Árshlutareikningur Haga hf. fyrir fyrsta ársfjórðung 2019/20 var samþykktur af stjórn og forstjóra félagsins á stjórnarfundi þann 28. júní 2019. Reikningurinn er fyrir tímabilið 1. mars 2019 til 31. maí 2019. Árshlutareikningurinn hefur að geyma samstæðureikning félagsins og dótturfélaga þess og er hann gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS). Reikningurinn hefur hvorki verið kannaður né endurskoðaður af endurskoðendum félagsins, PricewaterhouseCoopers ehf.
Áhrif af rekstri Olíuverzlunar Íslands ehf. (Olís) og DGV ehf. komu fyrst fram frá upphafi fjórða ársfjórðungs 2018/19, þann 1. desember 2018, en yfirtökudagur var 30. nóvember 2018. Samanburðarfjárhæðum fyrra árs hefur ekki verið breytt m.t.t. þessara nýju félaga.
Þann 1. mars 2019 var innleiddur alþjóðlegur reikningsskilastaðall IFRS 16 Leigusamningar í reikningsskil samstæðunnar. Samkvæmt nýja staðlinum er eign (réttur til að nota hina leigðu eign) og skuld vegna greiðslu leigu færð í efnahagsreikning. Leigueign í lok fyrsta ársfjórðungs var 9.405 milljónir króna og leiguskuld 10.095 milljónir króna. Áhrif staðalsins á rekstrarreikning tímabilsins er 511 milljón króna hækkun á EBITDA, 388 milljón króna hækkun á afskriftum og 121 milljón króna hækkun á vaxtagjöldum.
Helstu upplýsingar á fyrstu þremur mánuðum rekstrarársins:
· Hagnaður tímabilsins nam 665 millj. kr. eða 2,3% af veltu.
· Hagnaður á hlut var 0,55 kr.
· Vörusala tímabilsins nam 28.590 millj. kr.
· Framlegð tímabilsins var 22,5%.
· Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) nam 2.034 millj. kr.
· Heildareignir samstæðunnar námu 61.469 millj. kr. í lok tímabilsins.
· Handbært fé félagsins nam 3.714 millj. kr. í lok tímabilsins.
· Eigið fé félagsins nam 24.391 millj. kr. í lok tímabilsins.
· Eiginfjárhlutfall var 39,7% í lok tímabilsins.
Rekstrarafkoma tímabilsins
Vörusala tímabilsins nam 28.590 milljónum króna, samanborið við 18.592 milljónir króna árið áður. Söluaukning tímabilsins milli ára skýrist að mestu leyti af áhrifum Olís. Án áhrifa Olís er söluaukning félagsins 4,5%. Þriggja mánaða meðaltal vísitölu neysluverðs milli rekstrarára hefur hækkað um 3,27% en hækkun vísitölunnar án húsnæðis var 2,77%.
Framlegð félagsins var 6.432 milljónir króna, samanborið við 4.592 milljónir króna árið áður eða 22,5% framlegð samanborið við 24,7% á fyrra ári. Rekstrarkostnaður í heild hækkar um 1.051 milljón króna sem skýrist að mestu af áhrifum Olís en auk þess er tekjufærsla vegna áhrifa IFRS 16 að upphæð 511 milljónir króna færð meðal annars rekstrarkostnaðar. Kostnaðarhlutfallið lækkar úr 18,6% í 15,8%.
Afkoma fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) nam 2.034 milljónum króna, samanborið við 1.193 milljónir króna árið áður. EBITDA-hlutfall var 7,1%, samanborið við 6,4% árið áður.
Hagnaður tímabilsins eftir skatta nam 665 milljónum króna, sem jafngildir 2,3% af veltu en hagnaður eftir skatta á fyrra ári var 728 milljónir eða 3,9% af veltu.
Efnahagsreikningur og sjóðstreymi tímabilsins
Heildareignir samstæðunnar í lok tímabilsins námu 61.469 milljónum króna. Fastafjármunir voru 44.613 milljónir króna en þar af er leigueign 9.405 milljónir króna. Veltufjármunir voru 16.856 milljónir króna en þar af eru birgðir 8.084 milljónir króna. Á tímabilinu var gerður samningur við Valitor um færsluhirðingu samstæðunnar og er uppgjör kreditkorta nú daglegt. Skýrir það að mestu lækkun greiðslukortakrafna og hækkun handbærs fjár í lok tímabilsins.
Eigið fé félagsins var 24.391 milljón króna í lok tímabilsins og eiginfjárhlutfall 39,7%. Heildarskuldir samstæðunnar voru 37.078 milljónir króna en þar af voru leiguskuldir 10.095 milljónir króna. Vaxtaberandi langtímaskuldir voru 12.236 milljónir króna en stór hluti þeirra er á gjalddaga í október og nóvember nk. og eru því meðal skammtímaskulda.
Handbært fé frá rekstri á tímabilinu nam 4.967 milljónum króna, samanborið við 550 milljónir króna á fyrra ári. Fjárfestingarhreyfingar tímabilsins voru 810 milljónir króna, samanborið við 207 milljónir króna á fyrra ári. Fjármögnunarhreyfingar voru 1.179 milljónir króna, samanborið við 192 milljónir króna á fyrra ári. Handbært fé í lok tímabilsins var 3.714 milljónir króna, samanborið við 373 milljónir króna árið áður.
Staðan og framtíðarhorfur
Áætlun stjórnenda fyrir rekstrarárið 2019/20 er óbreytt, eða 6.650-7.100 millj. kr., að undanskildum áhrifum af IFRS 16 leigustaðli. Ef tekið er tillit til áhrifa staðalsins er EBITDA áætlun 9.150-9.600 millj. kr.
Þann 7. júní 2019 samþykkti aðalfundur félagsins að greiddur yrði arður til hluthafa sem nemur 50% hagnaðar síðastliðins árs eða 1.158,5 millj. kr. Arðurinn var greiddur þann 27. júní sl.
Þann 27. júní sl. var tilkynnt um endurkaupaáætlun félagsins. Endurkaup geta numið að hámarki 121.333.384 hlutum, eða 10% af útgefnum hlutum í félaginu, en þó þannig að fjárhæðin verður aldrei hærri en 500 milljónir króna. Framkvæmd endurkaupaáætlunarinnar er í höndum Arctica Finance hf.
Undanfarnar vikur hefur verið unnið að endurfjármögnun samstæðunnar en um 7.230 milljónir króna eru á gjalddaga í október og nóvember nk. Félagið hefur tryggt sér fjármögnun í formi lánalína, til að mæta skammtímasveiflum í rekstri, en samhliða hefur félagið hug á að gefa út og selja allt að 8 ma.kr. skuldabréf til að ljúka endurfjármögnun samstæðunnar. Skrifað hefur verið undir samning við Arctica Finance hf. um framkvæmd skuldabréfaútboðsins en sumarmánuðir munu fara í undirbúning og eru fjárfestakynningar áætlaðar um miðjan ágúst.
Fjárhagsdagatal 2019/20
2. ársfjórðungur (1. mars – 31. ágúst): 29. október 2019
3. ársfjórðungur (1. mars – 30. nóvember): 20. janúar 2020
4. ársfjórðungur (1. mars – 29. febrúar): 18. maí 2020
Aðalfundur 2020: 9. júní 2020
Nánari upplýsingar veitir Finnur Árnason, forstjóri félagsins, í síma 530-5500.