Ársreikningur Haga hf. fyrir rekstrarárið 2018/19 var samþykktur af stjórn og forstjóra félagsins á stjórnarfundi þann 16. maí 2019. Reikningurinn er fyrir rekstrarárið 1. mars 2018 til 28. febrúar 2019. Ársreikningurinn hefur að geyma samstæðureikning félagsins og dótturfélaga þess og er hann gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS). Endurskoðendur félagsins, PricewaterhouseCoopers ehf., hafa endurskoðað reikninginn og áritað hann fyrirvaralausri áritun.
Áhrif af rekstri Olíuverzlunar Íslands ehf. (Olís) og DGV ehf. koma fram frá upphafi fjórða ársfjórðungs en yfirtökudagur var 30. nóvember 2018. Samanburðarfjárhæðum hefur ekki verið breytt og innifela þær ekki áhrif af hinum nýju félögum.
Helstu lykiltölur
· Hagnaður rekstrarársins nam 2.317 millj. kr. eða 2,75% af veltu.
· Hagnaður á hlut var 2,05 kr.
· Vörusala rekstrarársins nam 84.179 millj. kr.
· Framlegð rekstrarársins var 23,8%.
· Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) nam 4.490 millj. kr.
· Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA), án einskiptiskostnaðar, sérstakrar gjaldfærslu birgða og áhrifa af samruna Olís og DGV nam 4.676 millj. kr.
· Heildareignir námu 50.851 millj. kr. í lok rekstrarársins.
· Handbært fé nam 736 millj. kr. í lok rekstrarársins.
· Eigið fé félagsins 24.279 millj. kr. í lok rekstrarársins.
· Eiginfjárhlutfall var 47,7% í lok rekstrarársins.
Rekstrarafkoma ársins
Vörusala rekstrarársins nam 84.179 millj. kr., samanborið við 73.895 millj. kr. árið áður. Söluaukning félagsins í heild milli ára var því 13,9%, sem skýrist að stórum hluta af áhrifum Olís á síðasta ársfjórðungi. Án áhrifa af Olís er söluaukning félagsins 4,1%.
Í matvöruverslanahluta félagsins hafa seld stykki aukist um 0,9% og viðskiptavinum hefur fjölgað um 2,0% milli ára.
Tólf mánaða meðaltal vísitölu neysluverðs milli rekstrarára hefur hækkað um 2,8% en hækkun vísitölunnar án húsnæðis var 1,4%. Vísitala innkaupa í erlendum gjaldmiðlum, þar sem vegnar eru innkaupamyntir Haga, sýnir umtalsverða veikingu íslensku krónunnar, eða um 6,0% á samanburðartímabilinu.
Framlegð félagsins var 20.007 millj. kr., samanborið við 18.318 millj. kr. áður eða 23,8% framlegðarhlutfall samanborið við 24,8% á fyrra ári. Kostnaðarverðshækkunum hefur ekki verið velt út í verðlag og hafa viðskiptavinir því notið góðs af því.
Laun og launatengd gjöld hækkuðu um 1.091 millj. kr. milli ára en hækkunin nemur um 13,5%. Hækkunina má að mestu leyti rekja til áhrifa Olís og kjarasamningshækkana á fyrri hluta árs 2018. Launahlutfallið er nú 10,9% en var 11,0% á fyrra ári. Annar rekstrarkostnaður hækkaði um 293 millj. kr. milli ára og er kostnaðarhlutfallið nú 7,9%, samanborið við 8,6% á fyrra ári. Á rekstrarárinu voru gjaldfærðar 241 millj. kr. vegna kostnaðar við samruna auk 50 millj. kr. vegna tapaðra viðskiptakrafna í heildsöluhluta félagsins. Sérstök 115 millj. kr. gjaldfærsla vegna birgða í Hagkaup var færð á fjórða ársfjórðungi. Á fyrra ári voru gjaldfærðar 86 millj. kr. vegna samruna en auk þess var gjaldfærður leigusamningur vegna Holtagarða að upphæð 445 millj. kr. Án einskiptiskostnaðar hefur annar rekstrarkostnaður því hækkað um 533 millj. kr. milli ára, sem má rekja til áhrifa Olís og DGV á seinasta ársfjórðungi.
Afkoma fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) nam 4.490 millj. kr., samanborið við 4.139 millj. kr. árið áður. EBITDA hlutfall er 5,3%, samanborið við 5,6% árið áður. Afkoma fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA), án einskiptiskostnaðar, sérstakrar gjaldfærslu birgða og áhrifa af samuna Olís og DGV, nam 4.676 millj., en útgefin EBITDA áætlun félagsins var 4.600-4.700 millj. kr.
Afskriftir ársins námu 1.300 millj. kr. samanborið við 1.122 millj. kr. ári áður. Hækkun milli ára skýrist af áhrifum Olís og DGV. Sama má segja um fjármagnsgjöld en þau hafa hækkað um 227 millj. kr. milli ára sem skýrast af auknum skuldum vegna kaupa félagsins á Olís og DGV.
Hagnaður rekstrarársins fyrir tekjuskatt nam 2.883 millj. kr., samanborið við 2.969 millj. kr. árið áður. Hagnaður rekstrarársins nam 2.317 millj. kr., sem jafngildir um 2,75% af veltu, en hagnaður á fyrra ári var 2.394 millj. kr. Grunnhagnaður á hlut var 2,05 kr., samanborið við 2,11 kr. á fyrra ári.
Efnahagsreikningur og sjóðstreymi ársins
Heildareignir félagsins í lok rekstrarársins námu 50.851 millj. kr. Fastafjármunir voru 34.896 millj. kr. og veltufjármunir 15.955 millj. kr. Félagið fjárfesti í rekstrarfjármunum fyrir 1.288 millj. kr. á rekstrarárinu. Birgðir í árslok voru 7.746 millj. kr. en 4.574 millj. kr. á sama tíma á fyrra ári en hækkunina má að mestu skýra af áhrifum Olís.
Eigið fé félagsins var 24.279 millj. kr. í lok rekstrarársins og eiginfjárhlutfall 47,7%. Heildarskuldir voru 26.572 millj. kr., þar af voru langtímaskuldir 6.877 millj. kr. Nettó vaxtaberandi skuldir félagsins í lok rekstrarársins voru 12.289 millj. kr. eða 2,7x EBITDA, en þar ber að hafa í huga að afkoma og rekstur Olís er einungis hluti af samstæðu Haga á síðasta ársfjórðungi. Af vaxtaberandi skuldum eru 8.431 millj. kr. á gjalddaga innan árs. Unnið er að endurfjármögnun á þeim hluta skulda félagsins.
Handbært fé frá rekstri á rekstrarárinu nam 2.882 millj. kr., samanborið við 2.938 millj. kr. á fyrra ári. Fjárfestingarhreyfingar rekstrarársins voru 6.249 millj. kr. en þar af voru kaup Haga á Olís og DGV að upphæð 4.967 millj. kr. Fjármögnunarhreyfingar voru jákvæðar um 3.881 millj. kr. en á rekstrarárinu voru nýjar vaxtaberandi skuldir 5.831 millj. kr. vegna kaupa félagsins á Olís og DGV. Þá var greiddur arður að upphæð 1.129 millj. kr.
Handbært fé í lok rekstrarársins var 736 millj. kr., samanborið við 222 millj. kr. árið áður og hækkaði handbært fé því um 514 millj. kr. á rekstrarárinu.
Helstu fjárfestingar rekstrarársins
Kaup Haga á öllu hlutafé Olíuverzlunar Íslands
Þann 29. nóvember 2018 samþykkti Samkeppniseftirlitið samruna Haga, Olís og DGV. Kaupsamningar um viðskiptin voru undirritaðir 26. apríl 2017 með fyrirvara um niðurstöður áreiðanleikakönnunar, samþykki Samkeppniseftirlitsins og samþykki hluthafafundar Haga fyrir aukningu hlutafjár. Fyrirvara um niðurstöður áreiðanleikakönnunar var aflétt þann 13. júlí 2017 og hlutafjáraukning var samþykkt á aðalfundi Haga í júní 2017. Þann 11. september 2018 var undirrituð sátt við Samkeppniseftirlitið um skilyrði fyrir kaupunum en öll skilyrði sáttarinnar voru uppfyllt og kom samruninn því til framkvæmda í lok nóvember eins og áður segir.
Alls voru 5.396 millj. kr. greiddar með reiðufé sem fjármagnaðar voru að mestu með skammtímaláni með gjalddaga 20. nóvember 2019 og auk þess voru afhentir 111 millj. hlutir í Högum. Skv. kaupsamningi skyldu afhentir hlutir reiknast á gengi 47,5 eða að andvirði 5.272 millj. kr. Þó ber að taka fram að skv. alþjóðlegum reikningsskilastöðlum reiknast virði hinna afhentu hluta í bókum félagsins m.v. gangvirði á afhendingardegi, sem var 46,25. Þann 30. nóvember 2018 juku Hagar hlutafé sitt um 41.831.651 að nafnvirði, til þess að uppfylla ákvæði kaupsamnings. Eftir hækkunina er hlutafé Haga 1.213.333.841 en var áður 1.171.502.190.
Nú stendur yfir vinna við samrunaverkefni og ganga þau vel. Sameinað félag er með sterkan efnahag og traustan rekstur og leynist fjöldi tækifæra í breyttu félagi. Áætluð samlegðaráhrif eru 600 millj. kr. og áætlaður kostnaður við að ná fram þeim árangri nemur eins árs samlegð. Stærstu verkefnin eru endurskipulagning á starfsemi vöruhúsa, flutningur skrifstofu Olís í húsnæði innan samstæðu, auk ýmissa hagræðingar- og samlegðarverkefna í grunneiningum og stoðdeildum félaga Haga.
Fjárfestingar í rekstrarfjármunum
Fjárfestingar í rekstrarfjármunum á árinu námu 1.288 millj. kr. Stærsta verkefnið var uppbygging fasteignar á brunareitnum svokallaða í Skeifunni 11. Þar opnaði Bónus verslun sína þann 1. desember sl. í 1.440 m2 verslunarrými. Verslun Bónus í Faxafeni var opin til febrúarloka en sú verslun, ásamt fasteign, var ein af þremur sem seldar voru skv. sátt Haga við Samkeppniseftirlitið vegna samruna félagsins við Olís og DGV. Rekstur annarra Bónusverslana sem seldur var skv. sáttinni eru Hallveigarstígur í Reykjavík og Smiðjuvegur í Kópavogi. Afhending Hallveigarstígs var 1. febrúar og afhending Smiðjuvegs 20. mars sl. Kaupverð var uppgert við árslok.
Skv. sáttinni bar Olís einnig að selja rekstur og fasteignir við Háaleitisbraut og Vallargrund í Reykjavík, rekstur og aðstöðu ÓB stöðva við Starengi, Kirkjustétt og Knarrarvog í Reykjavík, sem og rekstur verslunar og fasteign í Stykkishólmi. Afhending þessara eigna fór fram á fyrsta ársfjórðungi þess rekstrarárs sem nú er hafið, sem og uppgjör kaupverðs.
Sjálfsafgreiðslukassar
Hluti af fjárfestingu félagsins í rekstrarfjármunum var að setja upp sjálfsafgreiðslukassa í verslunum Bónus og Hagkaups. Nú hafa verið settir upp kassar í sjö verslunum Bónus og þremur verslunum Hagkaups. Á nýju rekstrarári verður bætt við kössum í fimm verslanir Bónus og þrjár verslanir Hagkaups. Sjálfsafgreiðslukassarnir hafa mælst mjög vel fyrir hjá viðskiptavinum, þeir hafa aukið afköst og eru hagkvæmir á álagstímum. Hingað til hefur notkun á sjálfsafgreiðslukössum verið um 34-52% af heildar afgreiðslufjölda verslananna.
Jafnlaunavottun
Á rekstrarárinu 2018/19 hófst vinna við jafnlaunavottun hjá öllum dótturfélögum Haga, sbr. breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008 sem lögfest var í júní 2017. Hafa þau nú öll innleitt jafnlaunakerfi sbr. staðal ÍST 85 um jafnlaunavottun.
Arðgreiðslustefna félagsins
Arðgreiðslustefna Haga leggur áherslu á að félagið skili til hluthafa sinna, beint eða óbeint, þeim verðmætum sem skapast í rekstrinum á hverju ári, umfram nauðsynlegar fjárfestingar í rekstrarfjármunum. Þá er stefnt að því að Hagar greiði hluthöfum sínum árlegan arð, sem nemi að lágmarki 50% hagnaðar næstliðins rekstrarárs. Að auki mun félagið, ef tækifæri gefast, kaupa eigin bréf og kaupa fasteignir á hagstæðu verði sem nýtast félaginu í starfsemi sinni. Félagið stefnir að reglubundnum arðgreiðslum og kaupum á eigin bréfum, skv. formlegri endurkaupaáætlun, í þeim tilgangi að lækka hlutafé félagsins, sé svigrúm til þess.
Stjórn Haga mun leggja til á aðalfundi félagsins þann 7. júní nk. að greiddur verði arður sem nemur 50% hagnaðar ársins, eða samtals 1.158,5 millj. kr.
Umhverfismálum gert hátt undir höfði
Á rekstrarárinu hættu matvöruverslanir Haga, fyrstar allra matvöruverslana hér á landi, alfarið sölu á burðarpokum úr plasti en í staðin eru nú seldir umhverfisvænni og lífniðurbrjótanlegir burðarpokar. Þá hafa verslanir Haga verið í fararbroddi með áherslu á fjölnota burðarpoka. Að auki er stefnt að því að taka í notkun lífniðurbrjótanlega poka fyrir ávexti og grænmeti í janúar á næsta ári. Þá nota sérvöruverslanir Haga eingöngu bréfburðarpoka í sínum verslunum.
Undanfarin misseri hefur verið lögð mikil áhersla á umhverfisvænni kælimiðla og orkusparandi perur í rekstri verslana Haga. Til dæmis byggja allar nýjar og endurnýjaðar verslanir Bónus á grænum grunni og nota nú íslenskan umhverfisvænan kælimiðil í stað freons áður. Þetta kerfi er fremst á sviði umhverfisvænna kælikerfa og er auk þess sjálfbært og öruggt. Vélbúnaður kerfisins nýtir orkuna betur og allir kælar og frystar eru lokaðir, sem tryggir jafnara hitastig og þar af leiðandi betri gæði frystivara. Þá verður Bónus fyrsta matvörukeðja landsins til að kolefnisjafna rekstur sinn.
Kaup Haga á Reykjavíkur Apóteki og kaup Olís á Mjöll Frigg
Í mars undirrituðu Hagar samning um kaup á 90% hlutafjár í Reykjavíkur Apóteki. Kaupsamningurinn var undirritaður með fyrirvara um niðurstöðu áreiðanleikakönnunar og samþykki Samkeppniseftirlitsins.
Í apríl undirrituðu Olís samning um kaup á öllu hlutafé í Mjöll Frigg en sá samningur er einnig gerður með fyrirvara um áreiðanleikakönnun og samþykki Samkeppniseftirlitsins.
Helstu verkefni á nýju rekstrarári og framtíðarhorfur
Á rekstrarárinu sem nú er hafið opnaði Bónus nýja verslun sína á Garðatorgi í Garðabæ. Þá mun verslun Bónus í Mosfellsbæ flytja í nýtt og stærra húsnæði á haustmánuðum. Olís mun opna nýja stöð á Vík í Mýrdal á vormánuðum.
Á rekstrarárinu verður hafist handa við byggingu nýs vöruhúss fyrir Aðföng, sem mun hýsa kæli- og frystivörustarfsemi félagsins. Vöruhúsið verður staðsett í Korngörðum 1 þar sem vöruhús Banana er einnig til húsa.
Áætlun stjórnenda fyrir rekstrarárið 2019/20, sem nú er hafið, gerir ráð fyrir að EBITDA félagsins verði 6.650-7.100 millj. kr. Þann 1. mars 2019 er IFRS 16 leigustaðall innleiddur í reikningsskil samstæðunnar en áhrif hans á EBITDA félagsins eru áætluð hækkun um 2.500 millj. kr. Áætlun rekstrarársins, að teknu tilliti til leigustaðalsins, verður því 9.150-9.600 millj. kr. Þá er áætluð hækkun afskrifta um 1.900 millj. kr. og vaxtakostnaður mun aukast um 600 millj. kr.
Fjárfestingar eru áætlaðar um 3.300 millj. kr. Stærstu fjárfestingaverkefni ársins tengjast byggingu nýs vöruhúss Aðfanga, flutningi Bónusverslunar í Mosfellsbæ, opnun Olís á Vík í Mýrdal, sjálfsafgreiðslukössum o.fl.
Kynningarfundur fyrir markaðsaðila og hluthafa
Kynningarfundur fyrir markaðsaðila og hluthafa verður haldinn á skrifstofu Haga, 3. hæð í Smáralind í Kópavogi, föstudaginn 17. maí nk. kl. 08:30. Þar mun Finnur Árnason, forstjóri Haga, kynna afkomu félagsins og svara spurningum ásamt stjórnendum félagsins.
Kynningarefni verður aðgengilegt á heimasíðu Haga, www.hagar.is, við upphaf fundar. Að fundi loknum verður upptaka af fundinum einnig aðgengileg á heimasíðunni.
Fjárhagsdagatal 2019/20
Aðalfundur 7. júní 2019
1. ársfjórðungur (1. mars – 31. maí): 28. júní 2019
2. ársfjórðungur (1. mars – 31. ágúst): 29. október 2019
3. ársfjórðungur (1. mars – 30. nóvember): 20. janúar 2020
4. ársfjórðungur (1. mars – 28. febrúar): 18. maí 2020
Nánari upplýsingar veitir Finnur Árnason, forstjóri félagsins, í síma 530-5500.