GÓÐUR ÁRANGUR Í KREFJANDI REKSTRARUMHVERFI
Starfsemi Haga hf. á síðastliðnu rekstrarári gekk vel á öllum sviðum samstæðunnar. Aðstæður til rekstrar voru um margt svipaðar og á undanförnum árum, en þar bera hæst stöðugar og miklar hækkanir á verði aðfanga, hátt heimsmarkaðsverð og sveiflur á olíumörkuðum, áhrif kjarasamninga á vinnumarkaði og almennt hækkandi rekstrarkostnaður, auk hárrar verðbólgu og vaxta. Þetta geta vart talist kjöraðstæður til rekstrar fyrirtækja í smásölu, en einmitt þess vegna erum við stolt af þeim árangri sem náðist á árinu. Tekjur jukust eins og undanfarin ár og afkoma hefur haldið áfram að styrkjast. Niðurstöður ársins undirstrika að okkar mati styrk Haga til að takast á við ögrandi aðstæður, en einnig að umbætur og þróun á þjónustu og vöruframboði félagsins á undanförnum misserum hugnast viðskiptavinum rekstrareininga félagsins.
Eins og á síðustu árum jukust umsvif í starfsemi Haga töluvert á árinu. Heildartekjur voru 173 ma. kr. og hækkuðu um 7% á milli ára, en þeirri aukningu er þó misjafnlega skipt á milli starfsþátta. Um 70% tekna Haga, ríflega 122 ma. kr., falla undir starfsþáttinn verslanir og vöruhús. Þar undir falla m.a. einingarnar Bónus, Hagkaup, Eldum rétt, Zara, Stórkaup, Aðföng og Bananar, en alls jukust tekjur starfsþáttarins um 15% á milli ára. Fyrir utan áhrif hækkandi verðlags, þ.e. verðhækkana frá heildsölum og framleiðendum, þá var raunvöxtur ágætur sem er afleiðing fjölgunar viðskiptavina og seldra eininga í verslunum Haga sem og hjá Stórkaup og Eldum rétt. Þessi aukna eftirspurn skilar sér svo aftur í töluvert bættri afkomu starfsþáttarins miðað við fyrra ár.
HAGRÆÐING OG BREYTTAR ÁHERSLUR Í REKSTRI SKILA VIÐVARANDI REKSTRARBATA OLÍS
Rekstur Olís gekk vel á liðnu rekstrarári. Heildartekjur ársins numu tæpum 53 ma. kr. og lækkuðu um 9% á milli ára, en afkoma hefur þó sjaldan verði betri. Selt magn stóð nokkurn veginn í stað, þannig að tekjusamdráttur er fyrst og fremst til kominn vegna lækkunar á heimsmarkaðsverði olíu í samanburði við fyrra ár. Áfram var unnið að því að bæta ásýnd og þjónustuframboð þjónustustöðva Olís, m.a. með fjölgun rafhleðslustöðva í samstarfi við Ísorku, hollum skyndibita frá Lemon, uppbyggingu aðstöðu til pakkaafhendinga o.fl.
Olís opnaði einnig nýja og glæsilega þjónustumiðstöð á Fitjum í Reykjanesbæ, en lokaði sjálfsafgreiðslustöð ÓB við Egilsgötu, í samræmi við samkomulag við Reykjavíkurborg um fækkun bensínstöðva. Það sem helst skýrir ágæta afkomu Olís á árinu er að hagræðingarvinna síðustu missera er að miklu leyti komin til áhrifa, breyttar áherslur í rekstri þjónustustöðva hafa gengið vel og virk birgðastýring í tengslum við sölu til stórnotenda hefur skilað árangri. Tilkynnt var um það á vormánuðum þessa árs að eigendur Olíudreifingar (ODR), Olís og Festi, hefðu komist að samkomulagi um að hefja undirbúning sölumeðferðar á eignarhlutum félaganna í ODR og tengdum félögum. Um áramót urðu einnig framkvæmdastjóraskipti þegar Ingunn Svala Leifsdóttir var ráðin nýr framkvæmdastjóri Olís.
ALDREI FLEIRI VERSLAÐ VIÐ BÓNUS
Velta og umsvif Bónus hafa aukist mikið undanfarin ár og hafa verslanir Bónus aldrei fengið eins margar heimsóknir viðskiptavina og á liðnu ári, auk þess sem met var slegið í seldu magni. Gott gengi Bónus sýnir að áherslur í rekstri félagsins og loforð um að leitast ávallt við að bjóða upp á hagkvæmustu matvörukörfuna um land allt eiga vel við, sérstaklega á verðbólgutímum eins og nú eru.
Nýbreytni í starfsemi Bónus hefur einnig verið vel tekið. Hressi grísinn fellur vel í kramið og það sama má segja um lengri opnunartíma. Til viðbótar hefur uppfært vöruframboð og nýjar þjónustuleiðir aukið þægindi og sparað tíma fyrir viðskiptavini í verslunarferðum og eldamennsku. Þessu tengt kynnti Bónus á rekstrarárinu nýja útfærslu af skönnunarlausn, Gripið & Greitt, við mjög góðar undirtektir, en þjónustan er nú í boði í fimm verslunum. Nýjum verslunum í Norðlingaholti og Miðhrauni í Garðabæ var vel tekið, auk þess sem verslun Bónus í Holtagörðum var færð til og opnuð aftur í endurbættri útgáfu, sem jók fjölda viðskiptavina til muna.
Allar umbætur í starfsemi Bónus miða að því að bæta þjónustu við viðskiptavini, en þó þannig að fyllsta aðhalds í rekstri sé gætt. Hagkvæmni í rekstri og innkaupum eru og verða aðalsmerki Bónus, enda er það forsenda þess að hægt sé að bjóða upp á hagkvæmustu matvörukörfuna fyrir heimili um allt land, eins og ítrekað hefur verið staðfest í verðkönnunum á matvörumarkaði.
Björgvin Víkingsson var ráðinn nýr framkvæmdastjóri Bónus frá og með síðustu áramótum, en þá lét Guðmundur Marteinsson af störfum eftir meira en þriggja áratuga árangursríkt starf í þágu félagsins.
EITT AF STERKARI REKSTRARÁRUM Í LANGRI SÖGU HAGKAUPS
Hagkaup hélt upp á 64 ára afmæli á árinu með undirspili Bítlanna “When I´m sixty four” og reyndist rekstrarárið með þeim sterkari í sögu félagsins. Verslanir Hagkaups hafa tekið töluverðum breytingum á síðustu misserum. Þar ber hæst aukið úrval þægilegra, einfaldra og gómsætra lausna fyrir heimili, reglulegum uppákomum fyrir viðskiptavini og útvíkkun þjónustuframboðs í netverslun, m.a. með snyrtivöru, leikföng og veislurétti.
Árangur Hagkaups á síðasta ári ber þess einnig merki að vel hefur gengið að hagræða í rekstri félagsins, m.a. með aukinni sjálfvirkni í pöntunum og verðmerkingum, led-væðingu lýsingar verslana og notkun á umhverfisvænni og orkusparandi kælimiðlum. Hagkaup er að öllum líkindum „grænasta“ matvörukeðjan á landinu með tilliti til beinnar losunar gróðurhúsalofttegunda, enda fyrsta keðjan á Íslandi til að kolsýruvæða kælikerfi í öllum sínum verslunum, sem er langstærsti beini losunarþátturinn í rekstri matvöruverslana. Sjálfbærni og umhverfismál eru eitt af mikilvægu leiðarstefunum í starfsemi Hagkaups, en félagið hefur nú sýnt í verki að það stendur hvað fremst á markaði er þessi mál varðar.
ELDUM RÉTT MIKILVÆG VIÐBÓT VIÐ HAGA FJÖLSKYLDUNA
Eldum rétt hefur fest sig rækilega í sessi sem einföld og gómsæt lausn sem æ fleiri fjölskyldur og einstaklingar reiða sig daglega á við matargerð á heimilum. Félagið er frábær viðbót og valkostur við þjónustuframboð Haga, en kaupin á félaginu voru liður í viðleitni Haga til að laga starfsemi að breyttri neysluhegðun viðskiptavina og aukinni spurn eftir þægilegum, hollum og tímasparandi lausnum þar sem matarsóun er lágmörkuð.
Liðið rekstrarár var fyrsta heila starfsár Eldum rétt innan samstæðu Haga og fjölgaði þeim heimilum mikið á milli ára sem fá senda matarpakka úr netverslun, eða kaupa Einstaka rétti í Hagkaup. Aukningin var raunar það mikil að stækka þurfti framleiðslurými á síðasta ári, og telst Eldum rétt í dag líklega stærsta og vinsælasta netverslun með matvöru á landinu. Vöxtur og viðgangur félagsins hefur verið framar vonum, en áhugaverð tækifæri eru til frekari vaxtar á næstu árum.
STERKIR INNVIÐIR FORSENDA HAGKVÆMS REKSTRAR
Aðföng og Bananar mynda mikilvægt bakbein innkaupa og dreifingar sem hagkvæmur rekstur annarra fyrirtækja Haga, einkum verslana, grundvallast á. Töluvert hefur verið fjárfest í styrkingu innviða þessara félaga til að mæta aukinni eftirspurn, bæta þjónustu við viðskiptavini og búa í haginn til framtíðar. Lokið var við fyrsta áfanga stækkunar vöruhúss Aðfanga í Skútuvogi, sem nýttist vel í okkar stærstu verslunarmánuðum í kringum jólahátíðina. Sérstök áhersla hefur svo verið lögð á umbætur í gæðaferlum, sem og í upplýsingatækni, til að efla enn frekar skilvirkni í rekstri hjá Bönunum. Þá hafa Hagar tryggt sér húsnæði við Álfabakka í Reykjavík fyrir framleiðslustarfsemi, vörugeymslur og skrifstofur. Gert er ráð fyrir að húsnæðið verði tekið í notkun á árinu 2025, en það mun m.a. hýsa skrifstofur, eldhús og vinnslurými Ferskra kjötvara og Eldum rétt.
Stórkaup var sett á laggirnar til að nýta fyrrgreinda innviði Haga enn betur og bjóða rekstrar-, heilbrigðis- og matvöru á stórnotendamarkaði, en sú starfsemi hefur stækkað hratt á síðustu árum, einkum í hótel og veitingageira. Uppbygging félagsins hefur gengið vel og er rekstur samkvæmt áætlunum.
SAMSTARF UM FASTEIGNAÞRÓUN SKILAR ÁVINNINGI
Kjarninn í starfsemi Haga lítur að því að koma mikilvægri neysluvöru, dagvöru og eldsneyti, til viðskiptavina á sem allra skilvirkastan hátt. Á síðustu árum hefur það verið meginverkefni stjórnenda að styrkja rekstur á þessum kjarnasviðum, sem m.a. hefur verið gert með því að hliðra starfsemi á öðrum sviðum í skilvirkari farveg, en þó þannig að sérstaklega sé gætt að hagsmunum hluthafa. Þar ber hæst að verkefnum tengdum þróun og uppbyggingu fasteigna var beint til Klasa fasteignaþróunarfélags, þar sem Hagar eiga þriðjungs hlut. Með þessari ráðstöfun hefur skapast aukið svigrúm fyrir stjórnendur Haga til að einbeita sér að kjarnarekstri en um leið er flýtt fyrir verðmætasköpun á grunni þróunareigna Haga, auk þess sem tækifæri tengd öðrum eignum í safni Klasa verða til.
Starfsemi Klasa gekk vel á síðasta ári, en félagið hélt áfram þróun á eftirsóknarverðum byggingarreitum, undirbjó eigin byggingarframkvæmdir og vann að sölu á tilbúnum lóðum til byggingaraðila. Í dag fela þróunarverkefni á vegum Klasa í sér byggingarmagn sem telur ríflega 300.000 m2 en meirihluti þeirra fermetra geta verið tilbúnir fyrir byggingaraðila innan árs eða eru byggingarhæfir í dag. Eins og merkja má af hlutdeild Haga í afkomu Klasa á síðasta ári, þá hafa markmið um að flýta fyrir verðmætasköpun vegna þróunareigna samstæðunnar þegar gengið eftir að hluta. Við gerum ráð fyrir að Klasi muni áfram hafa jákvæð áhrif á afkomu Haga á næstu árum.
STAFRÆNAR ÁHERSLUR LEGGJA GRUNN AÐ AUKINNI ÞJÓNUSTU VIÐ VIÐSKIPTAVINI
Á síðustu árum hefur verið lögð sérstök áhersla á að byggja upp og styrkja stafræna innviði Haga, enda er ljóst að umbætur í starfsemi og svar við kalli viðskiptavina um aukið aðgengi og þjónustu byggja á einn eða annan hátt á upplýsingatækni. Fjárfestingar hafa annars vegar snúið að því að tryggja betur grunnrekstur upplýsingakerfa og auka rekstraröryggi. Hins vegar hefur þjónusta við viðskiptavini dótturfélaga Haga verið stóraukin, m.a. í formi netverslana fyrir Hagkaup og Stórkaup sem þjóna viðskiptavinum hvenær sem er og hvar sem er á landinu. Þessi vinna hefur svo lagt ákveðinn grunn að frekari þróun á þjónustu við viðskiptavini.
Í maí á síðasta ári var nýrri sjálfsafgreiðslulausn, Gripið & Greitt, hleypt af stokkunum í Bónus, en hún gerir viðskiptavinum kleift að skanna vörur beint í poka, sem sparar þeim handtök og tíma. Undirtektir viðskiptavina Bónus og notkun á lausninni hafa verið vonum framar, enda einföld leið til að stytta og auðvelda verslunarferðir, auk þess sem viðskiptavinir geta nýtt sér verkfæri á borð við innkaupalista, greiningar á innkaupum, verðsögu o.fl. Með tilkomu netverslana og lausna eins og Gripið & Greitt verður til grunnur upplýsinga sem mun skapa fjölda nýrra tækifæri til að bæta upplifun viðskiptavina og þjóna þeim enn betur til framtíðar.
SJÁLFBÆRNI FÆR AUKIÐ VÆGI Í STARFSEMI OG UPPLÝSINGAGJÖF
Mikil þróun er að eiga sér stað á regluverki um birtingu fyrirtækja á sjálfbærniupplýsingum og á síðasta ári hófum við markvissa vinnu til að aðlaga upplýsingagjöf Haga að breyttum kröfum. Stefna var mótuð og greining gerð á sjálfbærnitengdum áhrifum, áhættum og tækifærum í þeim tilgangi að ákvarða helstu og mikilvægustu viðfangsefni sjálfbærni fyrir samstæðuna. Þessi vinna lagði svo grunn að uppfærðri sjálfbærni- og umhverfisstefnu Haga auk þess sem við settum okkur mælanleg markmið og skilgreindum hvernig þeim skuli náð. Lögð er megináhersla á fjóra sjálfbærnitengda málaflokka í starfsemi Haga, þ.e.a.s. „umhverfið“, „mannauður“, „neytendur“ og „stjórnarhættir“.
Loftslagsbreytingar eru ein stærsta áskorun samtímans og eru þær þegar farnar að hafa áhrif á starfsumhverfi Haga. Birtingarmyndir þess felast einna helst í aðgerðum löggjafans til að sporna við slíkum breytingum, sem og í uppskerubrestum í virðiskeðju félagsins sem eru að verða tíðari en áður. Hjá Högum leggjum við ríka áhersla á að þekkja áhrif félagsins á loftslagið og draga markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda. Á síðasta ári útvíkkuðum við losunarbókhald samstæðunnar töluvert til að fá betri yfirsýn yfir þau óbeinu áhrif sem eiga sér stað í virðiskeðju samstæðunnar. Þetta hefur gert okkur betur kleift að koma auga á þær aðgerðir sem skila hvað mestum ávinningi fyrir loftslagið og samfélagið í heild.
Afrakstur af aðgerðum félagsins í umhverfismálum var heilt á litið góður á árinu. Mæld heildarlosun félagsins minnkaði um 1,5% eða því sem nemur tæplega 18 þúsund tonnum af koltvísýringsígildum, sem er sérstaklega góður árangur þegar horft er til þess að umsvif félagsins jukust talsvert á árinu. Það sem stóð upp úr í því samhengi voru aðgerðir dótturfélaga Haga til að draga úr losun vegna innflutnings, en þar náðist yfir 16% samdráttur þrátt fyrir aukningu á innfluttu magni. Þá halda aðgerðir dótturfélaga í úrgangsmálum áfram að bera árangur, en endurvinnsluhlutfall á samstæðugrundvelli var 76,1% árið 2023 samanborið við 69,4% árið á undan.
Frekari umfjöllun um aðgerðir og árangur félagsins í sjálfbærnimálum má finna í sérstökum kafla í ársskýrslu þessari.
STÍGANDI Í REKSTRI OG NÝ TÆKIFÆRI TIL SKOÐUNAR
Það hefur verið ágætur stígandi í rekstri og afkomu Haga á undanförnum árum og ljóst að stefnumótandi áherslur og aðgerðir til að styrkja rekstur á kjarnasviðum hafa skilað verulegum rekstrarbata og um leið auknu virði til hluthafa. Ekki verður kvikað frá þessum áherslum á næstu misserum, en til viðbótar er gert ráð fyrir að í auknum mæli verði horft til tækifæra í að byggja nýja tekjustrauma, bæði tengt núverandi starfsemi í verslun með matvöru og eldsneyti, en einnig nýjum stoðum til viðbótar við kjarnastarfsemi félagsins í dag. Í þeim tilgangi hafa Hagar unnið að því að styrkja sérstaklega það teymi sem ber ábyrgð á viðskiptaþróun innan samstæðunnar.
VERÐMÆTUM SKILAÐ TIL EIGENDA
Stjórn Haga hefur markað stefnu um fjármagnsskipan og arðgreiðslur sem ætlað er að styðja við uppbyggingu á starfsemi félagsins til framtíðar en um leið að félagið skili verðmætum sem rekstur félagsins skapar til hluthafa, í formi arðgreiðslna og endurkaupa á eigin hlutum. Hagnaður á árinu nam 5 ma. kr., sem er töluverð aukning frá árinu á undan að teknu tilliti til einskiptisliða á fyrra ári. Hagnaður á hlut hefur vaxið stöðugt og stendur nú í 4,59 kr., miðað við 2,15 kr. á sama tíma fyrir þremur árum.
Fjárhagsleg staða Haga er á alla mælikvarða sterk, 37% eiginfjárhlutfall og hófleg skuldsetning. Í ljósi sterkrar stöðu félagsins, ágætrar niðurstöðu rekstrar síðasta árs og í samræmi við arðgreiðslustefnu, þá leggur stjórn til við aðalfund 2024 að arðgreiðsla til hluthafa fyrir síðastliðið rekstrarár verði 2.522 millj. kr. eða sem nemi 2,33 kr. per hlut útistandandi hlutafjár og 50% af heildarhagnaði ársins. Þá er einnig gert ráð fyrir að heimild til kaupa á eigin bréfum verði nýtt í endurkaupaáætlanir á næstu mánuðum.
VARNARSTAÐA GEGN VERÐBÓLGU ER ALLRA HAGUR
Stöðugar og miklar hækkanir aðfanga frá heildsölum og framleiðendum hafa verið eitt allra snúnasta verkefni í rekstri dagvöruverslana á undanförnum árum. Síðastliðið ár var að þessu leyti sínu verst, enda komu þá fram áhrif stríðs í Evrópu á hrávörumarkað og orkuverð, sem skilaði sér í mikilli verðbólgu sem landsmenn fóru ekki varhluta af.
Eins og undanfarin ár hefur það verið okkar mikilvægasta verkefni að vinna gegn verðhækkunum í dagvöru, sem þó hafa verið óhjákvæmilegar vegna hækkunarþrýstings á aðfangahliðinni. Þetta höfum við gert með því að gæta að hagkvæmni í rekstri og gæta hófs í álagningu, en framlegð hefur að undanförnu verið lág í sögulegu samhengi. Við höfum í þessari viðleitni átt ágætt samtal við marga af okkar helstu samstarfsaðilum, heildsala og framleiðendur, sem deila þessu verkefni með okkur og hafa margir hverjir lagt töluvert á sig til að gæta hófs og draga úr boðuðum verðhækkunum. En betur má ef duga skal, því samstaða um stöðugleika verðs liggur til grundvallar þess að markmið nýgerðra kjarasamninga náist. Það er hagur allra.
STERK STAÐA HAGA ENDURSPEGLAR TRAUST NEYTENDA
Við erum bjartsýn á rekstur Haga á næstu misserum og árum. Fjárhagur félagsins stendur traustum fótum, allar helstu rekstrareiningar eru hver á sínu sviði í sterkri stöðu og áhugaverð tækifæri blasa við í rekstri félagsins, bæði hjá núverandi einingum og á mögulegum nýjum sviðum.
Þessi ágæta staða er afrakstur ötullar vinnu um 2.700 starfsmanna Haga og dótturfélaga, sem á hverjum degi leggja sig fram við að þjóna viðskiptavinum og gera verslun hagkvæma, þægilega og skemmtilega.
Þessum öfluga hópi þökkum við óeigingjarnt starf í þágu félagsins. Við þökkum einnig samstarfsaðilum okkar fyrir árangursríkt samstarf, og síðast en ekki síst viljum við þakka viðskiptavinum fyrir traustið sem þau sýna okkur dag hvern allt árið um kring.