Árshlutareikningur Haga hf. á þriðja ársfjórðungi 2021/22 var samþykktur af stjórn og forstjóra félagsins á stjórnarfundi þann 12. janúar 2022. Reikningurinn er fyrir tímabilið 1. mars 2021 til 30. nóvember 2021. Árshlutareikningurinn hefur að geyma samstæðureikning félagsins og dótturfélaga þess og er hann gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS). Reikningurinn hefur hvorki verið kannaður né endurskoðaður af endurskoðendum félagsins, PricewaterhouseCoopers ehf.
Helstu lykiltölur:
- Vörusala 3F nam 33.551 m.kr. (12,6% vöxtur frá 3F 2020/21). Vörusala 9M nam 100.470 m.kr. (12,9% vöxtur frá 9M 2020/21). [3F 2020/21: 29.787 m.kr., 9M 2020/2021: 88.952 m.kr.]
- Framlegð 3F nam 6.916 m.kr. (20,6%) og 21.149 m.kr. (21,1%) fyrir 9M. [3F 2020/21: 6.395 m.kr. (21,5%), 9M 2020/2021: 19.491 m.kr. (21,9%)]
- Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) 3F nam 2.535 m.kr. eða 7,6% af veltu. EBITDA 9M nam 8.076 m.kr. eða 8,0% af veltu. [3F 2020/21: 1.947 m.kr. (6,5%), 9M 2020/21: 6.263 m.kr. (7,0%)]
- Hagnaður 3F nam 841 m.kr. eða 2,5% af veltu. Hagnaður 9M nam 3.277 m.kr. eða 3,3% af veltu. [3F 2020/21: 448 m.kr. (1,5%), 9M 2020/21: 1.673 m.kr. (1,9%)]
- Grunnhagnaður á hlut 3F var 0,73 kr. og 2,84 kr. fyrir 9M. [3F 2020/21: 0,37 kr., 9M 2020/21: 1,42 kr.]. Þynntur hagnaður á hlut 3F var 0,73 kr. og 2,82 kr. fyrir 9M. [3F 2020/21: 0,37 kr., 9M 2020/21: 1,42 kr.]
- Eigið fé nam 26.502 m.kr. í lok tímabils og eiginfjárhlutfall 40,3%. [Árslok 2020/21: 25.187 m.kr. og 40,9%]
- Afkomuspá stjórnenda fyrir rekstrarárið 2021/22 gerir ráð fyrir að EBITDA verði 10.000-10.500 m.kr.
Helstu fréttir af starfsemi:
- Rekstur á 3F gekk vel með heildarveltu og afkomu töluvert umfram áætlanir og umfram síðasta ár. Helstu kennitölur rekstrar samstæðu styrkjast.
- Heimsóknum í verslanir fjölgar á milli ára en karfa minnkar lítillega. Magnaukning í eldsneytislítrum á 3F er um 18,5%.
- Framlegð samstæðu í krónum hækkar en framlegðarhlutfall lækkar lítillega. Framlegð í krónum af eldsneytissölu hækkar en vegna hækkunar heimsmarkaðsverðs og aukinnar sölu til stórnotenda lækkar framlegðarhlutfall. Framlegð í dagvöruverslun hækkar, bæði hlutfall og í krónum talið.
- Aðlögun á þjónustuframboði eldsneytisstöðva Olís skilaði hagræðingu í rekstri. Áframhaldandi vinna við að styrkja kjarnarekstur Olís á fyrirtækjasviði og efla um leið þjónustu Haga við stórnotendur.
- Vörumerki Bónus var fært í nútímalegra horf og afgreiðslutími verslana lengdur til að bæta þjónustu við viðskiptavini.
- Áhrifa COVID-19 faraldursins munu gæta á rekstur fram á næsta rekstrarár.
- Í desember undirrituðu Hagar samning um áskrift að hlutafé í fasteignaþróunarfélaginu Klasa ehf. Kaupin eru háð samþykki SE.
- Nýr óverðtryggður skuldabréfaflokkur til 3ja ára að fjárhæð 2.500 m.kr., HAGA181024, gefinn út á 3F. Skuldabréfin voru tekin til viðskipta á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland í lok desember sl.
- Aukin áhersla á sjálfbærni- og samfélagsmál, m.a. með samvinnu við Grænvang, samstarfsvettvang stjórnvalda og atvinnulífs um loftslagsmál og grænar lausnir.
Finnur Oddsson, forstjóri:
Það sem helst einkennir uppgjör Haga á þriðja ársfjórðungi er bættur rekstur, sem annarsvegar má rekja til aukinnar veltu og hinsvegar áhrifa hagræðingarvinnu síðustu missera. Vörusala jókst um tæp 13% frá fyrra ári og nam 33.551 m.kr. Afkoma batnaði töluvert, en EBITDA Haga á fjórðungnum var 2.535 m.kr, eða 7,6% af veltu. Hagnaður á fjórðungnum nam 841 m.kr. og jókst um 88%. Á fyrstu 9 mánuðum ársins nam vörusala rúmum 100 ma.kr. og EBITDA hlutfall 8%. Við erum ánægð með rekstur félagins það sem af er ári og sérstaklega að sjá umbótaverkefni skila sér í bættri arðsemi og sterkari innviðum félagsins til lengri tíma.
Megin skýring á góðri niðurstöðu fjórðungs og fyrstu níu mánaða ársins felst í því að allar helstu rekstrareiningar Haga, þ.e. Bónus, Hagkaup og Olís, skiluðu umtalsvert betri rekstrarafkomu á tímabilinu. Þar munar hlutfallslega mestu um bættan rekstur hjá Olís, en þar fer saman 33% tekjuaukning og lægri rekstrarkostnaður það sem af er árs, sem m.a. hefur náðst með breyttum áherslum í starfsemi eldsneytisstöðva. Framlegð í rekstri Olís á fjórðungnum og það sem af er ári hækkar í samræmi við aukið magn, en lækkar hlutfallslega vegna hækkunar á heimsmarkaðsverði og verulega aukinni sölu til stórnotenda. Tekjur í dagvöruverslunum, þ.e. Bónus og Hagkaup, aukast áfram og hefur framlegð hækkað, bæði sem hlutfall og í krónum talið, og nálgast nú það framlegðarstig sem var áður en veirufaraldurinn hófst í byrjun árs 2020.
Vinna við innleiðingu stefnumótunar Haga og umbótaverkefna hjá rekstrarfélögum gengur vel og samkvæmt áætlun. Aðlögun á þjónustu og vöruframboði eldsneytisstöðva hefur skilað umtalsverðum rekstrarbata og á þriðja fjórðungi var hafist handa við að einfalda sölu- og aðfangaskipulag Olís gagnvart stórnotendum. Markmið vinnunnar er að styrkja kjarnarekstur Olís á þessu sviði en efla um leið þjónustu Haga við stórnotendur. Útibúanet Olís verður endurskipulagt, verslunum á landsbyggð breytt í afgreiðslulagera og söluskrifstofur og þjónusta við viðskiptavini verður aukin með beinu sölustarfi og vefsölu. Sala á hreinlætis-, rekstrar- og heilbrigðisvörum verður færð yfir í nýja sölueiningu hjá Högum sem byggir á sterkum innkaupa- og vöruhúsainnviðum sem þar eru fyrir. Yfirfærsla þessara verkefna verður undirbúin enn frekar á næstu vikum og gert er ráð fyrir að ný eining Haga hefji starfsemi á vormánuðum. Samhliða er í undirbúningi uppfærsla á vörumerki Olís með breytingum á ásýnd þjónustustöðva, vöru- og þjónustuframboði.
Undanfarna mánuði hefur sérstaða vörumerkja Haga á neytendamarkaði verið rýnd og skilgreind, með sérstakri áherslu á bæði ytri og innri ásýnd, vöruframboð og þjónustu. Fyrsti afrakstur þessarar vinnu leit dagsins ljós í nóvember þegar vörumerki Bónus, grísinn, var færður í nútímalegra horf og opnunartími verslana var lengdur. Það var ánægjulegt að sjá hvað undirtektir voru fjörugar og hve vel breytingarnar mæltust fyrir, eins og best sést á fjölgun viðskiptavina á tímabilinu. Á næstu mánuðum verður unnið að því að færa verslanir Bónus í nýjan búning, að utan sem innan, auk þess sem viðskiptavinir geta hlakkað til þess að sjá afrakstur svipaðrar vinnu fyrir þjónustuframboð og ásýnd Hagkaups og Olís.
Uppbygging samstæðu Haga til framtíðar og svar við kalli viðskiptavina um aukið aðgengi, hagkvæmni, upplýsingar og þjónustu mun að töluverðu leyti grundvallast á stafrænum lausnum. Fyrsta fasa í uppbyggingu netverslunar Haga og dótturfélaga lýkur fljótlega, þegar ný snyrtivöruverslun Hagkaups verður opnuð. Hönnun og smíði nýrrar netverslunar þjónar sem ákveðinn grunnur fyrir önnur stafræn verkefni sem þegar hefur verið ýtt úr vör og munu nýtast viðskiptavinum síðar á þessu ári.
Í byrjun desember voru undirritaðir samningar, með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins, um kaup Haga á nýju hlutafé í fasteignaþróunarfélaginu Klasa ehf. og um leið samstarf milli Haga, Regins hf. og KLS eignarhaldsfélags ehf. um rekstur og frekari uppbyggingu félagsins. Hagar munu greiða fyrir eignarhlut sinn með þróunareignum sem teljast ekki hluti af kjarnastarfsemi félagsins, m.a. eignum við Stekkjarbakka, Álfabakka, Klettagarða, Álfheimar og Egilsgötu. Framlag Haga er metið á rúma 3,9 ma. kr. og verður eignarhlutur félagsins í Klasa 1/3 af útgefnu hlutafé. Með framlagi eigenda, Haga, Regins og KLS verður heildarumfang þróunareigna Klasa nálægt 280 þúsund fermetrum, auk á annars tug fasteigna í útleigu sem hugsaðar eru til sölu eða frekari þróunar. Verðmæti eigna Klasa eftir viðskiptin verður um 14,8 ma.kr. og eiginfjárhlutfall félagsins í upphafi 79%. Með þessum samningi er stigið mikilvægt skref í að koma verðmætum þróunareignum Haga hratt og örugglega í uppbyggingu, sem stuðlar að jákvæðri þróun á höfuðborgarsvæðinu og er til hagsbóta fyrir hluthafa.
Undir lok árs gerðust Hagar bakhjarl Grænvangs, samstarfsvettvangs stjórnvalda og atvinnulífs um loftslagsmál og grænar lausnir. Við hlökkum til að taka þátt í starfi Grænvangs, sem stillir saman aðgerðir stjórnvalda og atvinnulífs til að ná kolefnishlutleysi á Íslandi árið 2040. Aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda eru eitt af meginþemum sjálfbærnistefnu Haga og er það stefna okkar að Hagar verði áfram leiðandi fyrirtæki á Íslandi þegar kemur að umhverfis- og samfélagslegum málefnum.
Rekstur Haga hefur gengið vel að undaförnu og við höfum séð allar helstu kennitölur rekstrar- og efnahagsreiknings styrkjast síðustu fjórðunga. Þessa breytingu má m.a. rekja til umbótaverkefna sem lagt var upp með undir lok árs 2020 og eru nú að koma til áhrifa í auknum mæli. Framundan er sambærileg vinna sem ætlað er að bæta rekstur enn frekar og styrkja stöðu Haga og dótturfélaga, t.a.m. við að skerpa á og aðlaga vörumerki dótturfélaga, nýta stafrænar leiðir til að efla starfsemi á öllum sviðum samstæðu, þróa vöru- og þjónustuframboð áfram í samræmi við síbreytilega neysluhegðun, hraða uppbyggingu þróunarreita o.s.frv.
Fjárhagsleg staða Haga er sterk og félagið í góðri stöðu til að fylgja eftir áðurnefndri vinnu, en takast um leið á við sérstakar aðstæður sem skapast af breyttri hegðun og neyslumynstri vegna veirufaraldursins og umtalsverðum hækkunum á verði matvöru vegna hnökra í aðfangakeðju á heimsvísu. Þar liggur styrkur Haga í öflugum dótturfélögum sem hafa á að skipa starfsfólki sem hefur sýnt í verki, sérstaklega síðustu tvö ár, að það rís undir hverri ögrun og leggur sig ávallt fram um að efla hag viðskiptavina með hagkvæmri, þægilegri og skemmtilegri verslun. Horfur í rekstri Haga eru því góðar.
Rafrænn kynningarfundur fimmtudaginn 13. janúar 2022
Rafrænn kynningarfundur fyrir markaðsaðila og hluthafa verður haldinn fimmtudaginn 13. janúar kl. 08:30. Fundinum verður varpað í gegnum netið á vefslóðinni https://vimeo.com/event/1696586/embed/7dfccd7e38 þar sem Finnur Oddsson, forstjóri, og Guðrún Eva Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, munu kynna rekstur og afkomu félagsins, ásamt því að svara fyrirspurnum.
Tekið verður við spurningum sem tengjast uppgjörinu á meðan á útsendingu stendur á netfangið fjarfestakynning@hagar.is og verður þeim svarað eins og kostur er í lok fundar.
Kynningargögn verða aðgengileg við upphaf fundar á heimasíðu Haga, www.hagar.is.
Frekari upplýsingar um uppgjörið má finna í meðfylgjandi fréttatilkynningu og árshlutareikningi.
Nánari upplýsingar veita Finnur Oddsson, forstjóri félagsins (fo@hagar.is) og Guðrún Eva Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs (geg@hagar.is), í síma 530-5500 eða tölvupósti.