Fara á efnissvæði

Á síðustu árum hefur orðið hröð þróun á því lagaumhverfi sem snýr að birtingu evrópskra fyrirtækja á sjálfbærniupplýsingum. Flokkunarreglugerðin svokallaða (e. EU Taxonomy) tók gildi hér á landi þann 1. júní 2023, en hún skyldar fyrirtæki yfir ákveðnum stærðarviðmiðum til að mæla að hvaða marki starfsemi þeirra telst umhverfislega sjálfbær og er það mælt sem hlutfall af veltu, rekstrarkostnaði og fjárfestingakostnaði. Skýrslugjöf Haga í samræmi við flokkunarreglugerðina má finna í ársreikningi félagsins.

Þá hefur CSRD tilskipunin um skýrslugjöf á sviði sjálfbærni tekið gildi innan Evrópusambandsins. Tilskipuninni fylgja efnismiklir uppgjörsstaðlar (ESRS), sem segja til um hvernig fyrirtæki eiga að haga birtingu á sjálfbærniupplýsingum. Ekki er orðið fulljóst hvenær tilskipunin tekur gildi hér á landi, en undirbúningur fyrir birtingu sjálfbærniupplýsinga í samræmi við umrædda ESRS staðla er þegar hafin innan Haga. 

ÁHRIF, ÁHÆTTA OG TÆKIFÆRI

Á árinu 2023 hófst vinna við að leggja mat á mikilvægi sjálfbærnitengdra áhrifa, áhættu og tækifæra í starfsemi Haga. Við framkvæmd matsins var höfð hliðsjón af fyrrnefndum ESRS stöðlum og drögum að leiðbeiningum um mikilvægismat sem samdar voru af Evrópsku ráðgjafanefndinni um reikningsskil (EFRAG).

Tilgangur matsins er í fyrsta lagi að ákvarða umfang upplýsingaskyldu Haga gagnvart ESRS stöðlunum þegar CSRD tilskipunin tekur gildi hér á landi og í öðru lagi að leggja grunn að stefnumótun félagsins í sjálfbærnimálum með það að markmiði að tryggja langtímaafkomu. Um er að ræða lifandi mat sem verður endurskoðað árlega með hliðsjón af aðstæðum og fyrirliggjandi gögnum á hverjum tíma.

Framkvæmd matsins hófst með undirbúningi þar sem lagður var grunnur að matinu með samantekt nauðsynlegra gagna, m.a. sjálfbærniupplýsinga, fjárhagsupplýsinga, hagaðilakönnunar og upplýsinga um aðgerðir félagsins. Þá voru mismunandi framtíðarsviðsmyndir skoðaðar og listi útbúinn með hugsanlegum áhrifum, áhættum og tækifærum í starfsemi Haga. Í framhaldinu voru haldnar vinnustofur, bæði með lykilstarfsfólki Haga og dótturfélaga. Lögð var áhersla á að þátttakendur hefðu sem fjölbreyttasta reynslu og þekkingu til þess að auðga matið. Markmið þessara vinnustofa var tvíþætt. Annars vegar að greina og koma auga á áhrif, áhættur og tækifæri, og hins vegar að meta mikilvægi þeirra út frá skilgreindum viðmiðum. Að lokum voru niðurstöður dregnar saman í skýrslu.

Þeir efnisflokkar sem lagðir voru til grundvallar í matinu byggjast á ESRS stöðlunum og eru eftirfarandi:

  • Loftslagsbreytingar (E1)
  • Mengun á vatni, landi og andrúmslofti (E2)
  • Vatn og sjávarauðlindir (E3)
  • Líffræðileg fjölbreytni og vistkerfi (E4)
  • Hráefnanotkun og hringrásarhagkerfi (E5)
  • Eigin mannauður (S1)
  • Starfsfólk í virðiskeðju (S2)
  • Samfélagsleg réttindi (S3)
  • Neytendur og endanotendur (S4)
  • Viðskiptasiðferði (G1)

Áhrif

Áhrif Haga á umhverfi eða fólk geta ýmist verið raunveruleg eða hugsanleg, jákvæð eða neikvæð og átt sér stað í eigin starfsemi eða í virðiskeðju félagsins. Við mat á því hvort áhrif félagsins í tengslum við framangreinda efnisflokka teljast „mikilvæg“ er horft til þess hversu mikil, hversu víðtæk og hversu óbætanleg þau eru. Ef um hugsanleg áhrif er að ræða, er jafnframt tekið inn í myndina hversu líklegt sé að áhrif komi fram.

Eftirfarandi tafla inniheldur yfirlit yfir þau áhrif sem Hagar hafa skilgreint sem mikilvæg:

Fjárhagsleg áhætta og tækifæri

Við greiningu á fjárhagslegri áhættu í tengslum við sjálfbærni er horft til atriða sem geta haft fjárhagsleg áhrif á félagið, s.s. leitt til samdráttar í tekjum, aukins kostnaðar, skerts aðgangs að fjármagni, hærri fjármögnunarkostnaðar og/eða minni áhuga frá fjárfestum.

Þegar ákvarðað er hvort fjárhagsleg áhætta telst mikilvæg er annars vegar litið til hugsanlegs fjárhagslegs umfangs hennar og hins vegar til þess hversu líklegt sé að áhætta raungerist. Við mat á fjárhagslegu umfangi raunlægrar áhættu í tengslum við loftslagsbreytingar er miðað við dekkri sviðsmyndir á borð við RCP8.5 sviðsmynd Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna (IPCC), en við mat á umfangi umbreytingaráhættu er tekið mið af sviðsmynd þar sem þjóðir heimsins halda sig við 1,5 gráðu markmið Parísarsamkomulagsins.  Mat á líkindum tekur svo aftur á móti mið af núverandi aðstæðum og yfirlýstri stefnu stjórnvalda.

Hér er samantekt yfir þær áhættur sem taldar eru ná mikilvægisþröskuldi:

Niðurstaða

Út frá mikilvægismati á áhrifum, áhættu og tækifærum í starfsemi Haga og virðiskeðju er það niðurstaða félagsins að eftirtaldir þrír efnisflokkar ESRS staðlanna séu mikilvægir út frá bæði áhrifum og fjárhagslegri áhættu:

  • Loftslagsbreytingar (E1)
  • Eigin mannauður (S1)
  • Neytendur og endanotendur (S4)

Þá eru fimm efnisflokkar taldir mikilvægir út frá mati á áhrifum, en ná ekki upp fyrir mikilvægisþröskuld fjárhagslegrar áhættu:

  • Mengun á vatni, landi og andrúmslofti (E2)
  • Líffræðileg fjölbreytni og vistkerfi (E4)
  • Hráefnanotkun og hringrásarhagkerfi (E5)
  • Starfsfólk í virðiskeðju (S2)
  • Viðskiptasiðferði (G1)

Að lokum voru eftirfarandi efnisflokkar hvorki taldir mikilvægir út frá mati á áhrifum né fjárhagslegri áhættu:

  • Vatn og sjávarauðlindir (E3)
  • Samfélagsleg réttindi (S3)

Framangreind niðurstaða leggur grunn að langtímaforgangsröðun verkefna og stefnumótun Haga í tengslum við sjálfbærni.

SJÁLFBÆRNISTEFNA

Uppfærð sjálfbærnistefna Haga var samþykkt af stjórn félagsins þann 22. mars 2024. Við uppfærslu á stefnunni var tekið mið af mikilvægismati félagsins á sjálfbærnitengdum áhrifum, áhættu og tækifærum.

Sjálfbærnistefna Haga er langtímaáætlun félagsins um hvernig það getur lagt sitt af mörkum til betra og heilbrigðara umhverfis og samfélags, samhliða heilbrigðum rekstri. Stefnan byggir á fjórum meginstoðum, sem móta áherslur félagsins og þau lykilverkefni sem unnið er að hverju sinni:

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Hagar hafa valið sjö af sautján heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna til að styðja enn frekar við stefnustoðir félagsins. Markmiðin eru: 5: Jafnrétti kynjanna, 8: Góð atvinna og hagvöxtur, 9: Nýsköpun og uppbygging, 10: Aukinn jöfnuður, 12: Ábyrg neysla og framleiðsla, 13: Aðgerðir í loftslagsmálum, 15: Líf á landi.

Heimsmarkmiðin

MARKMIÐ

Hagar hafa sett sér 21 yfirmarkmið og 31 undirmarkmið þvert á málaflokka sjálfbærni. Miðað var við að markmiðin væru mælanleg eins og kostur er. Í sumum tilvikum er þó nauðsynlegt að afla frekari gagna svo hægt sé að skapa grunnviðmið sem mælanlegt markmið tekur mið af. Greint verður frá stöðu markmiða og hvernig það tekst til að framfylgja þeim árlega í sjálfbærniskýrslu félagsins.

Markmið félagsins eru eftirfarandi:

SJÁLFBÆRNIUPPGJÖR

Sjálfbærniuppgjör Haga var birt samhliða ársreikningi félagsins þann 23. apríl 2024. Uppgjörið hefur að geyma tölulegar niðurstöður tengdar umhverfismálum, mannauðsmálum og stjórnarháttum í starfsemi samstæðunnar. Um er að ræða fyrsta sjálfbærniuppgjör Haga sem hlotið hefur staðfestingu óháðs endurskoðanda með takmarkaðri vissu (e. limited assurance).

Sjálfbærniuppgjör Haga ásamt staðfestingu óháðs endurskoðanda má finna hér.

Sjálfbærni Umhverfi

Hagar og dótturfélög þess hafa um árabil lagt mikla áherslu á umhverfismál í allri sinni starfsemi.  Uppfærð umhverfisstefna samstæðunnar var samþykkt af stjórn í mars 2024. Umhverfisstefnan nær til allrar starfsemi Haga og dótturfélaga auk starfsfólks samstæðunnar. Meginmarkmið stefnunnar er að samstæðan leggi sitt af mörkum í þágu sjálfbærrar þróunar og samfélagslegrar ábyrgðar og styðji við mikilvægi þess að starfsfólk sé meðvitað um aðgerðir félagsins í þágu umhverfisins. Hagar vilja stuðla að sjálfbærri nýtingu á auðlindum jarðarinnar í þágu íbúa hennar, atvinnulífs og komandi kynslóða, til efnahagslegs og félagslegs ábata.

Umhverfisstefnan leggur megináherslu á fjóra málaflokka, þ.e. loftslagsbreytingar, hringrásarhagkerfi, mengun og líffræðilega fjölbreytni.

LOFTSLAGSBREYTINGAR

Hagar leggja áherslu á að þekkja áhrif félagsins á loftslagið og draga markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þá er á sama tíma mikilvægt að tryggja seiglu félagsins gagnvart hugsanlegum afleiðingum loftslagsbreytinga.

Losun gróðurhúsalofttegunda í starfsemi Haga og dótturfélaga er gerð upp í samræmi við Greenhouse Gas Protocol aðferðarfræðina og er notast við Sustainability Platform hugbúnaðarlausn Klappa til að halda utan um losunarbókhald samstæðunnar. Greenhouse Gas Protocol aðferðarfræðin skiptir losun upp í þrjú umföng:

  • Umfang 1 nær til beinnar losunar frá starfsemi Haga. Um er að ræða þá losun sem verður til í rekstri félagsins, s.s. vegna eldsneytisbruna farartækja eða gasleka af kælikerfum.
  • Umfang 2 nær til óbeinnar losunar vegna aðkeyptrar orku. Hér er um að ræða losun sem verður til við framleiðslu á því rafmagni og heitavatni sem notað er í starfsemi Haga.
  • Umfang 3 nær svo til annarrar óbeinnar losunar sem á sér stað í virðiskeðju Haga og er tilkomin vegna viðskiptaumsvifa félagsins. Umfang 3 inniheldur 15 losunarflokka sem skiptast í aðstreymi (e. upstream) og frástreymi (e. downstream).
  • Mæld heildarlosun (tCO2í) 1.211.463

  • Samdráttur í losun milli ára 1,5%

  • Losunarþáttum bætt við 4

Síðastliðið ár hefur markvisst verið unnið að því að útvíkka losunarbókhald samstæðunnar svo það gefi betri mynd af heildaráhrifum hennar á loftslagið. Framkvæmt var mikilvægismat í þeim tilgangi að forgangsraða útreikningum á losunarþáttum eins og þeir eru skilgreindir í Greenhouse Gas Protocol. Við matið var annars vegar horft á áætlað eða útreiknað umfang losunarþáttar og hins vegar hversu aðgengilegt væri að framkvæma útreikninga á viðkomandi losunarþætti.

Grænmerktir losunarþættir eru þeir sem taldir hafa verið fram í fyrri uppgjörum félagsins á meðan þeir rauðmerktu hafa ekki verið gerðir upp hingað til. Með hliðsjón af umræddu mikilvægismati var ákveðið að bæta eftirfarandi losunarþáttum við losunarbókhaldið og reikna þá út afturvirkt til ársins 2022:

  • Lekalosun (Umfang 1)
  • Aðkeypt vara og þjónusta (Umfang 3)
  • Aðkeyptur flutningur og dreifing (Umfang 3)
  • Notkun á seldri vöru (Umfang 3)

Þá var tveimur nýjum rekstrareiningum bætt við losunarbókhaldið, þ.e. Eldum rétt og Stórkaup.  

Að framangreindu viðbættu var mæld heildarlosun Haga 1.211.463 tCO2í á árinu 2023, en lækkaði hún um 1,5% milli ára. Hér að neðan má sjá sundurliðun á losun félagsins.

Gróðurhúsalofftegundir Eining 2022 2023
Umfang 1 tCO2í 3.149,4 3.432,9
Umfang 2 (landsnetið) tCO2í 577,5 581,2
Umfang 2 (m.t.t. upprunaábyrgða) tCO2í 0 14.477,4
Umfang 1 og 2 (landsnetið) tCO2í 3.727 4.014,1
Umfang 3 tCO2í 1.225.483 1.207.449
Samtals losun GHL (landsnetið) tCO2í 1.229.210 1.211.463
Umfang 1 Eining 2022 2023
Staðbundin eldsneytisnotkun tCO2í 8,2 6,1
Eldsneytisnotkun farartækja tCO2í 822,4 843,6
Lekalosun tCO2í 2.318,8 2.583,2
Heildarlosun í umfangi 1 tCO2í 3.149,4 3.432,9
Umfang 2 Eining 2022 2023
Rafmagn tCO2í 293,1 286,4
Hitaveita tCO2í 284,4 294,8
Heildarlosun í umfangi 2 tCO2í 577,5 581,2
Umfang 3 - Losun á fyrri stigum Eining 2022 2023
Flokkur 1: Aðkeypt vara og þjónusta      
Aðkeypt vara til endursölu tCO2í 484.785 501.240
Heildarlosun tCO2í 484.785 501.240
Flokkur 3: Eldsneytis- og orkutengd starfsemi      
Losun á fyrri stigum vegna eldsneytisnotkunar tCO2í 186,6 207,8
Losun á fyrri stigum vegna rafmagnsnotkunar tCO2í 1 1
Flutnings- og dreifitap raforku og hitaveitu tCO2í 122 129,7
Heildarlosun tCO2í 309,6 338,4
Flokkur 4: Aðkeyptur flutningur og dreifing      
Flutningur með flugi tCO2í 4.391,6 2.911
Flutningur með skipi tCO2í 4.012 4.138,4
Landflutningar tCO2í 1.666,3 1.740,9
Heildarlosun tCO2í 10.069,9 8.790,3
Flokkur 5: Úrgangur frá rekstri      
Flutningur, förgun og meðhöndlun á úrgangi tCO2í 855,8 689,2
Heildarlosun tCO2í 855,8 689,2
Flokkur 6: Viðskiptaferðir      
Flugferðir tCO2í 25,9 35,5
Heildarlosun tCO2í 25,9 35,5
Flokkur 11: Notkun á seldri vöru      
Notkun á seldu eldsneyti og gasi tCO2í 729.437 696.355
Heildarlosun tCO2í 729.437 696.355
Heildarlosun í umfangi 3 tCO2í 1.225.483 1.207.449

Nánari upplýsingar um aðferðarfræði við gerð losunarbókhaldsins má finna hér.

Umfang 1 og 2

Losun Haga í umföngum 1 og 2 var 4.014 tCO2í árið 2023, en hún skiptist með eftirfarandi hætti:

Sjá má að ofan að langstærsti einstaki losunarþátturinn í umföngum 1 og 2 er svokölluð lekalosun. Um er að ræða losun sem verður þegar kælimiðlar, einkum F-gös, leka af kælikerfum í verslunum, vöruhúsum eða framleiðslueiningum innan samstæðunnar. F-gös geta haft mikil gróðuhúsaáhrif og getur leki af einu kg af slíkum gösum jafngilt allt að 3.900 kg af koltvísýringi.

Lekalosun getur verið mjög sveiflukennd og hækkaði t.a.m. losun félagsins á milli ára þrátt fyrir hærra hlutfall kolsýruvæddra kælikerfa. Ástæður hækkunarinnar má einkum rekja til stórs leka sem varð af kælikerfi í vöruhúsi samstæðunnar að Korngörðum 1.

Losun vegna eldsneytisnotkunar jókst jafnframt lítillega á milli ára, en ástæður þess eru einkum aukin umsvif Aðfanga í dreifingu ásamt því að árið 2023 var fyrsta heila rekstrarár Stórkaups. Á sama tíma var hins vegar samdráttur í slíkri losun hjá Bónus, Bönunum, Hagkaup og Olís.

Þá lækkaði staðbundin losun vegna rafmagnsnotkunar um 2,3% milli ára á meðan losun vegna heitavatnsnotkunar jókst um 3,7%. 

Hér að neðan má sjá samantekt á heildarorkunotkun samstæðu Haga síðustu ár. Ítarlegri upplýsingar um orkunotkun má finna í sjálfbærniuppgjöri 2023.

Orkunotkun Eining 2022 2023
Jarðefnaeldsneyti kWst 3.318.809 3.396.988
Rafmagn kWst 28.458.972 27.804.852
Hitaveita kWst 32.133.263 33.305.657
Heildarnotkun kWst 63.911.045 64.507.496

Markmið og aðgerðir

Hagar hafa sett sér markmið um að minnsta kosti 60% samdrátt í raunlosun í umföngum 1 og 2 fyrir árið 2030, miðað við árið 2023, og að fjárfest verði í raungerðum og vottuðum kolefniseiningum vegna þeirrar losunar sem eftir stendur. 

Aðgerðir félagsins til að draga úr losun í umföngum 1 og 2 eru einkum eftirfarandi:

  • Kolsýruvæðing kælikerfa
  • Orkuskipti bílaflota
  • Orkusparandi aðgerðir, s.s. LED-væðing og lokun kæla og frysta

Áhrifaríkasta aðgerðin til að ná framangreindum markmiðum er að skipta út eldri kælikerfum sem nota F-gös fyrir nýrri kælikerfi sem ganga fyrir kolsýru. Hagkaup hefur þegar lokið kolsýruvæðingu kælikerfa í öllum sínum verslunum, en síðasta kælikerfinu var skipt út undir lok árs 2023. Þá hækkaði hlutfall kolsýruvæddra Bónus verslana í 33% úr 25% á milli ára og er unnið að kolsýruvæðingu hjá öðrum dótturfélögum innan samstæðunnar. 

Til viðbótar er lögð áhersla á að auka hlutfall þeirra bifreiða og vinnutækja sem ganga fyrir rafmagni í starfsemi Haga á næstu árum. Það sem mun telja mest í því samhengi er rafvæðing þeirra bifreiða sem sinna vörudreifingu innan samstæðunnar, en fyrsta rafdrifna sendibifreiðin var tekin í notkun hjá Aðföngum á þar síðasta ári.

Að lokum hefur markvisst verið unnið að orkusparandi aðgerðum innan samstæðunnar, þ.m.t. uppsetningu LED-lýsingar og lokun kæla og frysta. Allar verslanir Hagkaups hafa nú verið LED-væddar og 82% af verslunum Bónus.

Umfang 3

Umfang 3 tekur til óbeinnar losunar í virðiskeðju Haga sem er til komin vegna viðskiptaumsvifa félagsins. Mæld losun Haga í umfangi 3 var 1.207.449 tCO2í og lækkaði um 1,5% á milli ára, en hún skiptist með eftirfarandi hætti:  

Aðkeypt vara til endursölu

Aðkeypt vara til endursölu er næst stærsti losunarþátturinn í starfsemi Haga. Losunarþátturinn nær til svokallaðrar „cradle-to-gate“ losunar af allri þeirri matvöru, sérvöru og eldsneyti sem Hagar og dótturfélög selja. Um er að ræða losun sem verður m.a. til við öflun hráefna, framleiðslu og vinnslu á umræddum vörum.

Losun í umræddum flokki hækkaði um 3,4% milli ára, sem má einkum rekja til aukningar í magni af aðkeyptum aðföngum til endursölu.

Eldsneytis- og orkutengd starfsemi

Þáttur þessi nær til þeirrar losunar sem er til komin vegna eldsneytis- og orkunotkunar félagsins, en fellur ekki undir umföng 1 og 2. Dæmi um slíka losun er hlutdeild í flutnings- og dreifitapi raforku og hráefnavinnsla, framleiðsla og flutningur á brenndu eldsneyti.

Losun vegna þessa þáttar hækkaði um 9,3% á milli ára, en losunin stýrist af notkun á rafmagni, heitu vatni og eldsneyti.

Úrgangur

Losun vegna úrgangs í starfsemi félagsins lækkaði um 19,5% milli ára. Lækkunina má einkum rekja til betri flokkunar á starfsstöðvum félagsins sem skilar sér jafnframt í bættu endurvinnsluhlutfalli. Nánar er fjallað um stöðu úrgangsmála í kafla um hringrásarhagkerfi hér á eftir.

Aðkeyptur flutningur og dreifing

Losun vegna aðkeypts flutnings og dreifingar lækkaði um 12,7% eða 1.280 tCO2í á milli ára þrátt aukningu í fluttu magni. Helstu ástæður lækkunarinnar eru þær að hlutfall flugfraktar af innfluttu magni hjá Bönunum lækkaði úr 7,2% í 6,0% á milli ára auk þess sem Zara hóf síðasta sumar að flytja inn allar birgðir með skipi í stað flugs.

  • Flugfrakt (tCO2í) 4.138

  • Sjóflutningur (tCO2í) 2.911

  • Landflutningur (tCO2í) 1.741

Notkun á seldri vöru

Losun vegna bruna viðskiptavina á því eldsneyti og gasi sem Olís selur er stærsti losunarþátturinn í starfsemi Haga. Lækkun var á losun vegna þessa þáttar um 4,5% eða 33.082 tCO2í á milli ára. Lækkunina má rekja til hærra íblöndunarhlutfalls vistvænna eldsneytis auk þess sem færri lítrar af jarðefnaeldsneyti voru seldir árið 2023 samanborið við árið á undan.

Markmið og aðgerðir

Það er markmið Haga að bæta mælingar og ná fram árlegum samdrætti í virðiskeðjulosun. Í þessu samhengi hefur samstæðan sett sér eftirfarandi undirmarkmið:

  • Nákvæmari mælingar á virðiskeðjulosun
  • Innleiðing innkaupastefnu með áherslu á sjálfbærni
  • Lágmörkun losunar vegna vöruflutninga
  • Virk þátttaka í orkuskiptum

Hvað fyrsta undirmarkmiðið varðar, þá var uppgjöri á fjórum nýjum losunarþáttum bætt við losunarbókhald Haga í ár, en með þeim viðbótum er áætlað að losunarbókhaldið nái utan um yfir 98% af beinni og óbeinni heildarlosun samstæðunnar. Áfram verður unnið að því að bæta losunarþáttum við losunarbókhaldið.

Jafnframt er svigrúm til að gera mælingar nákvæmari, einkum þegar það kemur að aðkeyptri vöru til endursölu. Við útreikninga á umræddum losunarþætti var notast við þyngd vöru í tilvikum þar sem hún lá fyrir ásamt samsvarandi losunarstuðli (e. average-data method). Í öðrum tilvikum var kostnaðarverð vöru notað sem grundvöllur útreikninga (e. spend-based method). Unnið verður að því á árinu að auka hlutfall þess sem reiknað er út á grundvelli þyngdar, enda er sú aðferð töluvert nákvæmari en sú síðarnefnda. Enn fremur má búast við því að framleiðendur matvæla muni á næstu árum gera svokallaðar lífsferilsgreiningar (LCA) í auknum mæli, en nákvæmast er að miða við slíkar greiningar við útreikning á losun vegna aðkeyptrar vöru.

Til þess að stuðla að samdrætti í losun vegna vörukaupa er einnig stefnt að því að innleiða innkaupastefnu með áherslu á sjálfbærni á árinu, þar sem m.a. verður horft til losunar vöru við innkaup. Þegar um er að ræða tvær sambærilegar vörur frá tveimur mismunandi framleiðendum getur hins vegar oft verið erfitt að gera sér grein fyrir því hvor varan hafi minna kolefnisspor án þess að viðkomandi framleiðendur hafi framkvæmt fullnægjandi greiningu þess efnis. Þar af leiðandi er mikilvægt að Hagar og dótturfélög undirstriki mikilvægi þess að slíkar greiningar séu gerðar.

Þá verður áfram stefnt á að taka skref til að lágmarka losun vegna vöruflutninga í virðiskeðju Haga. Áhrifaríkasta aðgerðin í því samhengi er að minnka hlutfall flugfraktar eins og kostur er, en góður árangur náðist á þessu sviði á síðasta ári.

Líkt og áður kom fram er stærsti losunarþáttur í starfsemi Haga notkun viðskiptavina Olís á seldu eldsneyti. Flugvélar, skip og stærstur hluti bílaflotans á Íslandi ganga enn fyrir jarðefnaeldsneyti og munu orkuskiptin að miklu leyti stýra því hversu hratt næst að draga úr losun vegna þessa þáttar.

Hagar leggja áherslu á að taka virkan þátt í orkuskiptunum. Haustið 2022 gerði Olís samstarfssamning við Ísorku um uppbyggingu á víðáttumiklu neti hraðhleðslustöðva um allt land. Síðan þá hafa verið settar upp hraðhleðslustöðvar á 15 Olís-stöðvum og er stefnt að því að þær verði a.m.k. 20 fyrir lok núlíðandi rekstrarárs.

Einnig er lagður metnaður í að bjóða upp á fjölbreytt úrval af umhverfisvænna eldsneyti. Í apríl 2023 hóf Olís sölu á E10 bensíni, sem inniheldur 10% af etanóli. Aukið hlutfall etanóls jafngildir minni losun gróðurhúsalofttegunda við bruna, en geta allar bensínknúnar bifreiðar sem hafa verið framleiddar frá árinu 2011 (og flestar þær sem eldri eru) notað nýja E10 eldsneytið. Auk þess blandar Olís díselolíu sína með vetnismeðhöndlaðri lífrænni olíu (VLO), sem er hreinni og umhverfisvænni en hefðbundin díselolía. Framleiðsluaðferðin á VLO gerir hana gjörólíka annarri lífdíselolíu, en hún er laus við vandamál sem hafa fylgt slíkum olíum eins og botnfall, oxun og bakteríumyndun.

Olís hefur jafnframt verið í fararbroddi í sölu á metani frá því að félagið opnaði sína fyrstu metanafgreiðslu í Mjódd í byrjun sumars 2013. Síðan þá hafa tvær metanstöðvar til viðbótar verið opnaðar, í Álfheimum og á Akureyri, en Olís rekur flestar metanstöðvar á Íslandi. Þá undirritaði Olís viljayfirlýsingu við Landsvirkjun og Linde í nóvember 2023 um samstarf í uppbyggingu virðiskeðju græns vetnis á Íslandi. Markmið samstarfsins er að gera vetni að raunhæfum kosti í samgöngum á Íslandi, einkum í tengslum við vörudreifingu, þungaflutninga og stærri farartæki, þar sem rafvæðing hentar síður.

Fjárfesting í kolefniseiningum

Þótt aðaláhersla sé lögð á samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda hjá Högum þykir jafnframt mikilvægt að styðja við lausnir sem miða að bindingu kolefnis úr andrúmslofti eða forðun á losun gróðurhúsalofttegunda.

Það er stefna Haga að fjárfesta í fjölbreyttum og ábyrgum verkefnum sem leggja áherslu á rekjanleika og mælingar. Þá er einnig lögð áhersla á að fjárfestingin skili sér innanlands eða til samfélaga sem eru einstaklega viðkvæm fyrir afleiðingum loftslagsbreytinga.

Fjárfest var í eftirfarandi verkefnum:

YGG Carbon: Íslenskt skógræktarverkefni sem hefur hlotið vottun frá iCert í samræmi við Skógarkolefnisstaðalinn. Fjárfest var í 615 vottuðum kolefniseiningum í bið úr verkefni YGG við Hvanná á Jökuldal sem munu raungerast á árunum 2032 til 2072 samhliða því sem skógurinn vex.

Bio-Logical: Binding kolefnis með framleiðslu lífkola úr hnetuskeljum í Keníu. Verkefnið hefur tengingu við matvælaframleiðslu þar sem lífkol eru notuð til að auðga jarðveg til ræktunar. Áætlaður varanleiki bindingarinnar er a.m.k. 100 ár, en gæti numið margfalt því. Verkefnið er vottað af puro.earth. Fjárfest var í 82 vottuðum kolefniseiningum sem munu raungerast á þessu ári. 

Running Tide: Kolefnisbinding sem fer fram með því að útbúin eru kolefnisflothylki úr timbri, kalksteini og þörungum sem fleytt er á rúmsjó þar sem þau sökkva djúpt til sjávar. Áætlaður varanleiki bindingarinnar er þúsundir til milljón ár. Kolefniseiningar Running Tide eru óvottaðar, en ekki hefur verið til vottunarrammi fyrir þessa tegund verkefna, sem eru ný af nálinni. Verkefnið hefur þó verið tekið út af óháðum þriðja aðila.

SoGreen: Verkefnið snýr að því að tryggja allt að 200 stúlkum í Sambíu fulla fimm ára gagnfræðiskólamenntun. SoGreen hefur þróað aðferðarfræði og reiknilíkan sem magngreinir loftslagsávinning þess að auka menntunarstig stúlkna í þróunarríkjum í tonnum af koltvísýringsígildum. Kolefniseiningar sem SoGreen framleiðir eru óvottaðar sem stendur, en unnið er að vottun þeirra ásamt skráningu í loftslagsskrá International Carbon Registry. Fjárfest var í 365 óvirkum kolefniseiningum.

Landgræðslan: Árið 2023 undirrituðu Olís og Landgræðslan samning um samstarf til 5 ára um kolefnisbindingu með landgræðsluverkefnum. Hlutverk Landgræðslunnar er að vernda, endurheimta og bæta þær auðlindir þjóðarinnar sem fólgnar eru í gróðri og jarðvegi og tryggja sjálfbæra nýtingu lands.

Aðlögun að loftslagsbreytingum

Loftslagsbreytingar munu koma til með að hafa umtalsverð áhrif á matvælaframleiðslu um allan heim. Afleiðingar loftslagsbreytinga eru þegar farnar að gera vart við sig í virðiskeðju Haga þar sem uppskerubrestir vegna veðurfarsbreytinga eru tíðari en áður. Hér eru nokkur nýleg dæmi um hvernig veðurfarsbreytingar hafa haft áhrif á framleiðslu matvæla og verðlag:

  • Miklir þurrkar á Spáni hafa leitt til samdráttar í framleiddu magni af ólífum. Ólífutré þurfa rigningu á réttum tíma árs til að hámarka uppskeru. Afleiðing rigningaskortsins er því skortur á framleiddu magni og hefur verð á ólífum í kjölfarið rokið upp um tugi prósenta.
  • Hátt hitastig og skortur á regni á Fílabeinsströndinni hefur orðið til þess að uppskera á kakóbaunum hefur minnkað um tugi prósenta, sem endurspeglast í hækkun súkkulaðiverðs.
  • Öfgafull veðurbrigði, fellibyljir og sjúkdómar í Brasilíu og Bandaríkjunum hafa leitt til skorts á appelsínum til safagerðar með þeim afleiðingum að verð hefur hækkað verulega.
  • Hátt hitastig og fellibyljir hafa haft þau áhrif að kaffiframleiðsla í Víetnam og Brasilíu, t.d. á Robusta kaffibaunum, hefur hrunið. Þetta hefur leitt til minni uppskeru og hækkunar á kaffiverði um tugi prósenta.
  • Fellibylurinn El Nino hefur haft mikil áhrif á framleiðslu kókósolíu á Filippseyjum og hefur það leitt til framboðsskerðingar og mikilla verðhækkana.

Takmörkun framboðs sem bundið er við einstaka vörur eða vörutegundir felur í sér óverulega áhættu fyrir Haga. Aðlögunarhæfni samstæðunnar gerir henni kleift að bregðast við slíkum breytingum á framboði án mikilla vandkvæða. Komi hins vegar til þess að vöruskortur verði kerfislægur á heimsvísu, s.s. vegna uppskerubresta og útflutningsbanna sem þjóðríki setja á framleiðsluafurðir sínar, getur það haft töluverð áhrif á starfsemi Haga. Hagar líta á það sem samfélagslega skyldu sína að standa vörð um matvælaöryggi Íslands. Á þeim árum sem framundan eru er því mikilvægt fyrir félagið að vera á verðinum og tryggja seiglu þess gagnvart afleiðingum loftslagsbreytinga. Styrking viðskiptasambanda við erlenda aðila og stuðningur við vöxt innlendrar matvælaframleiðslu eru dæmi um aðgerðir sem miða að því að takmarka áhrif slíkra atburða á starfsemi Haga.

Þá þykir jafnframt ljóst að stefnur og aðgerðir stjórnvalda til að milda áhrif loftslagsbreytinga muni hafa áhrif á þann hluta starfsemi Haga sem snýr að sölu á eldsneyti. Markmið Evrópusambandsins um kolefnishlutleysi fyrir árið 2050 og 55% samdrátt í losun fyrir 2030 gera ráð fyrir hröðum orkuskiptum með tilheyrandi áhrifum á tekjur vegna olíusölu. Núverandi birtingarmyndir þessa eru m.a. kolefnisskattar, yfirvofandi losunarheimildarkerfi fyrir söluaðila eldsneytis (ETS 2) og losunarheimildarkerfi á flutningsaðila eldsneytis (ETS) sem öll leiða til hærra kostnaðarverðs á jarðefnaeldsneytisbruna í þeim tilgangi að hraða orkuskiptum. Hagar leggja kapp á að taka virkan þátt í þeim orkuskiptum sem framundan eru og að vera leiðandi í framboði á umhverfisvænni orkugjöfum.

HRINGRÁSARHAGKERFI

Það er stefna Haga að lágmarka alla sóun og innleiða hringrásarhugsun í starfsemi félagsins. Einkum er lögð áhersla á að:

  • Halda úti mælingum á vörusóun og þeim úrgangi sem fellur til í starfseminni.
  • Leita stöðugt leiða til að draga úr vörusóun, minnka úrgangsmagn og bæta flokkunar- og endurvinnsluhlutfall.
  • Hafa sjálfbærnisjónarmið að leiðarljósi við hönnun og efnisval á umbúðum fyrir eigin framleiðsluvörur.

Úrgangur

Heildarmagn þess úrgangs sem myndaðist í starfsemi samstæðunnar var 5.880 tonn á árinu 2023. Þar af var bylgjupappi rúm 50%, en mikið af þeim vörum sem hafa viðkomu í vöruhúsum og verslunum samstæðunnar eru pakkaðar í bylgjupappa. Þá var blandaður rekstrarúrgangur 1.246 tonn og minnkaði um 9,4% milli ára. 

Flokkunarhlutfall úrgangs var 74% á árinu 2023, sem er góð bæting frá árinu á undan þegar það var 68,7%. Þá var endurnýtingarhlutfall úrgangs 76,1% árið 2023 samanborið við 69,4% árið 2022.

  • Úrgangsmagn frá starfsemi 5.880 t

  • Flokkunarhlutfall 74%

  • Endurnýtingarhlutfall 76%

Þær fjórar starfsstöðvar Haga sem voru með hæsta flokkunarhlutfallið voru:

  • Vöruhús Banana í Korngörðum með 91,7%
  • Vinnsla Ferskra kjötvara í Síðumúla með 90,9%
  • Bónusverslun í Túngötu í Reykjanesbæ með 87,4%
  • Bónusverslun í Fitjum í Reykjanesbæ með 87,1%

Hagar hafa sett sér það markmið að ná 79% flokkunarhlutfalli á samstæðugrundvelli fyrir árið 2027. Árangur í úrgangsmálum hefur verið misgóður innan ólíkra rekstrareininga samstæðunnar. Svo markmið þetta náist er því mikilvægt að viðhalda og efla verkferla hjá rekstrareiningum sem vel hafa staðið að þessum málum og leggja áherslu á að gera betur hjá þeim einingum sem þurfa á úrbótum að halda.

Matarsóun

Gríðarlegt magn matvæla fer í gegnum vöruhús og verslanir samstæðunnar á ári hverju og er mikið kapp lagt á að minnka matarsóun eins og kostur er. Þrátt fyrir lágt rýrnunarhlutfall í alþjóðlegum samanburði nam lífrænn úrgangur frá starfseminni samtals 965 tonnum á árinu 2023. Stærstur hluti þessa úrgangs, eða um 62%, féll til hjá Bönunum, dótturfélagi Haga.

Bananar eru stærsti innflutningsaðili á fersku grænmeti og ávöxtum á Íslandi. Vörur þessar hafa flestar stuttan líftíma og eru Bananar því í kappi við tímann allt frá því að vörurnar eru teknar upp eða týndar af trjánum. Helsta orsök umræddrar sóunar eru skemmdir sem verða á innfluttu grænmeti og ávöxtum vegna misbresta á fyrri stigum í virðiskeðjunni, s.s. vegna ófullnægjandi meðferðar eða hitastýringar við flutning frá upprunastað.

Matvöruverslunum félagsins hefur gengið ágætlega að stemma stigu við matarsóun. Hjá Bónus var magn lífræns úrgangs 213 tonn árið 2023 og minnkaði um 3,5% á milli ára þrátt fyrir aukin umsvif. Á sama tímabili var magn lífræns úrgangs í Hagkaup 84 tonn og var 18,1% samdráttur á milli ára.

Það er markmið Haga að minnka magn lífræns úrgangs á samstæðugrundvelli um 15% fyrir árið 2027, miðað við grunnár 2023. Aðgerðir Haga til að sporna við matarsóun eiga sér stað á mismunandi stöðum í virðiskeðjunni, en þær eru einkum eftirfarandi:

  • Virk innkaupastýring
  • Samtal við birgja og flutningsaðila um góða meðferð vöru við flutninga
  • Framstilling í verslun
  • Björgun matvæla sem eru á síðasta snúning
  • Endurnýting á þeim matvælum sem ekki verður bjargað

Fyrsta og mikilvægasta aðgerðin til að sporna við matarsóun er virk innkaupastýring. Matarsóun byrjar í innkaupaferlinu og ef mistök eru gerð í pöntunarferlinu getur það skapað sóun á hinum endanum í formi umframbirgða. Sem dæmi um aðgerð tengda innkaupastýringu er innleiðing dótturfélaga á hugbúnaðarlausnum sem notast við vélnám (e. machine learning) til að spá fyrir um innkaupaþörf út frá fyrirliggjandi gögnum.

Þá er einnig mikilvægt að tryggja fullnægjandi meðferð við flutning á vöru, s.s. pökkun og hitastýringu. Virkt samtal við birgja og flutningsaðila er lykilatriði í þessu samhengi. Hafa Bananar t.a.m. sinnt fræðslu til birgja um hvernig best sé að undirbúa vörubretti af ávöxtum og grænmeti til flutninga. Auk þess eiga rekstrareiningarnar í reglulegum samskiptum við flutningsaðila um meðferð og hitastýringu við flutning á vörum félagsins.  

Framstilling í verslun getur jafnframt leikið stórt hlutverk í að draga úr matarsóun. Með því að raða vörum þannig að eldri vörur séu settar framar nýrri vörum er hægt að lágmarka sóun. Sem dæmi var aukið gæðaeftirlit innleitt í matvöruverslunum Haga á árinu í samstarfi við Banana sem tryggir að nýir ávextir séu ekki settir ofan á þá eldri, þannig að þeir eldri skemmist undir þeim.

Þegar matvæli eru komin á síðasta snúning fara ákveðnar aðgerðir í gang í matvöruverslunum Haga. Bónus og Hagkaup hafa í þessu samhengi beitt dýnamískum afsláttum, þ.e. að setja vörur á lækkað verð sem eru að nálgast síðasta sölu- eða neysludag. Ýmsar leiðir hafa verið farnar í þessum efnum, m.a. að merkja þær vörur sérstaklega og með því að búa til samsetta afsláttarpoka. Á árinu 2023 seldust t.a.m. um 70 tonn af útlitsljótu grænmeti og ávöxtum sem starfsfólk Bónus pakkaði í svokallaða matarávaxtapoka. Framtíðin er þó fólgin í sjálfvirknivæðingu á þessu ferli. Hafa bæði Bónus og Hagkaup innleitt tæknilausn sem gerir þeim kleift að fá upplýsingar um síðasta söludag vöru í gegnum strikamerki frá birgja. Félögin nýta í kjölfarið þessar upplýsingar til að setja afslátt með sjálfvirkum hætti á vörur sem nálgast síðasta söludag þegar þær eru skannaðar inn við afgreiðslukassa. Í dag á þetta við um ferskan kjúkling, lambakjöt og nautakjöt sem selt er í verslunum félaganna, en verið er að vinna að því að fá fleiri ferskvörubirgja til að taka upp lausnina.

Ef ekki tekst að bjarga matvælum með framangreindum úrræðum er mikilvægt að tryggja að þau fari í réttan endurnýtingarfarveg, s.s. í jarðgerð eða framleiðslu á metani. Bananar hafa í þessu samhengi sett upp moltustöðvar í vöruhúsi félagsins í Korngörðum og er fyrirhugað að setja upp stærra jarðgerðarkerfi í vöruhúsinu á þessu ári. Mun umrætt kerfi skilja allan vökva frá lífrænum úrgangi sem skilar sér í verulegri ummálsminnkun úrgangsins og fækkar þannig ferðum með flutningabílum á endurvinnslustöðvar. Auk þess er fyrirhugað að framleiða úr úrganginum næringarríkan áburð sem verður nýttur í landbúnaði til ræktunar.

Umtalsverð matarsóun á sér einnig stað á síðari stigum í virðiskeðju Haga, þ.e. hjá neytendum. Samkvæmt rannsókn Umhverfisstofnunar átti um 40% matarsóunar sér stað hjá heimilum landsins á meðan hlutur dreifingar og smásölu var 3% á árinu 2022. Það er því ekki síður mikilvægt fyrir félög sem reka matvöruverslanir að finna leiðir til að styðja við samdrátt í þeirri matarsóun sem á sér stað eftir að matvæli yfirgefa verslanir.

Dótturfélög Haga tóku þátt í sérsöfnun á matarleifum sem hófst á síðasta ári á suðvesturhorni Íslands, en söfnunin var liður í aukinni flokkun á heimilum. Bréfpokum undir matarleifar var dreift frítt til íbúa samhliða nýju kerfi. Um 11 milljón pokum var dreift í gegnum verslanir Bónus, Hagkaups og Olís.

Umbúðir á eigin framleiðsluvörum

Framleiðsla og pökkun á matvælum á sér stað hjá þremur rekstrareiningum Haga, þ.e. Aðföngum, Bönunum og Eldum rétt. Stöðugt er unnið að því að betrumbæta umbúðir með hliðsjón af minni efnisnotkun, umhverfisvænna efnisvali, hámörkun á líftíma vöru og því að auðvelda neytandanum að flokka umbúðir.

Í tilviki ferskvara getur það verið ákveðin áskorun að gera umbúðir umhverfisvænni án þess að það bitni á líftíma vörunnar og leiði þannig til aukinnar matarsóunar. Dæmi um vel heppnaða aðgerð í þessu samhengi er pökkun Aðfanga á hamborgurum og nautahakki undir vörumerkinu Íslandsnaut. Með uppfærðum umbúðum og pökkunaraðferðum tókst að minnka plastnotkun um allt að 70%. Á sama tíma hefur líftími varanna aukist svo um munar og er rýrnun á umræddum vörum nánast engin í dag.

Þá hefur verið lögð áhersla á að auðvelt sé að taka mismunandi efni í umbúðum í sundur og að góðar leiðbeiningar séu til staðar um flokkun þeirra. Rekstrareiningar Haga hafa í þessu samhengi innleitt norræna merkingarkerfið FENÚR til þess að auðvelda neytendum að flokka umbúðir. Hafa innlendir birgjar jafnframt verið hvattir til að gera slíkt hið sama fyrir sínar umbúðir.

MENGUN

Sala og dreifing á eldsneyti og öðrum rekstrarvörum sem geta mengað umhverfið felur í sér eðlislæga hættu á mengunaróhöppum. Það er markmið Haga að engin mengunaróhöpp eigi sér stað í starfsemi samstæðunnar á ári hverju. Lögð er rík áhersla á forvarnir og aðgerðir sem miða að því að koma í veg fyrir og lágmarka líkur á hvers konar mengun, hvort sem er á landi, vatni eða andrúmslofti, í eigin rekstri eða í virðiskeðju félagsins.

Engin mengunartilvik voru í starfsemi Haga árið 2023.

LÍFFRÆÐILEG FJÖLBREYTNI

Mikil vitundarvakning um líffræðilega fjölbreytni og hnignun á henni hefur átt sér stað á síðustu árum. Í desember 2022 var gerður svonefndur Kunmig-Montreal Global Biodiversity Framework samningur, sem hefur verið undirritaður af fleiri en 200 ríkjum. Markmið samningsins er að vernda 30% lands- og hafsvæða fyrir árið 2030 og að ná að stöðva og snúa við hnignun líffræðilegs fjölbreytileika í heiminum fyrir árið 2050.

Þótt þekking á áhrifum Haga á líffræðilega fjölbreytni sé enn takmörkuð, er það þekkt að matvælaframleiðsla getur haft neikvæð áhrif á líffræðilegan fjölbreytileika á sama tíma og slík framleiðsla reiðir sig að miklu leyti á hann. Það er markmið Haga að auka þekkingu félagsins á slíkum áhrifum, einkum í virðiskeðju félagsins, og kappkosta við að draga úr þeim eftir fremsta megni.

Þá er það markmið Haga að auka hlutfall þeirra söluvara sem hafa vottun um lífræna eða sjálfbæra framleiðslu. Þótt slíkar vottanir séu ekki trygging fyrir því að framleiðsluaðferðir vöru hafi ekki skaðleg áhrif á líffræðilega fjölbreytni má færa rök fyrir því að vottaðar vörur séu ólíklegri til að hafa slík skaðleg áhrif. Verið er að vinna í innleiðingu á upplýsingakerfi sem einfaldar utanumhald með vottunum á söluvörum. Að því loknu verður hægt að taka út núverandi söluhlutfall og setja tölulegt markmið um aukningu á því.

Aðföng hefur um árabil þróað lífrænt ræktaðar vörur undir vörulínunni „Himneskt“. Vörurnar eru merktar með Evrópulaufinu og vottunarmerki Túns, sem staðfestir að framleiðslan fer fram samkvæmt gildandi löggjöf um lífræna ræktun og að starfsemin sé undir reglubundnu eftirliti. Markmið lífrænnar framleiðslu er að stunda ræktun í sátt við umhverfið á hátt sem styður við heilbrigði manna og vistkerfa, og verndar líffræðilegan fjölbreytileika jarðvegs.

FLOKKUNARREGLUGERÐIN (E. EU TAXONOMY)

Hagar birtu í fyrsta sinn upplýsingar samkvæmt flokkunarreglugerðinni  í ársreikningi félagsins fyrir fjárhagsárið 2023/24. Upplýsingagjöfina má finna í kafla ársreikningsins um ófjárhagslega upplýsingagjöf.

Sjálfbærni Mannauður

Hjá Högum starfa 2.614* starfsmenn í tæplega 1.500 stöðugildum sem á hverjum degi hafa áhrif á daglegt líf fólks í landinu með störfum sínum. Starfsemi félagsins er mjög háð þeim mannauði sem hjá því starfar og er kappkostað við að skapa starfsumhverfi sem gerir starfsfólki kleift að vaxa og dafna á eigin verðleikum. Rík áhersla er lögð á vellíðan og öryggi starfsfólks, jafnrétti og fjölbreytni á vinnustað og starfsþróun.

Töluleg upplýsingagjöf Haga um eigin mannauðsmál hefur að hluta verið aðlöguð að ESRS stöðlunum, en hingað til hefur félagið birt slíkar upplýsingar í samræmi við ESG leiðbeiningar Nasdaq. Í þessu felst að ákveðnar breytingar hafa verið gerðar á upplýsingaliðum og aðferðarfræði við útreikninga auk þess sem tímabil upplýsinganna hefur verið fært frá almanaksári yfir í fjárhagsár félagsins (1. mars 2023 til 29. febrúar 2024).

Starfsmannaupplýsingar

  Eining 2023
Karlar fjöldi 1.500
Konur fjöldi 1.114
Heildarfjöldi starfsfólks* fjöldi 2.614
     
Ótímabundin ráðning fjöldi 2.613
Tímabundin ráðning fjöldi 1
Starfsfólk í fullu starfi fjöldi 915
Starfsfólk í hlutastarfi fjöldi 1699
     
Starfsfólk sem lét af störfum á árinu* fjöldi 1.051
Starfsmannavelta % 40%

 

* Niðurstaðan miðast við stöðu í úttektarmánuði jafnlaunavottunar hjá hverju félagi

**Inniheldur bæði starfsfólk í fullu starfi og hlutastarfi

  • Hlutfall sem heyrir undir kjarasamninga 99,6%

  • Hlutfall sem hefur trúnaðarmann 78%

STARFSÁNÆGJA

Starfsánægja er einn af sjálfbærnitengdum lykilmælikvörðum í starfsemi Haga. Reglulegar púlsmælingar hafa verið gerðar þvert á öll félög innan samstæðunnar frá því í janúar 2021 með aðstoð hugbúnaðar sem kallast Moodup. Mælingin fer fram með þeim hætti að könnun sem inniheldur spurningar tengdar starfsánægju er send á starfsfólk á tveggja mánaða fresti og fær starfsfólk jafnframt tækifæri til að koma sérstökum athugasemdum á framfæri. Öll svör eru ópersónugreinanleg svo starfsfólk geti verið óhrætt við að svara af fullri hreinskilni.

Hugbúnaðarlausnin reiknar í kjölfarið út einkunn fyrir starfsánægju. Meðaleinkunn starfsánægju fyrir alla samstæðu Haga var 7,2 af 10 á síðasta rekstrarári og hækkaði um 0,1 á milli ára. Auk þess hækkaði svokallaður meðmælastuðull (eNPS) í 12 úr 8. Svarhlutfall var mjög gott eða 83% þátttaka í könnunum ársins. Hagar hafa sett sér það markmið að ná starfsánægjueinkunn upp fyrir 7,5.

Moodup veitti Högum viðurkenninguna "Vinnustaður í fremstu röð" vegna ársins 2023. Viðurkenningin er veitt þeim vinnustöðum sem sýna í verki að þeir hugsa vel um starfsfólk sitt og tryggja því framúrskarandi starfsumhverfi. Skilyrðin sem vinnustaðir þurfa að uppfylla til að fá viðurkenninguna eru eftirfarandi:

  • Hlusta: Mæla starfsánægju að minnsta kosti einu sinni á hverjum ársfjórðungi
  • Bregðast við: Svara endurgjöf sem starfsfólk skrifar og sýna þannig í verki að álit þess skiptir máli
  • Ná árangri: Ná viðmiði um árangur samanborið við aðra vinnustaði í lokamælingu tímabils

JAFNRÉTTI OG FJÖLBREYTNI

Jafnréttis- og mannréttindastefna Haga var endurskoðuð í mars 2024. Markmið stefnunnar er að stuðla að fyllsta jafnrétti milli kynjanna og jöfnum tækifærum einstaklinga, óháð kyni, aldri, kynhneigð, uppruna eða annars konar stöðu. Þetta á m.a. við um jafnan rétt til starfa, menntunar og kjara fyrir sambærileg störf. Þá er lögð rík áhersla á það að störf flokkist ekki sem sérstök kvenna- og karlastörf og að hlutur kynjanna verði eins jafn og unnt er í stjórnunar- og áhrifastöðum.

Launajafnrétti

Það er stefna Haga að greiða öllum kynjum jöfn laun og sömu kjör fyrir sambærileg eða jafn verðmæt störf. Hefur félagið í þessu samhengi sett sér það markmið að kynbundinn launamunur mælist árlega innan við 1% á samstæðugrundvelli.

Allar rekstrareiningar Haga hafa lokið jafnlaunavottun, sbr. breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna sem lögfest var í júní 2017, og hafa þær innleitt jafnlaunakerfi, sbr. staðal ÍST 85 um jafnlaunavottun. Meginmarkmið jafnlaunavottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði, sbr. lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020. Samhliða jafnlaunavottun hafa allar rekstrareiningar Haga markað sér jafnlaunastefnu og jafnréttisstefnu ásamt aðgerðaráætlun í samræmi við jafnlaunakerfi ÍST 85. Móðurfélagið Hagar hefur lokið jafnlaunastaðfestingu.

Niðurstöður jafnlaunavottunar

  Eining 2019 2020 2021 2022 2023
Aðföng % 0,6% -1,2% -0,8% 1,7% 0,4%
Bananar % 2,5% 0,8% 1,4% 1,2% 1,2%
Bónus % 1,0% 1,2% 1,8% 2,1% 0,2%
Eldum rétt %         0,1%
Hagkaup % 2,9% 2,3% 0,9% 1,0% 1,7%
Olís % 1,3% 1,3% 0,5% 0,7% 0,7%
Noron % 4,4% -2,4% 0,5% 1,2% 0,7%

Vegið meðaltal kynbundins launamunar hjá samstæðunni var 0,8% körlum í hag á liðnu rekstrarári.

Jafn aðgangur að tækifærum og fjölbreytni

Það er stefna Haga að búa svo um að allir einstaklingar hafi jafnan aðgang að störfum, starfsþjálfun, símenntun og endurmenntun, óháð kyni, aldri og uppruna.

Sérstök áhersla er lögð á að jafna hlutfall kynja í stjórnendastörfum hjá Högum. Ef staða losnar er gætt að jafnri stöðu kynjanna við ráðningu, að því gefnu að umsækjendur séu jafn hæfir. Á síðasta rekstrarári voru konur 42,6% af heildarstarfsfólki og karlar 57,4%. Þá var hlutfall kvenna 33,3% í framkvæmdastjórn Haga.

KYNJAFJÖLBREYTNI

Starfsmannahópur Haga spannar vítt aldursbil, en á rekstrarárinu var yngsti starfsmaður samstæðunnar 13 ára gamall og sá elsti 76 ára. Hinn síðarnefndi var Ólafur Hjaltason sem lauk störfum í apríl 2024 eftir að hafa starfað hjá samstæðunni í heil 55 ár við góðan orðstýr. Verslanir Haga eru oft fyrsti viðkomustaður ungs fólks á vinnumarkaði og er lögð áhersla á að taka vel á móti því starfsfólki svo það nái að vaxa og dafna í starfi og taki gott verklag með sér áfram í veganesti. Fjölmörg dæmi eru til hjá Högum um einstaklinga sem hófu störf á unglingsaldri og hafa síðan þá unnið sig upp í stjórnendastöðu innan samstæðunnar. Þá hefur Bónus einnig boðið til sín nemendum úr 9. og 10. bekk grunnskóla í atvinnutengt nám. Þetta nám hefur hentað nemendum með námsleiða, námserfiðleika eða þeim sem vilja tilbreytingu frá námsbókunum og þannig kynnast betur hvernig er að vera á vinnumarkaði.

Aldursskipting starfsfólks

  Eining 2023
Undir 30 ára fjöldi 1.745
30 til 50 ára fjöldi 608
Yfir 50 ára fjöldi 261

Rekstrareiningar Haga, einkum Bónus og Hagkaup, hafa um árabil verið virkir þátttakendur í verkefninu „Atvinna með stuðningi“ sem unnið er í samstarfi við Vinnumálastofnun. Verkefnið gengur út á að veita fólki vinnu sem er með skerta starfsgetu vegna andlegrar og/eða líkamlegrar fötlunar. Félögin eru með stærstu vinnustöðum AMS á Íslandi og vinna yfir 70 einstaklingar hjá samstæðunni sem hafa hafið störf fyrir tilstilli samstarfsins. Með samstarfinu er lögð áhersla á góða samvinnu þar sem færni starfsmannsins er höfð að leiðarljósi.

Mikil fjölbreytni er jafnframt innan Haga með tilliti til uppruna starfsfólks, en hjá samstæðunni starfar fólk af um 60 þjóðernum. Nýlega hóf Bónus samstarf við flóttamannadeild  Vinnumálastofnunar og er tilgangur þess að veita ungu fólki í viðkvæmri stöðu tækifæri til að vinna og aðlagast íslensku samfélagi. Áhersla er lögð á að þýða fræðslu- og þjálfunarefni yfir á erlend tungumál innan samstæðunnar auk þess sem tilteknar rekstrareiningar bjóða starfsfólki sínu upp á íslenskukennslu í gegnum verkefni á borð við „Bara tala“.

Hér má sjá á heimskorti upprunalönd þeirra sem starfa hjá Högum.

Jafnvægi milli vinnu og einkalífs

Allt starfsfólk Haga á að eiga kost á sveigjanlegum vinnutíma eða annarri hagræðingu þar sem því verður við komið til að auðvelda samræmingu milli vinnu og einkalífs. Tekið er tillit bæði til fjölskylduaðstæðna starfsfólks sem og þarfa félagsins. Gengið er út frá því að foreldrar ungra barna taki það fæðingarorlof sem þeir eiga rétt á og eru makar sérstaklega hvattir til að nýta rétt sinn til foreldraorlofs. Lögð er áhersla á að engin skerðing verði á frama starfsfólks innan fyrirtækisins við töku fæðingarorlofs.

Einelti, kynbundin eða kynferðisleg áreitni og ofbeldi

Það er stefna Haga að starfsmenn vinni í anda samstarfs og sýni þannig samstarfsfólki sínu alltaf kurteisi og virðingu í samskiptum. Einelti, kynbundin eða kynferðisleg áreitni og ofbeldi (EKKO) er ekki undir neinum kringumstæðum liðin í starfsemi Haga. Sömuleiðis er litið svo á að meðvirkni samstarfsfólks í slíkum málum sé óásættanleg. Hjá Högum er til staðar skrifleg forvarnar- og viðbragðsáætlun gegn EKKO sem kynnt er starfsfólki.

ÞJÁLFUN OG STARFSÞRÓUN

Starfsfólk Haga er með mjög fjölbreyttan bakgrunn með tilliti til starfsreynslu og menntunar. Mikið er lagt upp úr þjálfun og starfsþróun í starfsemi félagsins til að stuðla að því að starfsfólk hafi tækifæri til að vaxa og dafna sem best í starfi. Hvert dótturfélag heldur utan um starfsþróunarmál og sér um að skipuleggja fræðslu og þjálfun til starfsfólks í sinni starfsemi. Dæmi um aðgerðir dótturfélaga í þessu samhengi eru innleiðing stafræns fræðslukerfis, nýliðafræðsla, námskeið, styrkir til náms og regluleg starfsþróunarsamtöl.

Unnið er að því að innleiða ramma fyrir starfsþróunarviðtöl hjá þeim dótturfélögum Haga sem ekki hafa haft slíkan ramma og hyggst félagið jafnframt mæla fjölda starfsþróunarviðtala árlega sem hlutfall af heildarfjölda starfsfólks.

HEILSA OG ÖRYGGI

Innan samstæðu Haga er mikil áhersla lögð á að tryggja öryggi starfsfólks svo það komist heilt heim eftir vinnu. Rekstrareiningar Haga hafa sjálfar umsjón með heilsu- og öryggismálum í sinni starfsemi, og eru öryggisráðstafanir sniðnar að eðli og þörfum hverrar starfsstöðvar. Sérstakir öryggisstjórar eru til staðar hjá þeim rekstrareiningum þar sem hætta á vinnutengdum slysum er mest til að tryggja markvissa stjórnun og eftirlit með öryggismálum.

Dæmi um aðgerðir sem rekstrareiningar hafa innleitt í þessu tilliti eru:

  • Öryggishandbækur
  • Regluleg fræðsla og þjálfun
  • Áhættumöt
  • Öryggisúttektir
  • Atvikaskráning, þ.m.t. á „næstum“ slysum, og úrbótavinna til að fyrirbyggja raunveruleg slys

Skráð vinnuslys innan samstæðunnar voru samtals 39 á síðasta rekstrarári og var vinnuslysatíðnin 12,5 vinnuslys per milljón vinnustundir. Stærsti hluti umræddra vinnuslysa átt sér stað í framleiðslu- og vöruhúsahluta samstæðunnar, en þar er hætta á slysum hvað mest vegna eðli starfseminnar. Engin dauðsföll urðu á árinu vegna vinnutengdra slysa eða veikinda.

Vinnuslys

  Eining 2023
Fjöldi skráningarskyldra vinnuslysa fjöldi 39
Tíðni vinnuslysa x/1.000.000 12,5
Dauðsföll vegna vinnuslysa eða vinnutengdra veikinda fjöldi 0

STARFSFÓLK Í VIRÐISKEÐJU

Það gefur auga leið að mikill fjöldi starfsfólks er í virðiskeðju Haga. Um er að ræða fólk sem starfar á víð og dreif um heiminn við fjölbreytt störf, þ.á m. í heildsölu, framleiðslu og landbúnaði. Félagið hefur sem stendur litla þekkingu á vinnuaðstæðum þessa fólks, einkum þegar framar er komið í virðiskeðju Haga og dótturfélaga.

Í þeirri stefnumótunarvinnu sem átti sér stað á síðasta ári voru hugsanleg áhrif á starfsfólk í virðiskeðju félagsins skoðuð. Var það niðurstaða félagsins að með því að bjóða upp á vörur frá framleiðendum sem virða réttindi starfsfólks að vettugi gætum við haft neikvæð áhrif. Hins vegar með því að setja skýrar kröfur til birgja samstæðunnar, krefja þá um að setja sambærilegar kröfur til sinna birgja og innleiða virkt eftirlit með birgjum gætum við haft jákvæð áhrif á vinnuaðstæður og mannréttindi starfsfólks í virðiskeðjunni.

Þann 13. febrúar 2024 samþykkti framkvæmdastjórn Haga nýjar siðareglur birgja, þar sem settar eru kröfur til birgja í tengslum við starfsmannamál, þ.m.t. hvað varðar mannréttindi, heilsu og öryggi, jafnrétti, sanngjörn laun og félagafrelsi. Birgjum félagsins er svo jafnframt gert að framfylgja þessum kröfum gagnvart aðfangakeðju sinni. Næsta skref er að innleiða umræddar siðareglur í alla innkaupasamninga samstæðunnar ásamt því að innleiða eftirfylgni í formi reglulegs birgjamats á helstu birgjum.

Sjálfbærni Neytendur

Neytendur eru hornsteinn í starfsemi Haga og mynda langstærsta viðskiptavinahóp félagsins.

KJÖR NEYTENDA

Það er markmið Haga að bjóða upp á ódýrustu matarkörfuna um allt land til hagsbóta fyrir neytendur. Frá því að fyrsta verslunin var opnuð í 400 fermetra húsnæði við Skútuvog í apríl 1989 hefur Bónus boðið viðskiptavinum sínum lægsta matvöruverð á Íslandi. Engin breyting varð á því á síðasta rekstrarári þar sem Bónus mældist að jafnaði lægst í þeim matvörukönnunum sem verðlagseftirlit ASÍ framkvæmdi á árinu.

Á síðasta rekstrarári var lögð sérstök áhersla á að lágmarka verðhækkanir frá birgjum, en fordæmalausar verðhækkanir á aðföngum á undanförnum misserum hafa haft veruleg áhrif á verðbólgu sem hefur verið há í sögulegu samhengi. Hagar efndu af þessu tilefni til samtals við framleiðendur og birgja þar sem tekin var skýr afstaða gegn óhóflegum verðhækkunum sem væru umfram aukinn kostnað. Góð samstaða myndaðist og margir samstarfsaðilar hættu við eða slógu af fyrirhuguðum verðhækkunum. Var þetta jafnframt mikilvægt skref til að ná sátt um grundvöll þeirra kjarasamninga sem gerðir voru fyrr í vor.

AÐGENGI AÐ NAUÐSYNJAVÖRU

Hagar líta á það sem samfélagslegt hlutverk sitt að tryggja gott aðgengi að matvöru og annarri nauðsynjavöru um landið allt. Matvöruverslanir Haga eru samtals 40 og þar af eru 14 staðsettar í þéttbýliskjörnum utan höfuðborgarsvæðisins. Þá starfrækir dótturfélag Haga, Olís, 65 útibú og þar af 49 á landsbyggðinni. Auk þess sendir netverslun Eldum rétt matarpakka um landið allt.

Allar matvöruverslanir Haga eru hannaðar með það í huga að tryggja gott aðgengi fyrir fólk í hjólastólum. Auk þess hefur Bónus boðið upp á gjaldfrjálsar ferðir í verslanir fyrir aldraða einstaklinga á höfuðborgarsvæðinu til að létta þeim umstangið við að komast í matvöruverslun til að versla sér í matinn.

Þær jarðhræringar sem hafa verið í gangi á Reykjanesi að undanförnu hafa skapað ákveðna áskorun í tengslum við að tryggja stöðugt aðgengi að matvöru á svæðinu. Áskorun þessi varð sérstaklega greinileg þegar kvika rann yfir heitavatnslögn sem lá frá Svartsengi til Reykjanesbæjar með þeim afleiðingum að heitavatnslaust varð á Reykjanesi. Til þess að tryggja áframhaldandi opnun matvöruverslana Bónus á meðan á heitavatnsleysinu stóð var brugðið á það ráð að koma fyrir díselknúnum rafstöðvum og kynda verslanirnar með hitablásurum.

Þar sem ekkert lát virðist vera á jarðhræringum á svæðinu hefur svokallaður „hamfaragámur“ nú verið settur upp við verslun Bónus í Njarðvík. Í honum eru eimarar, varmadælur og annar búnaður sem tryggir rafmagn, heitt vatn og kalt í búðinni ef til neyðarástands kemur. Þannig er hægt að tryggja fullt matvælaöryggi íbúa í vatns- og/eða rafmagnsleysi.

Hreppstjórinn í Bónus, Auðunn Pálsson, og rafstöðin við Bónus á Fitjum

LÝÐHEILSA

Hagar og dótturfélög geta í gegnum vöruúrval sitt haft umtalsverð áhrif á lýðheilsu. Lögð er áhersla á að bjóða upp á ríkulegt framboð af heilsusamlegum valkostum í verslunum Haga.

Bananar eru stærsta heildsala landsins á ferskum ávöxtum og grænmeti. Hefur félagið einsett sér það að auka neyslu Íslendinga á grænmeti og ávöxtum. Samkvæmt niðurstöðum úr landskönnun á matarræði Íslendinga sem birt var í upphafi árs 2022 er samanlögð neysla á grænmeti og ávöxtum 213 grömm á dag á hvern Íslending, en í nýjum norrænum næringarráðleggingum sem birtar voru 2023 er mælt með því að borða 500-800 grömm á dag. Til þess að auka neyslu þessa hafa Bananar unnið að því að gera hana aðgengilegri, s.s. með því auka úrval af niðurskornu grænmeti og ávöxtum ásamt tilbúnum grænmetisréttum. Það magn í kílógrömmum sem fór í gegnum vöruhús Banana jókst um 3% á milli ára. Aukning þessi er örlítið meiri en hlutfallsleg fjölgun íbúa á Íslandi á milli ára, en hún var tæp 2,3%.

Sem dæmi um aðrar aðgerðir til að efla lýðheilsu í samstæðu Haga er þróun Aðfanga á heilsusamlegum og lífrænt ræktuðum vörum undir vörumerkinu Himneskt ásamt gjaldfrjálsum ávöxtum fyrir börn og sérstökum tilboðsdögum á heilsuvörum í verslunum Hagkaups.

PERSÓNUVERND

Það er lögð rík áhersla á persónuvernd og örugga meðferð persónuupplýsinga í starfsemi Haga. Félagið hefur einsett sér að vinna með persónuupplýsingar í hvívetna í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nú lög nr. 90/2018, með áorðnum breytingum. Til að ná því markmiði hafa Hagar tekið saman skrá yfir þá vinnslu persónuupplýsinga sem fer fram hjá félaginu og markað sér stefnu um hvernig staðið verði að slíkri vinnslu, hvernig réttindi hinna skráðu verði tryggð og hvernig félagið sinni skyldum sínum sem ábyrgðar- og vinnsluaðili.

Sjálfbærni Stjórnarhættir

Stjórnarhættir Haga eru markaðir af lögum nr. 2/1995 um hlutafélög, samþykktum félagsins og starfsreglum stjórnar. Í samþykktum er kveðið á um tilgang félagsins í kafla 1, hlutafé í kafla 2, hluthafafundi í kafla 3, um stjórn og forstjóra í kafla 4 og 5 og um reikningshald og endurskoðun í kafla 6. Gildandi starfsreglur, sem voru samþykktar af stjórn þann 22. mars 2024, eru settar skv. 5. mgr. 70. gr. laga um hlutafélög og eru samþykktum félagsins til fyllingar, samanber grein 4.20 í samþykktum. Gildandi starfskjarastefna Haga var staðfest á aðalfundi félagsins þann 1. júní 2023, en hún nær til allra helstu þátta í starfs- og launakjörum stjórnarmanna félagsins, forstjóra og annarra æðstu stjórnenda samstæðunnar. Endurskoðuð starfskjarastefna verður lögð fyrir næsta aðalfund félagsins til samþykktar þann 30. maí 2024.

SJÁLFBÆRNISTJÓRNUN

Hagar innleiddu á síðasta ári nýtt stjórnskipulag fyrir sjálfbærnitengd málefni.

Stjórn Haga hefur yfirumsjón með stöðu sjálfbærnimála hjá samstæðunni og staðfestir sjálfbærnitengdar stefnur félagsins.

Forstjóri og framkvæmdastjórn Haga koma að mótun og hafa eftirlit með stefnum, markmiðum og aðgerðum á samstæðugrundvelli. Forstjóri staðfestir auk þess sjálfbærniuppgjör Haga.

Forstöðumaður sjálfbærni hjá Högum kemur að mótun og innleiðingu á stefnum, markmiðum og aðgerðum á samstæðugrundvelli, hefur umsjón með sjálfbærniuppgjöri samstæðu, sinnir ráðgjöf við dótturfélög í sjálfbærnitengdum málefnum og leiðir sjálfbærniráð Haga sem er skipað fulltrúum úr hverju dótturfélagi.

Sjálfbærniteymi og sjálfbærnifulltrúar dótturfélaga móta og innleiða stefnur, markmið og aðgerðir á dótturfélagsgrundvelli, sinna gagnaöflun fyrir sjálfbærniuppgjör og hafa fulltrúa í sjálfbærniráði Haga.

SAMSETNING STJÓRNAR HAGA

Stjórn Haga er skipuð fimm einstaklingum en samkvæmt samþykktum félagsins skal við stjórnarkjör tryggja að hlutfall hvors kyns sé ekki lægra en 40%. Á árinu 2023 voru konur 60% stjórnarmeðlima, óbreytt frá fyrra ári. Þá eru starfandi þrjár nefndir hjá félaginu, endurskoðunarnefnd, starfskjaranefnd og tilnefningarnefnd. Ein kona og tveir karlar sinna formennsku í umræddum nefndum.

  • Hlutfall kvenna í stjórn 60%

  • Hlutfall óháðra stjórnarmanna 100%

  • Hlutfall kvenna í formennsku nefnda 33,3%

VIÐSKIPTASIÐFERÐI

Í siðareglum Haga og dótturfélaga er lögð áhersla á að stjórn og starfsfólk skuli ávallt fara að lögum og almennum viðmiðum um siðferði í viðskiptum og að fylgt sé þeim reglum sem félagið setur á hverjum tíma. Kveðið er á um að óheimilt er að misnota aðstöðu sína í starfi, þannig að félagið beri skaða af og eru starfsmenn hvattir til að tilkynna næsta yfirmanni ef þeir verða vitni að spillingu eða óreiðu innan félagsins. Siðareglur þessar leggja einnig áherslu á að forða starfsmönnum frá að taka ákvarðanir sem skapað geta hagsmunaárekstra en meginreglan er sú að hagsmunir starfsmanna og félagsins skuli fari saman. Þá er óheimilt að taka við gjöfum, boðsferðum eða annars konar fríðindum frá viðskiptamönnum félagsins nema með samþykki yfirmanns.

Hjá samstæðunni hefur einnig verið unnið áhættumat vegna aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, sbr. lög nr. 140/2018. Samhliða áhættumatinu samþykkti stjórn stefnu félagsins um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Tilgangur stefnunnar er að koma á og viðhalda skilvirku kerfi til að sporna við að þjónusta og vörur Haga og dótturfélaga verði notaðar í ólöglegum tilgangi er tengist peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Félagið er tilkynningaskyldur aðili á grundvelli laganna vegna útleigu fasteigna og mætir mögulegum tilvikum vegna spillingar eða mútuþægni vegna þeirrar starfsemi með mildunaraðgerðum sem hafa í för með sér að eftirstæð áhætta er lágmörkuð niður í litla sem enga.

VERND UPPLJÓSTRARA

Til staðar hjá félaginu eru reglur um vernd uppljóstrara í samræmi við lög nr. 40/2020 um vernd uppljóstrara. Reglunum er ætlað að koma á skilvirku úrræði til að koma upplýsingum og/eða gögnum á framfæri um brot á lögum eða ámælisverða háttsemi og styðja og vernda þá sem slíkt gera. Markmið reglnanna er að fyrirbyggja misferli og draga úr tjóni sem slíkt kann að hafa í för með sér fyrir samstæðu Haga, viðskiptavini samstæðunnar, samfélagið og aðra hagaðila.

SAMSKIPTI VIÐ BIRGJA

Hagar eru með stóra og flókna virðiskeðju sem teygir anga sína um heim allan. Með því að setja skýrar kröfur til birgja, krefja þá um að setja sambærilegar kröfur til sinna birgja og innleiða virkt eftirlit með birgjum geta Hagar og dótturfélög haft mikil jákvæð samfélagsleg áhrif.

Þann 13. febrúar 2024 samþykkti framkvæmdastjórn félagsins siðareglur birgja Haga og dótturfélaga. Siðareglunum er ætlað að ná til allra birgja samstæðunnar og er birgjum gert að tryggja framfylgd þeirra gagnvart aðfangakeðju sinni. Siðareglurnar setja eftirfarandi kröfur á birgja í fjórum málaflokkum, þ.e. umhverfismálum, mannauðsmálum, velferð dýra og stjórnarháttum.

Umhverfi

Birgi leggi sig fram við að þekkja bein og óbein áhrif starfseminnar á umhverfið og draga úr neikvæðum áhrifum eftir fremsta megni. Með neikvæðum áhrifum er m.a. átt við losun gróðurhúsalofttegunda, hvers konar mengun, óhóflegan ágang á auðlindir jarðar og athafnir sem stuðla að hnignun líffræðilegrar fjölbreytni og vistkerfa.

Fólk

Birgi fylgi lögum, reglum og alþjóðlegum samningum um vernd mannréttinda. Hvers lags nauðungarvinna, barnaþrælkun eða nútímaþrælahald verður ekki liðin hvorki hjá birgja sjálfum né í aðfangakeðju hans.

Birgi tryggi starfsfólki öruggt og heilsusamlegt starfsumhverfi og fari eftir lögum og reglum viðkomandi lands um aðbúnað og öryggi á vinnustað.

Birgi tryggi jöfn tækifæri starfsfólks og mismuni ekki á grundvelli kyns, kynþáttar, trúarbragða, aldurs, fötlunar, kynhneigðar, þjóðernis eða annarrar stöðu.

Birgi greiði starfsfólki sínu sanngjörn laun, sem nema í hið minnsta lágmarkslaunum samkvæmt lögum, reglum og/eða kjarasamningum viðkomandi lands.

Birgi styðji félagafrelsi og viðurkenni rétt til kjarasamninga.

Velferð dýra

Birgjar sem hafa atvinnu af framleiðslu dýraafurða eða sem meðhöndla með öðrum hætti dýr í starfsemi sinni skulu tryggja mannúðlega meðferð dýra og fylgja lögum og reglum um velferð dýra í hvívetna.

Stjórnarhættir

Birgi stundi eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti, viðhafi gott siðferði í viðskiptum og fylgi lögum og reglum í viðkomandi landi.

SKATTASTEFNA

Þann 28. febrúar 2024 samþykkti stjórn Haga nýja skattastefnu félagsins. Skattastefnan veitir leiðbeiningar um stjórnun skattamála og skattaáhættu sem tengjast rekstri samstæðunnar, reglufylgni og samskipti við skattayfirvöld. Skattastefnan á við um alla beina og óbeina skatta sem eiga við um Haga sem fyrirtæki og vinnuveitanda. Megináhersla Haga í skattamálum er að hafa sjálfbæra skattanálgun og hafa Hagar einsett sér að standa við allar skyldur er varða skatta og skil á þeim í samræmi við lög og reglur, á sama tíma og gildum félagsins er fylgt.

Nánari upplýsingar um stjórnarhætti má finna í sjálfbærniuppgjöri 2023 og í sérstökum kafla í ársskýrslu þessari.

Sjálfbærni Stuðningur við góð málefni

Hagar og dótturfélög leggja mikla áherslu á að styðja við og gefa aftur til samfélagsins, til að mynda með því að styrkja verkefni sem hvetja til hollustu og hreyfingar barna, hafa jákvæð áhrif á umhverfið og uppbyggingu samfélagsins og huga að heilsu og öryggi landsmanna. Málaflokkarnir eru margir og mismunandi og er ákvörðun um þær áherslur og stefnur teknar innan hvers fyrirtækis fyrir sig. Hér má sjá samantekt á nokkrum skemmtilegum verkefnum á árinu.

VIÐSKIPTAVINIR OG VERSLANIR TAKA HÖNDUM SAMAN

Verslanir Haga áttu frumkvæðið að mörgum skemmtilegum verkefnum á árinu þar sem verslanirnar og viðskiptavinir tóku höndum saman og söfnuðu fyrir góðum málefnum. Má þar helst nefna söfnun Hagkaups og viðskiptavina þess til Krabbameinsfélagsins, Mæðrastyrksnefndar og Rauða Krossins vegna jarðskjálftanna í Tyrklandi og Sýrlandi þar sem viðskiptavinir bættu 500 krónum við innkaup sín, sem runnu beint til söfnunarinnar og Hagkaup greiddi aðrar 500 krónur í mótframlag.

Hagkaup og Krabbameinsfélagið

STUÐNINGUR VIÐ GRINDAVÍK

Olís gaf hverju heimili á Grindavíkursvæðinu 10.000 króna inneign hjá Olís og ÓB. Inneignina var hægt að nota í eldsneyti eða aðrar vörur hjá fyrirtækinu. Þeir Grindvíkingar sem vildu gátu látið inneignina frekar renna til Björgunarsveitarinnar Þorbjarnar sem hefur sannarlega staðið í ströngu í tengslum við jarðhræringarnar undanfarið, en um helmingur Grindvíkinga kaus það.

STUÐNINGUR VIÐ INNLENDA FRAMLEIÐSLU

Bananar hafa lagt áherslu á náið samstarf með smáframleiðendum á grænmeti og ávöxtum um allt land með það að leiðarljósi að auka innlenda framleiðslu og nýsköpun í ræktun á Íslandi. Vörumerki Banana, Úr sveit, var sett á laggirnar til að kynna vörur íslenskra bænda á smásölu- og veitingamarkaði. Gæði og ferskleiki eru einkunnarorð vörumerkisins og í öllu markaðs- og kynningarefni eru sagðar einlægar persónulegar sögur framleiðendanna.

Bananar trúa því að samstarf við smáframleiðendur ýti undir nýsköpun og sé mikilvægur þáttur í fjölbreyttri framleiðslu í matvælaiðnaði.

SAMSTARF VIÐ SLYSAVARNARFÉLAG LANDSBJARGAR

Frá árinu 2012 hefur Olís verið einn aðal styrktar- og samstarfsaðili Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Styrkir felast meðal annars í beinum fjárstuðning til samtakanna og góðum afsláttarkjörum á eldsneyti. Einnig eru haldnir sérstakir fjáröflunardagar þar sem hluti af sölu eldsneytis þann dag rennur til Landsbjargar. Á árinu 2023 var Olís með nokkra "dælum til góðs" afsláttardaga þar sem lykil- og korthafar Olís og ÓB fengu 25 króna afslátt af eldsneytislítranum og 5 krónur af hverjum seldum lítra runnu óskiptar til Landsbjargar. Með þessu vill Olís tryggja að björgunarsveitir landsins séu vel í stakk búnar til þess að aðstoða Íslendinga og erlenda ferðamenn sem eru á ferð um landið. Olís hefur að auki boðið björgunarsveitum sérstaka neyðaraðstoð með því að opna afgreiðslustöðvar sínar að kvöld- og næturlagi ef björgunaraðgerðir eru í gangi svo björgunarsveitir hafi aðgang að eldsneyti og öðrum búnaði á öllum tímum sólarhringsins.

Olís styður Landsbjörg

STUÐNINGUR VIÐ STARF SAMHJÁLPAR

Aðföng hefur um langt skeið stutt við starfsemi Samhjálpar með matargjöfum. Samstarfið byggir á því að Aðföng taka til hliðar matvæli, sem eru að nálgast síðasta söludag eða bera útlitsgalla á ytri umbúðum, en eru heilnæm, næringarrík og hæf til neyslu. Vikulegar sendingar fara á kaffistofu Samhjálpar, þar sem einstaklingar í neyð sem hafa ekki tök á að sjá sér farborða fá næringu og félagsskap.

Allt frá árinu 1981 hefur Samhjálp mætt stigvaxandi þörf á kaffistofunni sinni og er það sannur heiður fyrir Aðföng að geta stutt við starfsemina með þessum hætti. Samstarfið er auk þess eitt af nokkrum verkefnum Aðfanga í viðleitni þess að lágmarka sóun.

SAMSTARF VIÐ BLINDRAVINAFÉLAGIÐ Í 35 ÁR

Allt frá því að Bónus hóf starfsemi árið 1989 hefur fyrirtækið verið stoltur samstarfsaðili Blindravinnustofunnar. Blindravinnustofan gegnir mikilvægu hlutverki í því að skapa blindu og sjónskertu fólki atvinnu en stærsti hluti starfseminnar er pökkun á hreinlætisvörum til endursölu. Bónus selur auk þess dagatal þar sem hagnaður fer í kaup á leiðsöguhundum fyrir blinda og sjónskerta.

STUÐNINGUR VIÐ ÍÞRÓTTA- OG ÆSKULÝÐSSTARF

Bónus, Hagkaup og Olís hafa öll stutt ötullega við íþrótta- og æskulýðsstarf um allt land á árinu. Þar ber líklega helst að nefna gott samstarf Olís og HSÍ um efstu deildir karla og kvenna í handbolta. Olís hefur verið einn helsti bakhjarl HSÍ til fjölda ára, eins og kristallast í nöfnum efstu deildanna í meistaraflokki, þ.e. Olís deildin og Grill 66 deildin. Markmið samstarfsins hefur verið að efla handbolta á Íslandi og fjölga iðkendum. Olís er einnig aðalstyrktaraðili Olísmótsins á Selfossi og ÓB mótsins á Sauðárkróki þar sem mörg hundruð ungir knattspyrnuiðkendur, drengir og stúlkur, taka þátt. Olís styður jafnframt við ýmis félagslið á þeim svæðum þar sem fyrirtækið er með starfsemi, þá einkum á landsbyggðinni. Í þeim styrktarsamningum er lögð rík áhersla á uppbyggingu barna- og unglingastarfs umræddra félaga.

Olísdeildin

Bónus og Hagkaup hafa bæði um langa hríð stutt vel við hvers kyns íþróttaiðkun og æskulýðsstarf á Íslandi. Styrkirnir á árinu hlaupa á tugum og renna til íþróttafélaga um allt land, þá einna helst í handbolta, fótbolta og körfubolta.

Sjálfbærni Styrkir til nýsköpunar

Uppsprettan - nýsköpunarsjóður Haga

UPPSPRETTAN - NÝSKÖPUNARSJÓÐUR HAGA

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna 9: Nýsköpun og uppbygging er eitt af þeim markmiðum sem Hagar hafa valið í stefnu sinni í samfélagslegri ábyrgð.

Í upphafi árs 2021 tóku Hagar mikilvægt skref í stuðningi við nýsköpun í matvælaiðnaði með stofnun á nýsköpunarsjóðnum Uppsprettunni. Hlutverk sjóðsins er að virkja og styðja frumkvöðla til nýsköpunar og þróunar í íslenskri matvælaframleiðslu.

Sjóðurinn leggur áherslu á stuðning við sprotaverkefni í matvælaframleiðslu sem taka tillit til:

  • Sjálfbærni: Er hugað að umhverfisáhrifum við framleiðslu og dreifingu og stuðlar verkefnið að minni matarsóun eða betri nýtingu á hráefnum?
  • Virði: Er verkefnið og framleiðslan að stuðla að aukinni verðmætasköpun, neytendum til hagsbóta?
  • Nýnæmi: Er varan ný af nálinni og verið að nota nýstárlegar aðferðir, tækni eða ferla við framleiðslu og er verið að framleiða matvæli sem eru ef til vill aðeins fáanleg í gegnum innflutning?

Sjóðurinn leggur sérstaka áherslu á að hafa umsóknar- og matsferlið einfalt í þeim tilgangi að virkja góðar hugmyndir í matvælaframleiðslu.

Nafn sjóðsins, Uppsprettan, er táknrænt fyrir hlutverk hans og ferlið við nýsköpun. Góð hugmynd kviknar, hún er vökvuð til vaxtar og upp sprettur sproti.

STYRKHAFAR UPPSPRETTUNNAR 2023

Tugir umsókna bárust um styrk í sjóðinn og valdi matsnefnd 12 verkefni til styrkveitingar að verðmæti 15 milljóna króna fyrir styrktarárið 2023.

Styrkhafar Uppsprettunnar 2023

Eftirfarandi verkefni hlutu styrkveitingu 2023

Arctic Pies er frumkvöðlafyrirtæki sem framleiðir fyrst og fremst bökur að áströlskum hætti. Bökurnar eru gerðar alveg frá grunni úr smjördeigi og til eru mismunandi gerðir, t.d. kjötbökur, grænmetis/vegan og sætar bökur.  Bökurnar hafa verið seldar á matarhátíðum við miklar vinsældir og verða núna seldar í verslunum.

Casa Italia er íslenskt frumkvöðlafyrirtæki sem framleiðir íslenskt ferskt pasta og notar auðvitað íslenska vatnið í sína framleiðslu. Þau munu framleiða mismunandi pasta, s.s. spaghettí, penne, fusilli ásamt fylltu pasta og lasagna.

Dragon Dim Sum er frumkvöðlafyrirtæki sem hefur verið að selja Dragon Dim Sum „dumplings“ til veitingahúsa. Nú fáum við að njóta þess að kaupa óeldaða „dumplings“ ásamt Dragon Dim Sum sósum í verslunum og elda heima, enda eru þeir langbestir nýeldaðir.

Fimma er frumkvöðlafyrirtæki sem framleiðir frostþurrkað ávaxta- og grænmetisduft úr grænmeti og ávöxtum sem annars væru vannýtt. Duftið er ætlað til notkunar í drykki eins og búst og auðveldar fólki inntöku grænmetis og ávaxta sem hjálpar þeim að uppfylla neysluviðmið landlæknis.

Fine Foods Íslandica er frumkvöðlafyrirtæki sem er fyrst á Íslandi til að framleiða þang (seaweed) og nýta það áfram í þróun á kryddum og öðru sem bragðbætir matinn.  Þangið er framleitt á umhverfisvænan hátt.

Fjölskyldubúið Hreppamjólk ætlar að koma með á markað gerilsneydda og ófitusprengda drykkjarjógúrt án sykurs. Við munum fá að njóta nokkurra bragðtegunda í nýju jógúrtlínunni.

Íslensk Sveppasósa er frumkvöðlafyrirtæki sem ætlar að þróa úrvals sósublöndu úr villtum vestfirskum sveppum. Þau munu nota bæði lerki- og furusveppi í sínar vörur.

Kaja og Ebba er samstarfsverkefni Karenar frá Kaja organic og Ebbu Guðnýjar frá Pure Ebba. Þær hafa tekið höndum saman og eru að þróa frosna glútenlausa pizzabotna þar sem brauðblanda Kaju er grunnurinn og uppskriftin kemur frá Ebbu.

Loki Foods er frumkvöðlafyrirtæki sem framleiðir matvæli sem líkjast kjöti og fisk úr grænmetisafurðum. Spennandi vöruframboð fyrir vegan og grænkera.

Svava sinnep er íslenskt matarhandverk sem að grunni er byggt á sænskri sinnepshefð en er að öllu leiti framleidd hér á Íslandi. Nú verður hægt að fá Svövu sinnep í gjafaumbúðum, hin fullkomna tækifærisgjöf.

Sýra er frumkvöðlafyrirtæki sem hefur verið að framleiða íslenskt Kimchi fyrir veitingahús. Nú verður hægt að fá alíslenskt súrsað grænmeti úr íslensku hráefni í verslunum. Fyrsta varan verður sterkt og bragðgott Kimchi.

Treatalicious er frumkvöðlafyrirtæki sem ætlar að bjóða íslenskum hundaeigendum upp á fyrsta flokks nammi fyrir hundana sína.  Hundanammið verður framleitt úr hliðarafurðum sláturhúsa.

Nánari upplýsingar um Uppsprettuna og næstu styrkúthlutanir má finna á heimasíðu sjóðsins www.uppsprettan.hagar.is

Uppspretta
Uppspretta
Uppspretta
Uppspretta
Uppspretta
Uppspretta
Uppspretta
Uppspretta
Uppspretta

MATARMARKAÐUR ÍSLENSKRA SMÁFRAMLEIÐENDA Í HAGKAUP

Með matarmarkaði íslenskra smáframleiðenda vill Hagkaup styðja við þann fjölbreytta hóp og vekja athygli á mikilli flóru af gæðavörum sem íslenskir frumkvöðlar hafa upp á að bjóða. 

Hagkaup hefur í gegnum árin unnið markvisst að því að efla samstarf við íslenska frumkvöðla sem eru að taka sín fyrstu skref á innanlandsmarkaði. Margir þeirra hafa náð góðum árangri og eru í dag með þekktar vörur í úrvali Hagkaups. 

Matarmarkaðir íslenskra smáframleiðenda gengu vonum framar á árinu og yfir 20 þátttakendur tóku þátt hverju sinni og stækkar markaðurinn með ári hverju. Hluti þeirra sem taka þátt hafa notið stuðnings úr Uppsprettunni, nýsköpunarsjóði Haga. 

Matarmarkaður Hagkaups

Sjálfbærni Sjálfbærniskýrslur dótturfélaga