Fara á efnissvæði
Til baka

Hagar kaupa helmings hlut í Lemon

Hagar hf. og eigendur Djús ehf. hafa náð samkomulagi um kaup Haga hf. á helmings hlut í Djús ehf., sem á og rekur veitingastaði undir merkjum Lemon.


Lemon býður upp á ferskan og hollan mat útbúinn á staðnum úr besta mögulega hráefni hverju sinni. Samlokur og djúsar hafa verið vinsælustu vörur Lemon frá upphafi en vefjur, salöt, hafragrautar og orkuskot njóta einnig aukinna vinsælda. Undir merkjum Lemon eru reknir 7 veitingastaðir, þrír á höfuðborgarsvæðinu; á Suðurlandsbraut, Hjallahrauni og Salalaug, og fjórir á Norðurlandi undir nytjaleyfi frá Lemon; á Sauðárkróki, Húsavík og tveir á Akureyri.

„Hagar og dótturfélög leggja áherslu á að fylgjast vel með þörfum viðskiptavina og breytingum á neysluhegðun. Í starfsemi okkar sjáum við aukna eftirspurn og áhuga á hollari valkostum, bæði í matvöruverslunum okkar og á þjónustustöðvum Olís. Vörur og veitingastaðir Lemon passa vel við áherslur okkar um fjölbreyttara val fyrir þá sem að huga að heilsunni og vilja holla og góða næringu. Stjórnendur og starfsfólk Lemon hafa spennandi sýn til framtíðar þar sem að umhverfis- og samfélagsleg málefni eru höfð að leiðarljósi samhliða þróun á hollum og sérlega góðum máltíðum. Á næstu mánuðum stefnum við að því að opna veitingastaði Lemon á þjónustustöðvum Olís og kanna samhliða möguleika á sölu vara frá Lemon í verslunum Haga. Við erum virkilega ánægð með kaupin og hlökkum til skemmtilegs samstarfs við Lemon teymið, sem hefur það að markmiði að bjóða enn stærri hópi viðskiptavina upp á gæðavörur frá Lemon“ segir Finnur Oddsson forstjóri Haga.

„Það er mikil viðurkenning að fá Haga inn í eigendahóp Lemon. Landsmenn hreinlega elska fersku djúsana og samlokurnar okkar en mikil eftirspurn er eftir fjölgun veitingastaða okkar. Með aðkomu Haga erum við í stakk búin til að verða við kalli neytenda og bjóða fleiri landsmönnum upp á sólskin í glasi og sælkerasamlokur“ segir Jóhanna Soffía Birgisdóttir framkvæmdastjóri hjá Lemon.

Kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.