Hagar og sprotafyrirtækið SoGreen hafa undirritað samstarfssamning
Hagar og sprotafyrirtækið SoGreen hafa undirritað samstarfssamning um stuðning við verkefni þess síðarnefnda upp á tvær og hálfa milljón króna gegn afhendingu 365 óvirkra kolefniseininga. Verkefnið sem um ræðir snýr að því að tryggja allt að 200 stúlkum í Sambíu fulla fimm ára gagnfræðiskólamenntun.
SoGreen hefur þróað aðferðarfræði og reiknilíkan sem magngreinir loftslagsávinning þess að auka menntunarstig stúlkna í þróunarríkjum í tonnum af koltvísýringsígildum. Hafa rannsóknir sýnt að menntun stúlkna í lágtekjulöndum bæði dragi úr losun og auki aðlögunarhæfni og viðnámsþrótt þeirra samfélaga sem loftslagsbreytingar bitna mest á. Aukið menntunarstig stúlknanna skapar þeim ný tækifæri sem jafnframt hægja á fólksfjölgun og leiða til samdráttar í neysludrifinni losun til frambúðar.
Kolefniseiningarnar sem SoGreen framleiðir eru þær fyrstu sinnar tegundar í heiminum. Þær eru óvottaðar sem stendur, en unnið er að vottun þeirra ásamt skráningu í loftslagsskrá International Carbon Registry.
Verkefni SoGreen styður við bæði jafnrétti og loftslagsmál sem eru tvær af meginstoðum sjálfbærnistefnu Haga.
„Við erum afskaplega þakklát Högum fyrir að slást í hóp okkar metnaðarfullu viðskiptavina, sem með kaupum á kolefniseiningum SoGreen taka þátt í mikilvægu frumkvöðlastarfi sem í grunninn snýst um að knýja fram loftslagsréttlæti fyrir samfélög sem loftslagsbreytingar bitna verst og mest á," segir Guðný Nielsen framkvæmdastjóri SoGreen.
„Verkefni SoGreen styður við bæði jafnrétti og loftslagsmál sem eru tvær af meginstoðum sjálfbærnistefnu Haga. Það er því virkilega ánægjulegt að vera í hópi þeirra fjölbreyttu fyrirtækja sem gera verkefni SoGreen í Sambíu að veruleika,“ segir Anton Birkir Sigfússon, forstöðumaður sjálfbærni,- og samfélagsábyrgðar hjá Högum.