áhrif af rekstri Olíuverzlunar Íslands ehf. (Olís) og DGV ehf. á samstæðuna komu fyrst fram þann 1. desember 2018, þ.e. í upphafi fjórða ársfjórðungs 2018/19. Samanburðarfjárhæðum fyrri tímabila, þ.e. fyrstu þriggja ársfjórðunga rekstrarársins 2018/19, hefur ekki verið breytt og innifela þær því ekki rekstraráhrif af hinum nýju félögum.

Þann 1. mars 2019 var innleiddur alþjóðlegur reikningsskilastaðall IFRS 16 Leigusamningar í reikningsskil samstæðunnar. Samkvæmt nýja staðlinum er eign (réttur til að nota hina leigðu eign) og skuld vegna greiðslu leigu færð í efnahagsreikning. Leigueign í lok rekstrarárs var 9.435 milljónir króna og leiguskuld 10.167 milljónir króna. Áhrif staðalsins á rekstrarreikning ársins er 2.238 milljónir króna hækkun á EBITDA, 1.720 milljón króna hækkun á afskriftum og 564 milljón króna hækkun á vaxtagjöldum.

 

Helstu niðurstöður á rekstrarárinu 2019/20:

· Hagnaður tímabilsins eftir skatta nam 3.054 millj. kr. eða 2,6% af veltu.

· Hagnaður á hlut var 2,54 kr.

· Vörusala tímabilsins nam 116.357 millj. kr.

· Framlegð tímabilsins var 22,2%.

· Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) nam 8.890 millj. kr.

· Heildareignir samstæðunnar námu 62.708 millj. kr. í lok tímabilsins.

· Handbært fé félagsins nam 2.232 millj. kr. í lok tímabilsins.

· Eigið fé félagsins nam 24.587 millj. kr. í lok tímabilsins.

· Eiginfjárhlutfall var 39,2% í lok tímabilsins.

· EBITDA afkoma rekstrarársins er innan útgefinnar afkomuspár, sem var 8.750-9.200 millj. kr.

 

Rekstrarafkoma ársins 2019/20

Vörusala tímabilsins nam 116.357 milljónum króna, samanborið við 84.179 milljónir króna árið áður. Söluaukning tímabilsins milli ára er 38,2% og skýrist að mestu leyti af áhrifum Olís. Án áhrifa Olís er söluaukning félagsins 4,5% en söluaukning er m.a. í Bónus, þrátt fyrir fækkun verslana milli rekstrarára. Tólf mánaða meðaltal vísitölu neysluverðs milli rekstrarára hefur hækkað um 2,83% en hækkun vísitölunnar án húsnæðis var 2,56%. Vísitala innkaupa í erlendum gjaldmiðlum, þar sem vegnar eru innkaupamyntir Haga, sýnir veikingu íslensku krónunnar, eða um 1,7% á samanburðartímabilinu.

Framlegð félagsins var 25.806 milljónir króna, samanborið við 20.007 milljónir króna árið áður eða 22,2% framlegð samanborið við 23,8% á fyrra ári. Rekstrarkostnaður í heild hækkar um 1.543 milljónir króna sem skýrist að mestu af áhrifum Olís en til frádráttar eru leigugreiðslur sem tekjufærðar eru vegna IFRS 16 leigustaðals að upphæð 2.238 milljónir króna. Kostnaðarhlutfallið lækkar milli ára úr 18,8% í 15,0%. Án áhrifa IFRS 16 er kostnaðarhlutfallið nú 16,9%.

Afkoma fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) nam 8.890 milljónum króna, samanborið við 4.490 milljónir króna árið áður. EBITDA-hlutfall var 7,6%, samanborið við 5,3% árið áður. EBITDA afkoma án áhrifa IFRS 16 var 6.652 milljónir króna og EBITDA-hlutfall 5,7%.

Hagnaður tímabilsins eftir skatta nam 3.054 milljónum króna, sem jafngildir 2,6% af veltu en hagnaður eftir skatta á fyrra ári var 2.317 milljónir króna eða 2,8% af veltu.

 

Efnahagur samstæðunnar 29. febrúar 2020

Heildareignir samstæðunnar í lok rekstrarárs námu 62.708 milljónum króna. Fastafjármunir voru 47.554 milljónir króna en þar af er leigueign 9.435 milljónir króna. Veltufjármunir voru 15.154 milljónir króna en þar af eru birgðir 8.380 milljónir króna.

Eigið fé í lok tímabilsins var 24.587 milljónir króna og eiginfjárhlutfall 39,2%. Heildarhlutafé í lok rekstrarárs nam 1.213 milljónum króna og á félagið eigin hluti að nafnverði 24 milljónir króna.

Heildarskuldir samstæðunnar voru 38.122 milljónir króna í lok rekstrarárs en þar af voru langtímaskuldir 22.362 milljónir króna. Leiguskuldir voru samtals 10.167 milljónir króna. Vaxtaberandi skuldir voru samtals 13.897 milljónir króna og nettó vaxtaberandi skuldir 11.665 milljónir króna, eða 1,3x12 mánaða EBITDA. Veltufjárhlutfall var 0,96.

 

Sjóðstreymi rekstrarársins 2019/20

Handbært fé frá rekstri á rekstrarárinu nam 9.828 milljónum króna, samanborið við 2.882 milljónir króna á fyrra ári. Fjárfestingarhreyfingar tímabilsins voru 5.221 milljón króna, samanborið við 6.249 milljónir króna á fyrra ári. Fjármögnunarhreyfingar voru 3.111 milljónir króna, samanborið við jákvæða fjármögnunarhreyfingu að fjárhæð 3.881 milljónir króna á fyrra ári. Handbært fé í lok tímabilsins var 2.232 milljónir króna, samanborið við 736 milljónir króna árið áður.

 

Helstu fjárfestingar rekstrarársins

Kaup á 90% hlut í Reykjavíkur Apóteki og 100% hlut í Mjöll Frigg ehf.

Þann 7. mars 2019 undirrituðu Hagar samning um kaup á 90% hlutafjár í Reykjavíkur Apóteki. Kaupsamningurinn var undirritaður með fyrirvara um niðurstöðu áreiðanleikakönnunar og samþykki Samkeppniseftirlitsins. Þann 30. ágúst 2019 samþykkti Samkeppniseftirlitið samrunann og afhending og greiðsla kaupverðs fór fram þann 5. september 2019. Kaupverðið var greitt í reiðufé. Áhrif kaupanna á rekstrarreikning og efnahagsreikning Haga hf. koma fram frá og með 5. september 2019. Yfirteknir rekstrarfjármunir við samrunann nema 2 millj. kr. Eignfærð viðskiptavild vegna kaupanna er 68 millj. kr.

Þann 3. janúar 2020 samþykkti Samkeppniseftirlitið kaup dótturfélagsins Olís á öllu hlutafé í Mjöll Frigg ehf. Kaupsamningar um viðskiptin voru undirritaðir 29. apríl 2019 með fyrirvara um niðurstöðu áreiðanleikakönnunar og samþykki Samkeppniseftirlitsins. Fyrirvara um niðurstöðu áreiðanleikakönnunar var aflétt í júní 2019. Afhending félagsins fór fram á greiðsludegi, þann 7. janúar 2020. Kaupverð var greitt í reiðufé. Yfirteknir rekstrarfjármunir við samrunann nema 25 millj. kr. og yfirtekin viðskiptavild við samrunann er 8 millj. kr. Eignfærð viðskiptavild vegna kaupanna er 195 millj. kr.

Fjárfestingar í rekstrarfjármunum

Fjárfestingar í rekstrarfjármunum á árinu námu 5.006 milljónum króna. Fjárfest var í tveimur fasteignum, auk þess sem bygging 4.440 m2 kæli- og frystivöruhúss í Korngörðum er nokkuð á veg komin. Fjárfest var í 1.660 m2 fasteign að Bjarkarholti 7-9 í Mosfellsbæ en verslun Bónus flutti starfsemi sína í Mosfellsbæ í hið nýja húsnæði í september sl. Þá var fjárfest í fasteign sem hýsir verslun Hagkaups á Eiðistorgi. Auk flutnings á verslun Bónus í Mosfellsbæ var opnuð ný og glæsileg 1.400 m2 verslun Bónus á Garðatorgi í Garðabæ.

Ný Olís bensínstöð var opnuð í Varmahlíð í september 2019 þegar bensíndælur voru fluttar á nýjan stað en auk þess var öll stöðin endurnýjuð að innan og lauk þeim framkvæmdum í apríl 2019. Í september opnaði Olís einnig nýja ÓB sjálfsafgreiðslustöð í Vík í Mýrdal. Stöðin hentar vel bæði fólksbílum, sem og atvinnubifreiðum, þar sem gott pláss er á stöðinni. Einnig var reist verslunar- og þjónustuhúsnæði á lóðinni sem leigt er undir veitinga- og ferðaþjónusturekstur þriðja aðila. Ný ÓB stöð var opnuð á Sjafnargötu á Akureyri í febrúar sl. en sú stöð hentar einnig sérstaklega vel fyrir stórar atvinnubifreiðar.

Í byrjun febrúar opnaði Reykjavíkur Apótek nýtt og glæsilegt apótek í Skeifunni 11, þar sem Bónusverslun er einnig til húsa, en fasteignin er í eigu Haga.

Innleiðing sjálfsafgreiðslukassa hélt áfram á rekstrarárinu. Innleiðingin hefur gengið vonum framar og er henni nú lokið í 14 Bónusverslunum og sjö Hagkaupsverslunum, eða samtals 21 af 40 verslunum. Sjálfsafgreiðslukassarnir hafa leitt til aukinna afkasta á álagstímum, auk mikillar hagkvæmni í rekstri. Viðskiptavinir eru ánægðir en hlutfall afgreiðslufjölda í gegnum sjálfsafgreiðslukassa er á bilinu 35-60%.

Auk þeirra verkefna sem hér hafa verið talin upp var töluverð endurnýjun á eldri verslunum, auk þess sem Olís og Hagkaup fluttu skrifstofur sínar í Skútuvog 5 á árinu. Þá var nokkur fjárfesting vegna breytinga á vöruhúsastarfsemi félagsins.

 

Endurfjármögnun samstæðunnar

Á rekstrarárinu var unnið að endurfjármögnun samstæðunnar en um 7 ma.kr. greiðslur af lánum, sem voru á gjalddaga í október og nóvember 2019, voru greiddar 7. október 2019 þegar félagið lauk skuldabréfaútboði. Skuldabréfaútboðið er í verðtryggðum flokki, annars vegar að nafnverði 5,5 ma.kr. og hins vegar í óverðtryggðum flokki að nafnverði 2,5 ma.kr. Auk þess hefur samstæðan tryggt sér fjármögnun í formi lánalína að fjárhæð 4,5 ma.kr. og USD 12,5 millj. til að mæta skammtímasveiflum í rekstri. Hin nýju skuldabréf voru tekin til viðskipta á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland 17. febrúar 2020.

Verðtryggði skuldabréfaflokkurinn ber fasta 2,8% verðtryggða vexti en flokkurinn er tryggður með veði í lykilfasteignum Haga. Hann er til 10 ára með jöfnum afborgunum á 3 mánaða fresti. Endurgreiðsluferli afborgana fylgir 30 ára greiðsluferli. Flokkurinn er stækkanlegur í allt að 15 ma.kr. Óverðtryggði skuldabréfaflokkurinn ber fasta 4,65% vexti og er tryggður með veði í þróunareignum Haga. Hann er til 2 ára með einum gjalddaga höfuðstóls. Vextir greiðast á 3 mánaða fresti. Aðrar vaxtaberandi skuldir samstæðunnar eru óverðtryggðar með breytilegum vöxtum.

 

Samruni Haga og Olís

Samruni Haga og Olís hefur gengið vel og eru verkefnin flest vel á veg komin. Stærstu verkefnin tengjast skipulagsbreytingum og húsnæðismálum, þar sem vöruhúsamál er stærsta einstaka verkefnið. Auk þess var flutningur og samhæfing á skrifstofum Olís og Hagkaups á rekstrarárinu. Árlegur sparnaður í húsnæðiskostnaði vegna skrifstofuflutnings er 140-150 milljónir króna. Sparnaður í húsnæðiskostnaði vegna breytinga á vöruhúsastarfsemi er um 50 milljónir króna ári, en þau áhrif telja frá og með 1. mars 2021.

 

Endurkaupaáætlun

Þrjár endurkaupaáætlanir voru settar í framkvæmd á rekstrarárinu 2019/20. Heildarendurkaup á eigin hlutum á rekstrarárinu námu samtals 23,6 milljón hlutum og var kaupverð hinna keyptu hluta samtals 1.030 milljónir króna.

 

Samfélagsuppgjör og umhverfismál

Í lok árs 2019 skrifuðu Hagar, fyrir hönd allrar samstæðunnar, undir samning við Klappir Grænar lausnir ehf. en markmið með samningnum er að ná mælanlegum árangri í umhverfismálum og málum tengdum sjálfbærni. Samhliða því gefa Hagar nú í fyrsta sinn út samfélagsuppgjör samstæðunnar skv. UFS leiðbeiningum Nasdaq (e. ESG Reporting Guide 2.0). Samfélagsuppgjörið verður birt í ársskýrslu félagsins og á heimasíðu Haga, www.hagar.is. Vísað er til niðurstöðu skýrslunnar hvað varðar þróun, umfang, stöðu og áhrif félagsins í tengslum við umhverfis-, samfélags- og starfsmannamál.

Bónus, Hagkaup og Olís hafa hugað vel að umhverfismálum sínum í lengri tíma og verið fyrirmynd annarra fyrirtækja í þessum mikilvæga málaflokki. Til að mynda var Bónus fyrsta matvöruverslun á landinu til að kolefnisjafna rekstur verslana sinna og gróðursetti alls 6.670 tré á um tveggja hektara landsvæði til að jafna út kolefnisspor verslana sinna fyrir árið 2018 í samstarfi við Kolvið. Verslunarkeðjan mun að sama skapi planta 7.461 tré á sama landi til að kolefnisjafna rekstur sinn árið 2019, nú í annað sinn. Bónus hefur sett sér skýra stefnu í umhverfismálum undir formerkjunum Andaðu léttar þar sem markmiðið er að minnka plast, koma í veg fyrir matarsóun eftir fremsta megni, bæta flokkun á úrgangi og kolefnisjafna rekstur verslana sinna.

Hagkaup hefur einnig kolefnisjafnað sinn rekstur í samstarfi við Kolvið og gróðursetti 4.230 tré fyrir rekstur ársins 2018. Hagkaup mun sömuleiðis jafna rekstur sinn fyrir árið 2019 en fjöldi trjáa liggur ekki fyrir á þessu stigi. Í rekstri sínum leggur Hagkaup ríka áherslu á flokkun úrgangs, minni matarsóun og rýrnun, sem og notkun á umhverfisvænni orkugjöfum innan sinna verslana.

Olís býður einnig viðskiptavinum sínum að kolefnisjafna eldsneytisviðskipti sín og leggur Olís til helmings kostnaðar á móti viðskiptavini, kjósi hann að nýta sér úrræðið. Verkefnið er unnið í nánu samstarfi við Landgræðsluna þar sem áhersla er lögð á uppgræðslu lands, skógrækt og endurheimt votlendis. Olís hefur einnig undirritað samning þess efnis að allur rekstur félagsins, akstur, flug og dreifing eldsneytis til viðskiptavina um allt land, verði kolefnisjafnaður í samstarfi við Landgræðsluna.

Áfram verður unnið í umhverfismálum innan samstæðunnar og munu öll fyrirtæki innan Haga kolefnisjafna rekstur sinn árið 2019. Sett hefur verið á laggirnar umhverfisráð Haga sem í er a.m.k. einn aðili úr hverju dótturfélagi og er viðkomandi ábyrgur fyrir innleiðingu umhverfisstefnu Haga sem samþykkt var í apríl 2020. Hlutverk umhverfisráðsins er að stuðla að fræðslu fyrir starfsfólk með það að markmiði að efla umhverfisvitund innan starfseininga og að samræma aðgerðir innan dótturfélaga eins og kostur er. Umhverfisráðinu er einnig ætlað að gera aðgerðaáætlun þar sem leiðir að markmiðum verða útlistaðar og þær aðgerðir sem fara þarf í til að ná settum markmiðum.

 

Arðgreiðslustefna og tillaga fyrir aðalfund

Arðgreiðslustefna Haga leggur áherslu á að félagið skili til hluthafa sinna, beint eða óbeint, þeim verðmætum sem skapast í rekstrinum á hverju ári, umfram nauðsynlegar fjárfestingar í rekstrarfjármunum. Þá er stefnt að því að Hagar greiði hluthöfum sínum árlegan arð, sem nemi að lágmarki 50% hagnaðar næstliðins rekstrarárs. Að auki mun félagið, ef tækifæri gefast, kaupa eigin bréf og kaupa fasteignir á hagstæðu verði sem nýtast félaginu í starfsemi sinni. Félagið stefnir að reglubundnum arðgreiðslum og kaupum á eigin bréfum, skv. formlegri endurkaupaáætlun, í þeim tilgangi að lækka hlutafé félagsins, sé svigrúm til þess.

Stjórn Haga hf. leggur hins vegar til við aðalfund, þann 9. júní nk., að ekki verði greiddur arður til hluthafa vegna reikningsársins 2019/20. Er því ákveðið að víkja frá arðgreiðslustefnu félagsins, vegna þeirrar óvissu sem nú ríkir um efnahagshorfur í kjölfar COVID-19 faraldursins.

 

Staðan og framtíðarhorfur

Afkomuspá liðins árs

Áætlun stjórnenda fyrir rekstrarárið 2019/20, sem nú var að líða, gerði ráð fyrir að rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) yrði 8.750-9.200 millj. kr. að teknu tilliti til áhrifa af leigustaðli IFRS 16. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 8.890 millj. kr. á rekstrarárinu og því innan þeirrar áætlunar sem gefin var út.

Útgefin fjárfestingaráætlun gerði ráð fyrir 3.800 milljón króna fjárfestingum á árinu. Niðurstaðan var hins vegar 5.006 milljónir króna en mismuninn má að mestu rekja til fasteignakaupa, sem ekki voru áætlaðar, auk þess sem þungi byggingar vöruhúss og innleiðingarverkefna í upplýsingatækni var meiri á rekstrarárinu en áætlað var.

Breyting á framkvæmdastjórn

Þann 30. apríl sl. var tilkynnt að forstjóri Haga hf., Finnur Árnason, hafi óskað eftir að láta af störfum hjá félaginu. Þá óskaði framkvæmdastjóri Bónus, Guðmundur Marteinsson, einnig eftir því að láta af störfum. Þann 7. maí var tilkynnt um ráðningu á nýjum forstjóra og mun Finnur Oddsson, sem síðustu ár hefur verið forstjóri Origo hf., hefja störf hjá félaginu í sumar. Finnur Árnason mun starfa áfram fram að því. Þá mun Guðmundur einnig starfa áfram þar til ráðið hefur verið í hans stað. Fjárhagsleg áhrif starfslokanna munu koma fram á fyrsta ársfjórðungi rekstrarársins 2020/21 og eru þau áætluð í heild, með launatengdum gjöldum, um 314,5 millj. kr.

Áhrif COVID-19 faraldursins, afkomuspá og framtíðarhorfur

Hagar og dótturfélög þess hafa ekki farið varhluta af áhrifum COVID-19 faraldursins. Áhrifin á ársreikning félagsins, fyrir tímabilið 1. mars 2019 til 29. febrúar 2020, eru engin en þeirra fór fyrst að gæta í mars 2020. Áhrifin á félög innan samstæðunnar eru ólík eftir starfsemi þeirra. Tekjuvöxtur er í dagvöruhluta félagsins en samdráttur í olíu-, bensín- og veitingasölu hjá Olís og í sérvöruverslunum. Gengisfall íslensku krónunnar og sú umtalsverða lækkun á heimsmarkaðsverði á olíu sem átt hefur sér stað undanfarnar vikur, hefur áhrif á framlegð Olís og þá hafa verðhækkanir birgja verið töluverðar. Ljóst er að heildaráhrif faraldursins á rekstur fyrsta ársfjórðungs 2020/21, þ.e. tímabilið mars til maí, verða töluverð. Mat stjórnenda gerir ráð fyrir að rekstrarhagnaður fyrir afskriftir samstæðunnar (EBITDA) á tímabilinu verði 800-1.100 millj. kr. Stærstu áhrifaþættir COVID-19 eru áhrif á Olís, verðfall á olíumörkuðum, kostnaðarverðshækkanir, gengisfall íslensku krónunnar og auk þess er tekið tillit til einskiptisáhrifa af breytingu á framkvæmda­stjórn. Félagið mun, enn sem komið er, ekki gefa út afkomuspá fyrir rekstrarárið 2020/21 þar sem mikil óvissa ríkir enn um áhrif faraldursins á nýju rekstrarári. Þrátt fyrir óvissu, er það mat stjórnenda að áhrif COVID-19 faraldursins séu að mestu á fyrsta ársfjórðungi og því komin fram að stórum hluta.

Gripið hefur verið til margvíslegra aðgerða til að tryggja öryggi starfsfólks, viðskiptavina og annarra samstarfsaðila félagsins. Aðgerðirnar skipta miklu máli því stór hluti af starfsemi samstæðunnar, s.s. matvöruverslanir og tengd vöruhús, ásamt sölustöðum eldsneytis, gegna stóru hlutverki í innviðastarfsemi landsins, sérstaklega í krefjandi aðstæðum sem þessum. Mikið og gott samstarf hefur verið við stjórnvöld og einnig við birgja, sem hefur komið í veg fyrir vöruskort.

Efnahags- og lausafjárstaða Haga er sterk en samkvæmt þeim greiningum sem gerðar hafa verið er félagið í stakk búið til að takast á við þær aðstæður sem nú dynja á. Fjármögnun félagsins er að mestu tryggð til langs tíma og aðgangur að skammtímafjármagni er einnig tryggður. Þá var úrræði ríkisstjórnarinnar hvað varðar hlutabótaleið nýtt að mjög litlu leyti en tekin var ákvörðun þann 8. maí að endurgreiða allan þann kostnað aftur til Vinnumálastofnunar, eða 36 millj. kr. Ekki er gert ráð fyrir að nýta þurfi önnur úrræði sem í boði eru.

Helstu verkefni á rekstrarárinu 2020/21

Helstu verkefni og fjárfestingar á rekstrarárinu sem nú er hafið, auk hefðbundinnar endurnýjunar verslana og viðhalds, er bygging 4.440 m2 kæli- og frystivöruhúss Aðfanga í Korngörðum 1 og flutningur starfseminnar í nóvember nk. Þá er fyrirhugað að innleiða sjálfsafgreiðslukassa í sjö Bónusverslanir og eina Hagkaupsverslun á árinu. Ný ÓB stöð mun opna á Sauðárkróki á árinu, þegar eldri stöð verður flutt. Einnig er ráðgert að fjölga rafhleðslustöðvum, auk fleiri verkefna.

Þann 15. maí sl. var skrifað undir kaupsamning um fasteignina að Furuvöllum 17 á Akureyri. Húsnæðið hýsir verslun Hagkaups en gert er ráð fyrir nokkurri endurnýjun á versluninni á næstu misserum.

 

Rafrænn kynningarfundur fyrir markaðsaðila og hluthafa þann 19. maí kl. 08:30

Kynningarfundur fyrir markaðsaðila og hluthafa verður einungis rafrænn, vegna óvenjulegra aðstæðna og samkomubanns. Kynningin verður haldin þann 19. maí kl. 08:30 og verður henni varpað í gegnum netið á slóðinni https://livestream.com/accounts/11153656/events/9126670/player (Opnast í nýjum vafraglugga) þar sem Finnur Árnason, forstjóri Haga, mun kynna afkomu félagsins fyrir síðasta rekstrarár.

Tekið verður við spurningum sem tengjast uppgjörinu á meðan á útsendingu stendur á netfangið fjarfestakynning@hagar.is og verður þeim svarað eins og kostur er í lok fundar.

Kynningargögn verða aðgengileg á heimasíðu Haga, www.hagar.is, við upphaf fundar.

 

Fjárhagsdagatal 2020/21

Fjárhagsupplýsingar eru birtar eftir lokun markaða.

Uppgjör Vikudagur Birtingardagur
1F – 1. mars – 31. maí Mánudagur 29. júní 2020
2F – 1. mars – 31. ágúst Fimmtudagur 29. okt 2020
3F – 1. mars – 30. nóv Fimmtudagur 21. janúar 2021
4F – 1. mars – 28. febrúar Miðvikudagur 19. maí 2021
Aðalfundur Fimmtudagur 10. júní 2021

 

Nánari upplýsingar veitir Finnur Árnason, forstjóri félagsins, í síma 530-5500.

 

Fréttatilkynning vegna ársuppgjörs 2019/20

Ársreikningur 2019/20