Sesselía Birgisdóttir hefur verið ráðin forstöðumaður nýsköpunar og markaðsmála hjá Högum. Um er að ræða nýja stöðu innan fyrirtækisins þar sem áherslan verður á að tryggja að þjónustuveiting Haga og dótturfélaga sé ávallt í takt við nútíma þarfir viðskiptavina. Sesselía mun einnig bera ábyrgð á vörumerkja- og samskiptamálum Haga á breiðum grunni.
Sesselía hefur áralanga reynslu af stafrænum verkefnum sem og markaðsmálum. Hún kemur til Haga frá Póstinum þar sem að hún var framkvæmdastjóri Þjónustu og markaðar. Fyrir það starfaði hún sem forstöðumaður stafrænna miðla og markaðsmála hjá Advania. Sesselía er með tvær mastersgráður frá Háskólanum í Lundi, annars vegar í stjórnun mannauðs með áherslu á þekkingarmiðlun og breytingar og hins vegar í alþjóða markaðsfræði og vörumerkjastjórnum.
“Ég er mjög spennt fyrir því að taka þátt í þeirri vegferð sem að Hagar og dótturfélög eru á. Ég hlakka til að takast á við þau fjölbreyttu nýsköpunarverkefni sem að framundan eru, sem öll hafa það að markmiði að mæta síbreytilegum þörfum viðskiptavina.” segir Sesselía Birgisdóttir.
“Við bjóðum Sesselíu sérstaklega velkomna til starfa, en umfangsmikil reynsla hennar og þekking mun nýtast okkur vel í að efla samtal við viðskiptavini og laga þjónustuframboð Haga og dótturfélaga ávallt sem best að þörfum þeirra. Þar horfum við einkum til þess hvernig við getum nýtt nýjar aðferðir og tækni til að einfalda verslun, auka þæginda og hagkvæmni.„