Árshlutareikningur Haga hf. fyrir annan ársfjórðung 2019/20 var samþykktur af stjórn og forstjóra félagsins á stjórnarfundi þann 29. október 2019. Reikningurinn er fyrir tímabilið 1. mars 2019 til 31. ágúst 2019. Árshlutareikningurinn hefur að geyma samstæðureikning félagsins og dótturfélaga þess og er hann gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS). Reikningurinn hefur verið kannaður af endurskoðendum félagsins, PricewaterhouseCoopers ehf.
Áhrif af rekstri Olíuverzlunar Íslands ehf. (Olís) og DGV ehf. á samstæðuna komu fyrst fram þann 1. desember 2018, þ.e. í upphafi fjórða ársfjórðungs 2018/19. Samanburðarfjárhæðum fyrri tímabila hefur ekki verið breytt og innifela þær því ekki rekstraráhrif af hinum nýju félögum.
Þann 1. mars 2019 var innleiddur alþjóðlegur reikningsskilastaðall IFRS 16 Leigusamningar í reikningsskil samstæðunnar. Samkvæmt nýja staðlinum er eign (réttur til að nota hina leigðu eign) og skuld vegna greiðslu leigu færð í efnahagsreikning. Leigueign í lok annars ársfjórðungs var 9.155 milljónir króna og leiguskuld 9.825 milljónir króna. Áhrif staðalsins á rekstrarreikning tímabilsins er 1.036 milljón króna hækkun á EBITDA, 777 milljón króna hækkun á afskriftum og 236 milljón króna hækkun á vaxtagjöldum.
Helstu niðurstöður á fyrstu sex mánuðum rekstrarársins:
· Hagnaður tímabilsins nam 1.721 millj. kr. eða 2,9% af veltu.
· Hagnaður á hlut var 1,42 kr.
· Vörusala tímabilsins nam 59.504 millj. kr.
· Framlegð tímabilsins var 22,0%.
· Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) nam 4.523 millj. kr.
· Heildareignir samstæðunnar námu 60.031 millj. kr. í lok tímabilsins.
· Handbært fé félagsins nam 2.759 millj. kr. í lok tímabilsins.
· Eigið fé félagsins nam 23.824 millj. kr. í lok tímabilsins.
· Eiginfjárhlutfall var 39,7% í lok tímabilsins.
· Fyrri árshelmingur er á áætlun og útgefin afkomuspá, án áhrifa IFRS 16, er óbreytt.
Rekstrarafkoma fyrri árshelmings á áætlun
Vörusala tímabilsins nam 59.504 milljónum króna, samanborið við 37.734 milljónir króna árið áður. Söluaukning tímabilsins milli ára er 57,7% og skýrist að mestu leyti af áhrifum Olís. Án áhrifa Olís er söluaukning félagsins 3,9% en söluaukning er í báðum matvörukeðjum félagsins, Bónus og Hagkaup, þrátt fyrir fækkun verslana. Sex mánaða meðaltal vísitölu neysluverðs milli rekstrarára hefur hækkað um 3,23% en hækkun vísitölunnar án húsnæðis var 2,87%. Vísitala innkaupa í erlendum gjaldmiðlum, þar sem vegnar eru innkaupamyntir Haga, sýnir veikingu íslensku krónunnar, eða um 11,1% á samanburðartímabilinu.
Framlegð félagsins var 13.102 milljónir króna, samanborið við 9.155 milljónir króna árið áður eða 22,0% framlegð samanborið við 24,3% á fyrra ári. Rekstrarkostnaður í heild hækkar um 1.958 milljónir króna sem skýrist að mestu af áhrifum Olís en til frádráttar eru leigugreiðslur sem tekjufærðar eru vegna IFRS 16 leigustaðals að upphæð 1.036 milljónir króna. Kostnaðarhlutfallið lækkar milli ára úr 18,2% í 14,9%. Án áhrifa IFRS 16 er kostnaðarhlutfallið nú 16,6%.
Afkoma fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) nam 4.523 milljónum króna, samanborið við 2.376 milljónir króna árið áður. EBITDA-hlutfall var 7,6%, samanborið við 6,3% árið áður. EBITDA afkoma án áhrifa IFRS 16 var 3.487 milljónir króna og EBITDA-hlutfall 5,9%.
Hagnaður tímabilsins eftir skatta nam 1.721 milljónum króna, sem jafngildir 2,9% af veltu en hagnaður eftir skatta á fyrra ári var 1.436 milljónir króna eða 3,8% af veltu.
Efnahagur samstæðunnar 31. ágúst 2019
Heildareignir samstæðunnar í lok tímabilsins námu 60.031 milljón króna. Fastafjármunir voru 44.640 milljónir króna en þar af er leigueign 9.155 milljónir króna. Veltufjármunir voru 15.391 milljón króna en þar af eru birgðir 7.868 milljónir króna. Á tímabilinu var gerður samningur við Valitor um færsluhirðingu samstæðunnar og er uppgjör kreditkorta nú daglegt. Skýrir það að mestu lækkun greiðslukortakrafna og hækkun handbærs fjár í lok tímabilsins.
Eigið fé í lok tímabilsins var 23.824 milljónir króna og eiginfjárhlutfall 39,7%. Heildarhlutafé í lok tímabilsins nam 1.213 milljónum króna og á félagið eigin hluti að nafnvirði 11 milljónir króna.
Heildarskuldir samstæðunnar voru 36.207 milljónir króna í lok tímabilsins en þar af voru leiguskuldir 9.825 milljónir króna. Vaxtaberandi skuldir voru 11.513 milljónir króna en þar af voru 6.811 milljónir króna á lokagjalddaga í október og nóvember 2019. Nettó vaxtaberandi skuldir í lok tímabilsins voru 8.754 milljónir króna eða 1,32x12 mánaða EBITDA. Veltufjárhlutfall var 0,75.
Sjóðstreymi fyrri árshelmings
Handbært fé frá rekstri á tímabilinu nam 7.409 milljónum króna, samanborið við 2.023 milljónir króna á fyrra ári. Fjárfestingarhreyfingar tímabilsins voru 1.498 milljónir króna, samanborið við 377 milljónir króna á fyrra ári. Fjármögnunarhreyfingar voru 3.888 milljónir króna, samanborið við 1.514 milljónir króna á fyrra ári. Handbært fé í lok tímabilsins var 2.759 milljónir króna, samanborið við 354 milljónir króna árið áður.
Staðan og framtíðarhorfur
Fyrri helmingur rekstrarársins hefur staðist væntingar og verið í takti við áætlanir félagsins. EBITDA áætlun stjórnenda fyrir rekstrarárið, að undanskyldum áhrifum af IFRS 16 leigustaðli, er óbreytt eða 6.650-7.100 milljónir króna. Áhrif leigustaðalsins voru í fyrri áætlunum metin 2.500 milljón króna hækkun á EBITDA en eru nú áætluð 2.100 milljónir króna. Áætlun stjórnenda, að teknu tilliti til IFRS 16 leigustaðals, eru því nú 8.750-9.200 milljónir króna. Áætluð hækkun afskrifta er tæpar 1.600 milljónir króna og áætlað er að vaxtakostnaður muni aukast um tæpar 500 milljónir króna vegna þessa. Útgefin fjárfestingaráætlun er óbreytt eða 3.300 milljónir króna.
Undanfarin misseri hefur verið unnið að endurfjármögnun samstæðunnar en um 7 ma.kr. greiðslur af lánum, sem voru á gjalddaga í október og nóvember 2019, voru greiddar 7. október sl. Í október lauk félagið við skuldabréfaútboð þar sem gefin eru út skuldabréf í verðtryggðum flokki annars vegar að nafnvirði 5,5 ma.kr. og hins vegar í óverðtryggðum flokki að nafnvirði 2,5 ma.kr. Auk þess hefur félagið tryggt sér fjármögnun í formi lánalína að fjárhæð 4,5 ma.kr. og USD 12,5 millj. til að mæta skammtímasveiflum í rekstri. Hin nýju bréf verða tekin til viðskipta á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland innan 6 mánaða. Verðtryggði skuldabréfaflokkurinn ber fasta 2,8% verðtryggða vexti en flokkurinn er tryggður með veði í lykilfasteignum Haga. Hann er til 10 ára með jöfnum afborgunum á 3 mánaða fresti. Endurgreiðsluferli afborgana fylgir 30 ára greiðsluferli. Flokkurinn er stækkanlegur í allt að 15 ma.kr. Óverðtryggði skuldabréfaflokkurinn ber fasta 4,65% vexti og er tryggður með veði í þróunareignum Haga. Hann er til 2 ára með einum gjalddaga höfuðstóls. Vextir greiðast á 3 mánaða fresti.
Staða samrunaverkefna er góð og vel á veg komin. Áætluð samlegðaráhrif eru 600 milljónir króna og áætlaður kostnaður við að ná fram þeim árangri nemur eins árs samlegð. Félagið áætlar að 514 milljónum króna hafi þegar verið náð og byrja áhrifin að mestu leyti að telja frá 1. október 2019. Fjárfestingar við að ná þeirri samlegð fram eru 273 milljónir króna.
Í júní skilaði félagið inn fullmótuðum tillögum til samninganefndar Reykjavíkurborgar um forgangsröðun félagsins um breytta notkun lóða, fyrst allra félaga. Tillögurnar eru í fullu samræmi við stefnu borgarinnar um fækkun bensínstöðva, þéttingu byggðar og „kaupmanninn á horninu“. Þær lóðir sem um ræðir eru Stekkjarbakki, Fjallkonuvegur, Skúlagata, Egilsgata og Ánanaust.
Kynningarfundur fyrir markaðsaðila og hluthafa
Kynningarfundur fyrir markaðsaðila og hluthafa verður haldinn miðvikudaginn 30. október kl. 8:30 á skrifstofu Haga, 3. hæð í Smáralind í Kópavogi. Þar mun Finnur Árnason, forstjóri Haga, kynna afkomu félagsins og svara spurningum ásamt stjórnendum félagsins.
Fundinum verður varpað í gegnum netið á slóðinni: https://livestream.com/accounts/11153656/events/8866186/player (Opnast í nýjum vafraglugga)
Kynningargögn verða aðgengileg við upphaf fundar á heimasíðu Haga, www.hagar.is.
Fjárhagsdagatal 2019/20
Fjárhagsupplýsingar eru birtar eftir lokun markaða.
Uppgjör | Vikudagur | Birtingardagur |
3F – 1. mars – 30. nóvember | Mánudagur | 20. janúar 2020 |
4F – 1. mars – 29. febrúar | Mánudagur | 18. maí 2020 |
Aðalfundur | Þriðjudagur | 9. júní 2020 |
Nánari upplýsingar veitir Finnur Árnason, forstjóri félagsins, í síma 530-5500.