Samþykktir, starfsreglur og stefnur
Arðgreiðslustefna
Stjórn Haga hf. hefur markað félaginu þá stefnu að skila til hluthafa sinna, beint eða óbeint, þeim verðmætum sem skapast í rekstrinum á hverju ári, umfram nauðsynlegar fjárfestingar til vaxtar og viðhalds félagsins.
Jafnlaunastefna
Jafnlaunastefnu Haga er ætlað að tryggja að allt starfsfólk Haga njóti jafnra launa og sömu kjara og réttinda fyrir sömu eða jafnverðmæt störf þannig að enginn kynbundinn launamunur sé til staðar hjá félaginu.
Jafnréttis- og mannréttindastefna
Stefna Haga er að gætt skuli fyllsta jafnréttis milli kynjanna og að hver starfsmaður Haga sé metinn að eigin verðleikum, óháð kyni, aldri, kynhneigð og uppruna. Allt starfsfólk skal njóta sömu virðingar og skulu kynin hafa jafna stöðu innan fyrirtækisins. Þannig er tryggt gott starfsumhverfi sem gefur af sér tækifæri fyrir hvern þann sem vill. Hvers konar mismunun er óheimil og verður ekki liðin og er það stefna fyrirtækisins að koma í veg fyrir að slíkt ranglæti eigi sér stað.
Persónuverndarstefna
Hagar hafa einsett sér að vinna með persónuupplýsingar í hvívetna í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nú lög nr. 90/2018, með áorðnum breytingum. Til að ná því markmiði hafa Hagar tekið saman skrá yfir þá vinnslu persónuupplýsinga sem fer fram hjá félaginu og markað sér stefnu um hvernig staðið verði að slíkri vinnslu, hvernig réttindi hinna skráðu verði tryggð og hvernig félagið sinni skyldum sínum sem ábyrgðar- og vinnsluaðili. Önnur félög samstæðunnar hafa gert slíkt hið sama.
Reglur um vernd uppljóstrara
Reglum um vernd uppljóstrara er ætlað að koma á skilvirku úrræði til að koma slíkum upplýsingum á framfæri og styðja og vernda þá sem slíkt gera. Markmið reglnanna er að fyrirbyggja misferli og draga úr tjóni sem slíkt kann að hafa í för með sér fyrir samstæðu Haga, viðskiptavini samstæðunnar, samfélagið og aðra hagaðila.
Samkeppnisstefna
Með sátt Haga hf. við Samkeppniseftirlitið, dags. 11. september 2018, vegna samruna félagsins, Olíuverzlunar Íslands ehf. og DGV ehf., skuldbundu Hagar sig til að hlíta tilteknum skilyrðum í starfsemi sinni í samræmi við samkeppnislög. Meðal annars undirgengust Hagar þá skyldu að leggja fram samkeppnisstefnu til samþykktar á hluthafafundi félagsins. Í stefnunni skyldi kveðið á um háttsemi stjórnar og starfsmanna félagsins, skyldur félagsins samkvæmt sáttinni og samkeppnislögum og jafnframt skyldi hún fela í sér hátternisreglur fyrir hluthafa Haga.
Samþykktir
Samþykktir Haga hf. voru staðfestar á aðalfundi félagsins þann 30. maí 2024.
Siðareglur
Hagar er leiðandi fyrirtæki í íslenskri smásöluverslun og leitast við að vera í fararbroddi í íslensku atvinnulífi. Hagar og dótturfélög vilja vera fyrsti valkostur viðskiptavina sinna, góður samfélagsþegn, eftirsóttur vinnuveitandi og ákjósanlegur og öruggur fjárfestingarkostur. Siðareglur þessar gilda um stjórn Haga og allt starfsfólk félagsins og dótturfélaga þess.
Siðareglur birgja
Siðareglum þessum er ætlað að stuðla að því að samstæðan og birgjar hennar verði í sameiningu hreyfiafl til góðra verka. Siðareglur birgja Haga ná til allra birgja samstæðunnar og er birgjum gert að tryggja framfylgd þeirra gagnvart aðfangakeðju sinni.
Sjálfbærnistefna
Hagar sem öflugt félag á smásölumarkaði er í daglegum tengslum við almenning í landinu. Hagar hafa lagt metnað sinn frá upphafi í að þjóna íslenskum neytendum með ábyrgum hætti. Sjálfbærnistefna Haga er langtímaáætlun félagsins um hvernig það getur lagt sitt af mörkum til betra og heilbrigðara samfélags og umhverfis, samhliða heilbrigðum rekstri. Stefnan segir auk þess til um hvernig samskiptum við hagsmunaaðila verði háttað.
Skattastefna
Skattastefnan veitir leiðbeiningar um stjórnun skattamála og skattaáhættu sem tengjast rekstri samstæðunnar, reglufylgni og samskipti við skattayfirvöld. Skattastefnan á við um alla beina og óbeina skatta sem eiga við um Haga sem fyrirtæki og vinnuveitanda. Megin áhersla Haga í skattamálum er að hafa sjálfbæra skattanálgun og hafa Hagar einsett sér að standa við allar skyldur er varða skatta og skil á þeim í samræmi við lög og reglur, á sama tíma og gildum félagsins er fylgt.
Starfskjarastefna
Starfskjarastefna Haga, varðandi laun og aðrar greiðslur til stjórnarmanna, forstjóra og annarra æðstu stjórnenda félagsins, er sett sbr. 79. gr. a. laga nr. 2/1995 og með hliðsjón af leiðbeiningum um góða stjórnarhætti. Starfskjarastefnan var samþykkt á aðalfundi félagsins í maí 2024.
Starfsreglur stjórnar
Stjórn Haga hf. hefur sett sér starfsreglur skv. 5. mgr. 70. gr. laga um hlutafélög, sbr. einnig grein 4.20. í samþykktum félagsins og eru þeim til fyllingar. Þá taka reglurnar mið af fyrirmælum sáttar félagsins við Samkeppniseftirlitsins frá 11. september 2018. Starfsreglurnar voru síðast endurskoðaðar í mars 2024.
Stefna um aðgerðir gegn peningaþvætti
Tilgangur stefnunnar er að koma á og viðhalda skilvirku kerfi til að sporna við að þjónusta og vörur Haga hf. og dótturfélaga verði notaðar í ólöglegum tilgangi er tengist peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
Stjórnarháttayfirlýsing
Stjórn Haga hf. telur stjórnarhætti félagsins vera í samræmi við leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja, 6. útgáfu 2021, gefnum út af Viðskiptaráði Íslands, NASDAQ OMX Iceland hf. og Samtökum atvinnulífsins, sem félaginu ber að fylgja sem útgefandi skráðra verðbréfa, og telur stjórn hvergi vera vikið frá þeim.
Umhverfisstefna
Umhverfisstefna Haga og dótturfélaga er sett fram með það að leiðarljósi að leggja áherslu á mikilvægi umhverfissjónarmiða í daglegri starfsemi félagsins. Meginmarkmiðið er að félagið leggi sitt af mörkum í þágu sjálfbærrar þróunar og samfélagslegrar ábyrgðar og styðji við mikilvægi þess að starfsfólk sé meðvitað um aðgerðir félagsins í þágu umhverfisins. Hagar vilja stuðla að sjálfbærri nýtingu á auðlindum jarðarinnar í þágu íbúa hennar, atvinnulífs og komandi kynslóða, til efnahagslegs og félagslegs ábata.
Upplýsingastefna
Hagar sinna upplýsingagjöf í samræmi við stefnu félagsins um birtingu upplýsinga, sem endurskoðuð og samþykkt var af stjórn Haga þann 7. apríl 2022. Stefnan á að tryggja jafnan aðgang hagsmunaaðila að réttum, tímanlegum og áreiðanlegum upplýsingum um starfsemi félagsins á hverjum tíma, í samræmi við lög og reglur sem félaginu ber að fylgja sem útgefandi fjármálagerninga.