Hagar hafa opnað fyrir umsóknir í nýsköpunarsjóðinn Uppsprettan. Þetta er í þriðja sinn sem Uppsprettan auglýsir úthlutun og eru um 20 milljónir til úthlutunar úr sjóðnum í ár. Umsóknarfrestur er til og með 27. september.
Hlutverk sjóðsins er að virkja og styðja við frumkvöðla til nýsköpunar í íslenskri matvælaframleiðslu og sérstakt tillit er tekið til sjálfbærni verkefna sem styðja við þróun, minnkun matarsóunar og hagræðingu í íslenskri matvælaframleiðslu.
„Það er ánægjulegt hvað áhuginn á Uppsprettunni hefur verið mikill frá byrjun, sem sýnir okkur að gróska í nýsköpun og þróun vöru fyrir dagvörumarkað er mikil. Okkur hjá Högum finnst mikið varið í að fá að styðja hugmyndaríka frumkvöðla og búa til skilvirkan farveg til að koma skemmtilegum nýjungum í hillur verslana þar sem viðskiptavinir fá að njóta þeirra. Á síðustu tveimur árum hafa okkur borist tugir umsókna og samtals hafa 23 verkefni verið styrkt um tæpar 30 m.kr. Meira en helmingur þessara verkefna hefur nú þegar skilað vörum í verslanir og von er á fleirum núna á haustmánuðum. Eins og fyrr, þá leitumst við við að styðja verkefni sem hafa jákvæð samfélagsleg áhrif og stuðla að minna umhverfisspori í framleiðslu og dreifingu. Vonandi sækja sem flestir um og stuðla þannig að aukinni fjölbreytni í dagvöruverslun og jákvæðum áhrifum á samfélag okkar og umhverfi.“ Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Haga.