Á vegum Haga eru reknar sjö sjálfstæðar rekstrareiningar með ólík rekstrarform og menningu. Allar einingarnar leggja áherslu á hagkvæman rekstur, góða þjónustu og hámörkun á virði fyrir eigendur félagsins. Rekstrareiningar Haga búa yfir áralangri þekkingu á viðskiptum og smásölu og byggja á trausti viðskiptavina sem áunnist hefur um langt árabil.
HLUTVERK HAGA
Hlutverk Haga er að veita rekstrareiningum félagsins stuðning og aðhald í rekstri ásamt því að virkja rekstrar-, markaðs-, tækni- og viðskiptalega samlegð fyrirtækjanna til aukins hagræðis fyrir viðskiptavini og eigendur félagsins. Allar rekstrareiningar Haga leggja áherslu á hagkvæman rekstur, sjálfbærni og góða þjónustu. Við leggjum áherslu á getu allra eininga til þess að hreyfa sig hratt og flækjum ekki einfalda hluti.
GILDI HAGA
Hagkvæmni
Við leitum stöðugt nýrra leiða til að geta boðið neytendum meira fyrir minna.
Samvinna
Styrkur Haga felst í innbyrðis samvinnu eininganna og uppbyggilegu samstarfi við alla okkar viðskiptavini.
Þjónustulund
Án viðskiptavina væru Hagar ekki til. Við viljum alltaf bæta þjónustu og upplifun þeirra.
Framsækni
Við viljum halda áfram að þróa íslenska verslunarflóru og bjóða neytendum upplifun og gæði í fremstu röð á heimsvísu.
STERKARI SAMAN
Allar rekstrareiningar Haga eru reknar sem sjálfstæðar einingar en með áherslu á samvinnu, m.a. með því að byggja á sameiginlegum innviðum og deila þekkingu. Hjá félögum Haga starfa tæplega 2.500 starfsmenn í um 1.400 stöðugildum sem á hverjum degi hafa áhrif á daglegt líf fólks í landinu með sínum störfum. Starfsfólk félagsins býr yfir áralangri þekkingu á verslun og hefur byggt upp viðskiptatengsl um allan heim við birgja og framleiðendur.
HÖFUM JÁKVÆÐ ÁHRIF
Hagar leggja áherslu á sjálfbærni í allri sinni starfsemi og taka virkan þátt í samfélagslegum verkefnum. Starfsfólk og stjórnendur Haga trúa því að það sé ekkert "plan B" og nálgumst við því öll verkefni með það fyrir augum að þau hafi jákvæð áhrif á umhverfi og samfélag. Einnig taka rekstrareiningar Haga virkan þátt í fjölbreyttum lýðheilsu og samfélagslegum verkefnum.
-
Matvöruverslanir 37
-
Þjónustustöðvar 67
-
Vöruhús og sérvöruverslanir 6
-
Fjöldi starfsmanna 2.483
REKSTRAREININGAR HAGA
Innan þeirra sjö rekstrareininga sem Hagar starfrækja í lok rekstrarárs eru 37 matvöruverslanir, 25 Olís þjónustustöðvar og 42 ÓB-stöðvar um allt land. Einnig rekur félagið tvö vöruhús, tvær framleiðslustöðvar, eina birgðaverslun og eina sérvöruverslun. Kjarnastarfsemi Haga er á sviði verslunar með dagvöru og eldsneyti og tengdrar starfsemi vöruhúsa. Hagar eru skráðir á aðallista NASDAQ OMX Iceland með auðkenninu HAGA. Höfuðstöðvar félagsins eru í Kópavogi.
Dótturfélög í samstæðu Haga, þar sem rekstrareiningar félagsins eru starfræktar, eru Hagar verslanir ehf., Olís ehf., Bananar ehf., Noron ehf.,og Mjöll Frigg ehf., sem er dótturfélag Olís. Þá var Stórkaup ehf. stofnað undir lok rekstrarárs en starfsemi hefst hjá félaginu á fyrri hluta rekstrarárs 2022/23.
Undir hatti Haga verslana ehf. eru fyrirtækin Bónus, Hagkaup og Aðföng. Bónus og Hagkaup eru tvær af stærstu matvöruverslunarkeðjum landsins og sinnir vöruhúsið Aðföng innflutningi, innkaupum og dreifingu fyrir matvörukeðjurnar og Olís.
Olís ehf. sérhæfir sig, auk annars, í sölu og þjónustu með eldsneyti. Mjöll Frigg er dótturfélag Olís.
Bananar ehf. er stærsti dreifingaraðili á fersku grænmeti og ávöxtum á Íslandi. Noron ehf. rekur tískuvöruverslunina Zara í Smáralind.
Djús ehf. er hlutdeildarfélag Haga en á árinu 2021 eignuðust Hagar 49% hlut í félaginu, sem rekur veitingastaði undir merkjum Lemon.
Regluvörður Haga er Guðrún Eva Gunnarsdóttir. Staðgengill regluvarðar er Ólafur Arinbjörn Sigurðsson. Tölvupóstfang regluvarða er regluvordur@hagar.is.
Um Haga Bónus
-
Opnaði Apríl 1989
-
Fjöldi verslana 30
-
Fjöldi starfsmanna 923
-
Vörunúmer 3.000+
-
Sama verð um allt land
Bónus var stofnað árið 1989 þegar fyrsta verslunin var opnuð við Skútuvog 13 í Reykjavík. Viðtökur landsmanna við hinni nýju verslun voru frábærar enda vöruverð mun lægra en þá þekktist. Eftir því sem að árunum líður hefur verslunum fjölgað og voru þær í árslok 2021/22 alls 30 talsins, 18 staðsettar á höfuðborgarsvæðinu og 12 á stórum þéttbýlisstöðum á landsbyggðinni. Á rekstrarárinu var unnið að undirbúningi opnunar þriðju verslunar Bónus á Akureyri, við Norðurtorg, og hóf hún starfsemi á fyrsta ársfjórðungi 2022/23.
Markmið Bónus sem lágvöruverðsverslun hefur alla tíð verið að tryggja neytendum um land allt lægsta mögulega vöruverð hverju sinni. Lykillinn að því hefur verið lágur rekstrarkostnaður, íburður í lágmarki, hagkvæmari opnunartími, takmarkað vöruúrval sem spannar þó allar þarfir heimilisins, stöðugt kostnaðaraðhald og mikill veltuhraði. Leiðarljós fyrirtækisins hefur ávallt verið að láta viðskiptavini njóta ávinnings af hagstæðum innkaupum og hagkvæmum rekstri.
Sjálfbærni og stuðningur við samfélagið hefur verið lykilþáttur í rekstri Bónus allt frá stofnun. Allar verslanir Bónus hafa til að mynda flokkað plast, pappa og annan úrgang í fjölda ára. Bónus kolefnisjafnar rekstur allra verslana sinna fyrir árið 2021. Bónus hefur einnig styrkt fjölbreytt lýðheilsuverkefni á landinu öllu.
Hjá Bónus störfuðu í árslok 923 starfsmenn og var meðalfjöldi stöðugilda 413 á árinu.
Um Haga Hagkaup
-
Opnaði 1959
-
Fjöldi verslana 7
-
Fjöldi starfsmanna 766
-
Vörunúmer 60.000+
Hagkaup var stofnað árið 1959 og á starfsemi fyrirtækisins djúpar rætur í samfélaginu enda verið órofinn hluti af verslunarsögu landsins í rúm 60 ár. Í upphafi var Hagkaup rekið sem póstverslun sem sendi vörur beint frá birgðageymslu og upp að dyrum kaupandans. Fyrsta Hagkaupsverslunin var svo opnuð við Miklatorg árið 1967 og árið 1970 opnaði Hagkaup verslun sína í Skeifunni, sem er eitt helsta flaggskip starfseminnar, enn þann dag í dag.
Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá því fyrsta verslunin leit dagsins ljós og hefur rekstur Hagkaups ávallt aðlagað sig að síbreytilegu neyslumynstri landsmanna. Í dag er megináhersla lögð á breitt úrval í matvöru, snyrtivöru og leikföngum, auk þess sem seldar eru heimilisvörur, tómstundavörur og fatnaður. Hagkaup kappkostar að bjóða upp á landsins fjölbreyttasta vöruúrval og gera verslunarferðina eins ánægjulega og mögulegt er, allt á einum stað. Í byrjun apríl 2020 endurvakti Hagkaup netverslun sína með sölu á leikföngum og matvöru en eitt stærsta verkefni rekstrarársins 2021/22 var að undirbúa opnun stærstu snyrtivöruverslunar landsins á netinu, sem leit svo dagsins ljós á fyrsta ársfjórðungi 2022/23.
Í árslok rak Hagkaup sjö verslanir, þarf af sex á höfuðborgarsvæðinu og eina á Akureyri. Tvær verslanir Hagkaups, í Skeifunni og Garðabæ eru opnar allan sólarhringinn. Verslun Hagkaups á Selfossi var lokað í maí 2021.
Hagkaup hefur unnið ötullega í umhverfismálum sínum á síðustu árum, sem og aðgerðum til að minnka rýrnun og þar með matarsóun. Verslunin hefur kolefnisjafnað rekstur ársins 2021 í samvinnu við Kolvið. Einnig hefur verslunin unnið markvisst með birgjum í minnkun á plastnotkun innan verslana með góðum árangri.
Í árslok voru starfsmenn fyrirtækisins 766 talsins og meðalfjöldi stöðugilda ársins var 347.
Um Haga Olís
-
Opnaði 1927
-
Fjöldi þjónustustöðva 25
-
Fjöldi ÓB stöðva 42
-
Fjöldi starfsmanna 459
Olís ehf. var stofnað árið 1927 og er því elsta fyrirtækið í samstæðu Haga. Olís sérhæfir sig í sölu og þjónustu með eldsneyti og aðrar olíuvörur, auk skyndibita, ýmissa nauðsynjavara fyrir bílaeigendur, vörum til útivistar og ferðalaga ásamt fjölþættri þjónustu við sjávarútvegs-, verktaka- og flutningafyrirtæki um land allt.
Grunnrekstur Olís hefur ávallt verið eldsneytissala, en með nýtingu á dreifineti fyrirtækisins og sérfræðiþekkingu hefur aukist sala á öðrum vörum, líkt og smurolíum, efnavörum, rekstrarvörum, gasi og nýlenduvörum. Olís á 40% hlut í Olíudreifingu ehf. en Olíudreifing sér m.a. um birgðahald og dreifingu á fljótandi eldsneyti fyrir Olís.
Hlutverk Olís er að vera verslunar- og þjónustufyrirtæki í fremstu röð á fyrirtækja- og einstaklingsmarkaði. Markmið fyrirtækisins er að bjóða viðskiptavinum góðar og samkeppnishæfar vörur á samkeppnishæfu verði, ásamt sveigjanlegu sölu- og þjónustukerfi um land allt. Þá leggur Olís áherslu á umhverfisvernd og mannúðarmál.
Í árslok rak Olís 26 þjónustustöðvar vítt og breitt um landið undir vörumerki Olís, þar af 8 á höfuðborgarsvæðinu. Markmið þjónustustöðva Olís er að vera „vinur við veginn“ og vera áfangastaður viðskiptavina á ferðinni um landið. Á stærstu þjónustustöðvum sínum rekur Olís skyndibitamerkin Grill 66 og ReDi Deli. Í desember 2021 opnaði Lemon veitingastað sinn í Norðlingaholti en áætlanir eru um að opna fleiri Lemon staði á þjónustustöðvum Olís á árinu 2022.
Á fjórum þjónustustöðvum Olís; í Álfheimum í Reykjavík, Siglufirði, Reyðarfirði og Höfn í Hornafirði, hafa verið settar upp hraðhleðslustöðvar fyrir bíla sem ganga fyrir rafmagni og verður slíkum stöðvum fjölgað jafnt og þétt.
Fyrsta ÓB-sjálfsafgreiðslustöðin var opnuð árið 1996 í Hafnarfirði en þær eru nú orðnar 42 talsins um land allt, þar af 10 á höfuðborgarsvæðinu og 32 á landsbyggðinni.
Olís starfrækti á rekstrarárinu birgðaverslunina Rekstrarland. Rekstrarland, sem opnuð var 2014, er sérverslun með ýmiss konar rekstrar-, heilbrigðis- og efnavörur. Versluninni var lokað á fyrsta ársfjórðungi 2022/23 þegar Stórkaup ehf., dótturfélag Haga, tók við hlutverki Rekstrarlands.
Mjöll Frigg ehf. er dótturfélag Olís en félagið varð hluti af samstæðu Haga í janúar 2020. Mjöll Frigg er einn stærsti framleiðandi á hreinlætisvörum á Íslandi og hefur áratuga reynslu við að veita öllum iðnaði á Íslandi góða þjónustu og hreinlætisvörur sem henta þörfum iðnaðarins. Framkvæmdastjóri Mjallar Frigg er Sigrún Guðmundsdóttir.
Olís hefur í gegnum tíðina hugað vel að umhverfismálum sínum og átt í gjöfulu samstarfi við Landgræðsluna, allt frá árinu 1992. Olís hefur að sama skapi kolefnisjafnað rekstur sinn í samstarfi við Landgræðsluna og tekur einnig þátt í kostnaði þeirra viðskiptavina sem kjósa að kolefnisjafna eldsneytiskaup sín hjá bæði Olís og ÓB.
Í árslok störfuðu 459 starfsmenn hjá Olís og meðalfjöldi stöðugilda ársins var 354. Hjá Mjöll Frigg störfuðu 14 starfsmenn í 12 stöðugildum.
Um Haga Bananar
Bananar ehf. var stofnað árið 1955 og er næst elsta fyrirtækið í samstæðu Haga. Bananar er stærsti dreifingaraðili á fersku grænmeti og ávöxtum á Íslandi og jafnframt eitt stærsta innflutningsfyrirtæki landsins. Eins og nafnið gefur til kynna voru fyrstu starfsár fyrirtækisins helguð innflutningi og þroskun banana. Síðan þá hafa áherslur breyst og í dag býður fyrirtækið upp á mikið og gott úrval af bæði íslensku og erlendu grænmeti og ávöxtum allan ársins hring. Vörum er dreift til viðskiptavina sex daga vikunnar, þar af til verslana Bónus og Hagkaups.
Viðskiptavinir Banana eru hátt í 900 talsins og samanstanda þeir af verslunum, veitingahúsum, sjúkrahúsum, skólum, leikskólum, mötuneytum o.fl. Vöruhúsið afgreiðir um 400 pantanir daglega sem nema um 80-100 tonnum af fersku og hollu grænmeti og ávöxtum.
Bananar hafa viðskiptasambönd út um allan heim og beina því viðskiptum sínum beint til þeirra landa þar sem gæði ávaxta og grænmetis er best hverju sinni.
Starfsmenn fyrirtækisins voru í árslok 81 talsins í 78 stöðugildum
Um Haga Aðföng
Árið 1993 stofnuðu Bónus og Hagkaup sameiginlegt innkaupafyrirtæki undir nafninu Baugur ehf., en fyrirtækið fékk nafnið Aðföng fimm árum síðar. Aðföng er innkaupa- og dreifingarmiðstöð á smásölu- og stórnotendamarkaði en starfsemi fyrirtækisins felst í innkaupum, birgðahaldi og dreifingu fyrir verslanir Bónus, Hagkaups og Olís.
Innkaup Aðfanga felast annars vegar í viðskiptum við innlenda birgja og hins vegar innflutningi, þ.á.m. eigin vörumerkja. Aðföng vinnur að vöruþróun eigin merkja í samstarfi við matvörukeðjurnar en þar ber hæst vörumerkin Himneskt og Heima. Aðföng flytur einnig inn áfengi sem selt er í verslunum ÁTVR og er verkefninu stýrt í gegnum Vínföng. Markvisst hefur verið unnið að uppbyggingu í vöruflokknum síðastliðin ár og hefur vörunúmerum fjölgað jafnt og þétt.
Aðföng er eitt stærsta og tæknivæddasta vöruhús landsins. Þar er lögð mikil áhersla á stærðarhagkvæmni og er nýjasta tækni nýtt við rekstur vöruhússins hvar sem því verður við komið. Vöruhús Aðfanga er því sem næst pappírslaust og öflug tölvukerfi halda utan um feril vara frá upphafi til enda. Aðföng reka einnig alla starfsemi Ferskra Kjötvara sem að vinnur kjöt úr nauti og lambi. Ferskar Kjötvörur leggja mikla áherslu á ferskleika, gæði og rekjanleika vara. Ferskar Kjötvörur sjá verslunum Hagkaups og Bónus fyrir kjöti og selja einnig til veitingahúsa og annarra aðila.
Hjá fyrirtækinu störfuðu í árslok 153 starfsmenn í 136 stöðugildum.
Um Haga Zara
Hagar reka sérvörukeðjuna Zöru. Zara er ein stærsta tískuverslunarkeðja í heimi og selur fatnað og fylgihluti fyrir dömur, herra og börn á góðu verði.
Grunnurinn að velgengni vörumerkisins Zara á heimsvísu felst einna helst í því að greina óskir viðskiptavina og bregðast hratt við þeim. Varan er hönnuð í takt við stefnur og strauma í tískuheiminum hverju sinni og ráða viðtökur og óskir viðskiptavina frekari framleiðslu og vöruþróun.
Mikil áhersla er lögð á sanngjarnt verð og hraða vöruveltu en áhersla er lögð á að nýjar vörur séu á boðstólnum að lágmarki tvisvar í viku. Einnig hefur verslunarkeðjan unnið ötullega í sjálfbærni, meðal annars með því að endurvinna notaðan fatnað, breyta honum í nýjan og notast við umhverfisvænni efni í fatnað sinn.
Fyrsta verslun Zara opnaði á Íslandi árið 2001 og í dag starfrækja Hagar eina verslun undir merki Zara með sérleyfissamningi frá Inditex á Spáni. Verslunin er staðsett í Smáralind.