Olíuverzlun Íslands mun bjóða viðskiptavinum sínum kolefnisbindingu á móti eldsneytisviðskiptum sínum í sumar þegar verslað er á Olís og ÓB, þeim að kostnaðarlausu. Upphæðin fer óskipt til Landgræðslunnar og nýtist þar í fjölbreytt verkefni sem miða að því að stöðva jarðvegsrof og endurheimta röskuð vistkerfi, svo sem náttúruskóga og framræst votlendi.
Olís bauð viðskiptavinum sínum áður að kaupa kolefnisbindingu á móti akstri sínum og greiddi Olís helminginn af kostnaði. Lykil- og korthöfum Olís og ÓB bauðst að gefa eftir tvær krónur af föstum lítraverðsafslætti til kolefnisbindingar og lagði Olís til tvær krónur á móti. Nú greiðir Olís alla upphæðina, fjórar krónur af hverjum lítra og er með átakinu að stuðla að auknum framlögum til kolefnisbindingar.
„Við erum virkilega stolt af því að ýta þessu umhverfisvæna verkefni úr vör í góðu samstarfi við vini okkar hjá Landgræðslunni. Við trúum því að sumarið verði stórt ferðasumar þar sem landsmenn munu nýta tímann í að skoða náttúruperlur Íslands í stað þess að ferðast erlendis. Þeir viðskiptavinir sem nýta sér fría kolefnisbindingu okkar geta nú keyrt um landið með góðri samvisku og geta treyst því að fjórar krónur af hverjum keyptum lítra munu renna óskertar til mikilvægra verkefna sem styðja við jarðvegs- og gróðurvernd okkar einstaka lands,“ segir Jón Ólafur Halldórsson, framkvæmdastjóri Olís.
„Samstarf Landgræðslunnar og Olís á sér langan aðdraganda og hafa félögin unnið saman að jarðvegs- og gróðurvernd í um 30 ár. Olís hefur því verið stærsti einstaki styrktaraðili landgræðslu á Íslandi og er því afar ánægjulegt að félagið hafi nú ákveðið að bjóða viðskiptavinum sínum upp á fría kolefnisbindingu á móti akstri sínum í sumar. Markmið og hlutverk Landgræðslunnar hefur alltaf verið að vernda, bæta og endurheimta náttúruauðlindir landsins okkar allra og hefur framlag Olís gegnt mikilvægu hlutverki í þágu þess starfs,“ segir Árni Bragason, landgræðslustjóri.
Til að taka þátt í átakinu, þurfa lykil- og korthafar Olís og ÓB að skrá sig fyrir kolefnisbindingu á olis.is og geta aðrir viðskiptavinir óskað eftir kolefnisbindingu við afgreiðslu. Átakið stendur út ágústmánuð.