Árshlutareikningur Haga hf. fyrir fyrsta ársfjórðung 2020/21 var samþykktur af stjórn og forstjóra félagsins á stjórnarfundi þann 29. júní 2020. Reikningurinn er fyrir tímabilið 1. mars 2020 til 31. maí 2020. Árshlutareikningurinn hefur að geyma samstæðureikning félagsins og dótturfélaga þess og er hann gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS). Reikningurinn hefur hvorki verið kannaður né endurskoðaður af endurskoðendum félagsins, PricewaterhouseCoopers ehf.
Helstu niðurstöður á fyrstu þremur mánuðum rekstrarársins:
· Tap tímabilsins eftir skatta nam 96 millj. kr. eða 0,3% af veltu.
· Tap á hlut var 0,08 kr.
· Vörusala tímabilsins nam 28.241 millj. kr.
· Framlegð tímabilsins var 20,6%.
· Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) nam 1.297 millj. kr.
· Heildareignir samstæðunnar námu 64.039 millj. kr. í lok tímabilsins.
· Handbært fé félagsins nam 3.475 millj. kr. í lok tímabilsins.
· Eigið fé félagsins nam 24.071 millj. kr. í lok tímabilsins.
· Eiginfjárhlutfall var 37,6% í lok tímabilsins.
Rekstrarafkoma á fyrsta ársfjórðungi 2020/21
Vörusala tímabilsins nam 28.241 milljónum króna, samanborið við 28.590 milljónir króna árið áður. Söluminnkun tímabilsins milli ára er 1,2%. Söluminnkun var mikil hjá Olís eða 26% milli tímabila en söluaukning var í verslana- og vöruhúsahluta samstæðunnar um 11%. Framlegð félagsins var 5.829 milljónir króna, samanborið við 6.432 milljónir króna árið áður eða 20,6% framlegð samanborið við 22,5% á fyrra ári. Gengisfall íslensku krónunnar og mikil lækkun á heimsmarkaðsverði olíu á tímabilinu, auk verðhækkana frá birgjum, höfðu mikil áhrif á framlegð.
Rekstrarkostnaður í heild hækkar um 124 milljónir króna. Laun hækka um 218 milljónir króna á tímabilinu eða 7% sem skýrist að mestu af kjarasamningshækkunum og einskiptisáhrifum af starfslokum forstjóra. Annar rekstrarkostnaður lækkar um 94 milljónir króna eða 6%. Kostnaðarhlutfallið hækkar milli ára úr 15,8% í 16,4%.
Afkoma fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) nam 1.297 milljónum króna, samanborið við 2.034 milljónir króna árið áður. EBITDA-hlutfall var 4,6%, samanborið við 7,1% árið áður. Samhliða birtingu ársuppgjörs félagsins í maí sl. var gefin út afkomuspá fyrir ársfjórðunginn, sem svo var leiðrétt vegna breyttra forsenda þann 12. júní. Afkomuspá gerði ráð fyrir að EBITDA yrði 1.100 til 1.250 milljónir króna og er uppgjörið því 3,8% yfir efri mörkum.
Tap tímabilsins eftir skatta nam 96 milljónum króna, sem jafngildir 0,3% af veltu en hagnaður eftir skatta á fyrra ári var 665 milljónir króna eða 2,3% af veltu.
Efnahagur samstæðunnar 31. maí 2020
Heildareignir samstæðunnar í lok tímabilsins námu 64.039 milljónum króna. Fastafjármunir voru 47.546 milljónir króna en þar af er leigueign 8.969 milljónir króna. Veltufjármunir voru 16.493 milljónir króna en þar af eru birgðir 8.070 milljónir króna.
Eigið fé í lok tímabilsins var 24.071 milljón króna og eiginfjárhlutfall 37,6%. Heildarhlutafé í lok tímabilsins nam 1.213,3 milljónum króna og á félagið eigin hluti að nafnverði 32,7 milljónir króna.
Heildarskuldir samstæðunnar voru 39.968 milljónir króna í lok tímabilsins en þar af voru langtímaskuldir 21.888 milljónir króna. Leiguskuldir voru samtals 9.713 milljónir króna. Vaxtaberandi skuldir voru samtals 14.287 milljónir króna og nettó vaxtaberandi skuldir 10.812 milljónir króna eða 1,3x12 mánaða EBITDA. Veltufjárhlutfall var 0,91.
Sjóðstreymi fyrstu þrjá mánuði rekstrarársins
Handbært fé frá rekstri á tímabilinu nam 2.661 milljón króna, samanborið við 4.967 milljónir króna á fyrra ári. Fjárfestingarhreyfingar tímabilsins voru -858 milljónir króna, samanborið við -810 milljónir króna á fyrra ári. Á tímabilinu voru fjárfestingar í fasteign 287 milljónir króna en það er vegna byggingar kæli- og frystivöruhúss í Korngörðum. Aðrar fjárfestingar eru að mestu vegna endurnýjunar verslana og upplýsingatæknikerfa. Fjármögnunarhreyfingar voru -560 milljónir króna, samanborið við -1.179 milljónir króna á fyrra ári en á tímabilinu voru keypt eigin bréf að fjárhæð 420 milljónir króna. Handbært fé í lok tímabilsins var 3.475 milljónir króna, samanborið við 3.714 milljónir króna árið áður.
Staðan og framtíðarhorfur
Fyrstu þrír mánuðir rekstrarársins eru undir áætlunum enda fóru Hagar og dótturfélög þess ekki varhluta af áhrifum COVID-19 faraldursins. Áhrifa fór að gæta í mars en áhrifin á félög innan samstæðunnar eru ólík eftir starfsemi þeirra. Tekjuvöxtur var í dagvöruhluta samstæðunnar en samdráttur í olíu-, bensín- og veitingasölu hjá Olís og í sérvöruverslunum. Gengisfall íslensku krónunnar og sú lækkun á heimsmarkaðsverði á olíu sem átti sér stað á tímabilinu hafði áhrif á framlegð og þá voru verðhækkanir birgja töluverðar. Þrátt fyrir þetta er efnahags- og lausafjárstaða Haga sterk og er félagið í stakk búið til að takast á við aðstæður sem þessar. Félagið mun, enn sem komið er, ekki gefa út afkomuspá fyrir rekstrarárið 2020/21 þar sem enn ríkir óvissa um áhrif faraldursins á nýju rekstrarári. Þrátt fyrir óvissu er það mat stjórnenda að áhrif faraldursins hafi komið að mestu leyti fram á fyrsta ársfjórðungi.
Þann 30. apríl sl. var tilkynnt að forstjóri Haga hf., Finnur Árnason, hafi óskað eftir að láta af störfum hjá félaginu. Þá óskaði framkvæmdastjóri Bónus, Guðmundur Marteinsson, einnig eftir því að láta af störfum. Þann 7. maí var tilkynnt um ráðningu nýs forstjóra og mun Finnur Oddsson, sem síðustu ár hefur verið forstjóri Origo hf., taka við starfinu. Þann 12. júní sl. var svo tilkynnt að samkomulag hafi náðst við Guðmund Marteinsson um áframhaldandi starf hans sem framkvæmdastjóri Bónus. Fjárhagsleg áhrif starfsloka forstjóra koma fram nú á fyrsta ársfjórðungi og nema þau 86,4 millj. kr.
Í lok maí opnaði Olís nýja ÓB stöð á Sauðárkróki og var stöðin formlega tekin í notkun þann 12. júní sl. Stöðin tekur við af bensínafgreiðslu Olís sem verið hefur við verslun Haraldar Júlíussonar síðan árið 1930.
Þann 9. júní 2020 samþykkti aðalfundur félagsins að ekki yrði greiddur arður til hluthafa vegna síðastliðins rekstrarárs. Aðalfundur samþykkti að lækka hlutafé félagsins til ógildingar á eigin hlutum að nafnverði 32,7 millj. kr. og verður skráð hlutafé eftir lækkun því 1.181 millj. kr. Hlutafjárlækkunin kemur til framkvæmda á öðrum ársfjórðungi.
Fjárhagsdagatal 2020/21
Fjárhagsupplýsingar eru birtar eftir lokun markaða.
Uppgjör | Vikudagur | Birtingardagur |
2F – 1. mars – 31. ágúst | Fimmtudagur | 29. okt 2020 |
3F – 1. mars – 30. nóv | Fimmtudagur | 21. janúar 2021 |
4F – 1. mars – 28. febrúar | Miðvikudagur | 19. maí 2021 |
Aðalfundur | Fimmtudagur | 10. júní 2021 |
Nánari upplýsingar veitir Finnur Árnason, forstjóri félagsins, í síma 530-5500.